Loading

ÁT FYLGJUNA TIL AÐ FORÐAST FÆÐINGARÞUNGLYNDI

Ég elska þegar ég les fréttir þar sem ég þarf fyrst að fljúgast á við mína eigin fordóma til að geta meðtekið skilaboðin. Fylgjur eru ótrúlegt fyrirbæri og ég hef lesið ótrúlega margt merkilegt um ýmislegt sem við erum ekki að gera hér á landi – eins og t.d. að tæma úr fylgjunni yfir í líkama barnsins áður en klippt er á strenginn og ýmislegt annað í þeim dúr sem tíðkast víða erlendis. Þetta með að láta fylgjuna hanga á barninu í nokkra daga er eitthvað sem ég skil ekki – hvað þá að leggja sér hana til munns (en hey – þetta eru mínir prívat fordómar og ég er að vinna í þeim).

Skemmtifrétt dagsins fjallar einmitt um þessa iðju og er reyndar bara nokkuð sniðug útfærsla verð ég að segja.

Hjónin Randi og David Serchuk eignuðust soninn Sam þann 13. ágúst. Voru þau þá þegar búin að ákveða að Randi myndi borða fylgjuna að fæðingu lokinni…

Haldið áfram að lesa – hún var ekki flamberuð á ferða-gashellu inn á fæðingarstofunni heldur var hún þurrkuð eftir kúnstarinnar reglum og sett í hylki.

Ástæðan var sú að Randi þjáðist af heiftarlegu fæðingarþunglyndi við fæðingu fyrra barns þeirra og vildi gera allt til að forðast það í þetta skipti. Á fæðingarnámskeiði sem þau sóttu talaði kennarinn um að þurrkuð fylgja í hylkjum gerði kraftaverk til að koma mömmunni í form eftir fæðingu með því að bæta hormónabúskapin, auka orku, minnka blæðingar og bæta mjólkurbúskapinn.

Þau ákváðu því að reyna þetta og leituðu til fyrirtækis sem heitir Embrace After Birth og sérhæfir sig í að þurrka fylgjur og setja í hylki. Heildarkostnaðurinn við framkvæmdina var um 200 dollarar og með fylgdi þurrkaður nafnastrengur, fylgjuþrykk til innrömmunar ásamt leiðbeiningum um inntöku fylgjuhylkjanna.

Í dag er kominn október og David segir að enn hafi ekkert fæðingarþunglyndi látið á sér kræla. Aðspurður hvort hann trúi á undramátt fylgjuhylkjanna segist hann ekki hafa hugmynd hvort þau virki og sé alveg sama. Konunni hans líði hins vegar betur og það sé það eina sem skipti máli.

Mynduð þið borða fylgjuna ef ykkur stæði þessi þjónusta til boða?

X