Loading

FÆÐING OG MARAÞON

Mér finnst óneitanlega snjallt þegar fæðingu og maraþoni er líkt saman. Finnst tengingin þarna á milli augljós án þess að hafa nokkru sinni hlaupið maraþon eða undirbúið mig fyrir það. Ég hef hinsvegar fylgst með fullt af fólki undirbúa sig fyrir hvort tveggja, maraþon og barnsfæðingu.

Hvort tveggja tekur á og kostar oft blóð svita og tár. Það er ekkert grín að hlaupa maraþon og konur þurfa yfirleitt að taka á öllu sínu til að koma barni í heiminn. Það hjálpar að vera í góðu formi þegar mætt er til leiks.

Yfirleitt gengur betur ef undirbúningurinn hefur verið góður, gott að vita við hverju eigi að búast, hvar erfiðu kaflarnir liggja og sjá til marks.

Það skilar sér að hafa undirbúið sig líkamlega og hugsa um næringuna, ekki síst síðustu dagana fyrir stóra daginn og það margborgar sig að mæta vel hvíldur til leiks og með rétt hugarfar. Kona sem trúir því að hún klári hlaupið með stæl er líklegri til að gera það en hin sem leggur af stað sannfærð um að þetta gangi aldrei lengra en fyrstu fimm kílómetrana.

Stuðningur fólksins í kringum mann skiptir miklu máli, að þeir styðji við ákvarðanir manns og vilja. Skilji mann og virði. Stuðningurinn er ekki síst í því að styðja mann til þess að gera hlutina eins og maður vill en ekki öfugt. Stuðningsmennirnir verða líka að mæta á réttum tíma, vera vel inn í aðstæðum og vita hvenær er tími til að hvetja áfram, þegja og hvenær þarf að kalla á hjálp.

Í báðum tilfellum er líka gott að vita hvenær er skynsamlegt að þiggja hjálp til að komat á leiðarenda og hvenær er sniðugt að láta bera sig í mark eða fá einhvern til að hlaupa með sér á leiðarenda.

Samlíkingin við maraþon og svo sem öll önnur íþróttaafrek er nokkuð snjöll og minnir mann á að það er ekki síst tíminn á undan og undirbúningurinn sem skiptir máli og að búast megi við átökum og gleði að náðu takmarki. Því jafnvel þó einhvern tíma hafi konur bara unnið út á ökrum og fætt sín börn án nokkurs undirbúnings að þá er skynsamlegt að eyða tíma og orku í að spá aðeins í hlutina og undirbúa sig.

Samlíkingin er vissulega takmarkandi líka, það eru ekkert allir æstir í að hlaupa maraþon og ekki eru allir fylgjandi því að hlaupa bara út í eitt og hlauparar geta vissulega hætt við á síðustu stundu og ekki mætt á ráspól meðan fæðing er svona einstefna, það er ekki hægt að hætta við.

Fyrirsjáanleikinn er mikið meiri þegar hlaupið er maraþon, þá er ákveðinn dagur og ákveðinn tími fyrir hlaupið. Maraþonhlauparar þurfa ekki að sitja heima og bíða eftir því að vera ræstir út upp á von og óvon í hlaup og stundum svo að þeir byrji að hlaupa og svo er hætt við hlaupið, allir sendir heim til að vera kallaðir aftur út eftir nokkra klukkutíma, jafnvel ítrekað.

– –

Soffía Bæringsdóttir er kennari, doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X