Loading

14 ÁRA KEYPTI HÚS – LEIGIR ÞAÐ ÚT

Bandaríkin – Þetta er sannarlega furðufrétt dagsins og einstaklega hvetjandi svo að ekki sé meira sagt. Hin 14 ára gamala Willow Tufano keypti sér á dögunum einbýlishús og leigir það út fyrir 700 dollara á mánuði – sem gerir tæpar hundrað þúsund krónur.

Forsaga málsins er sú að móðir Willow er fasteignasali og hefur Willow litla því bókstaflega verið í fasteignabransanum frá því að hún var 7 ára gömul og móðir hennar fór að taka hana með á fundi endrum og eins. Móðirin var mikið að skipta við fjárfesta sem voru að kaupa hús á nauðungaruppboðum og einhverju sinni spurði Willow einn þeirra hvað hann ætlaði að gera við allt dótið sem væri inn í húsinu. Stóð til að henda því en Willow fékk leyfi til að hirða það og selja. Smám saman fór hún að selja dót inn á Craig´s list (Barnaland þeirra í Bandaríkjunum) og mánaðartekjurnar jukust. Á endanum átti hún nóg til að kaupa sér hús fyrir 12 þúsund dollara en húsið var á nauðungaruppboði og kostaði upphaflega yfir 100 þúsund dollara.

Húsið keypti hún reyndar með móður sinni og gerðu þær það upp og leigja út fyrir 700 dollara á mánuði eins og fram hefur komið.

Málið hefur vakið eftirtekt í Bandaríkjunum og sitt sýnist hverjum. Sumir froðufella yfir græðginni í þeim mæðgum á meðan aðrir fagna framtaki þeirra – ekki síst þar sem flestar jafnöldrur hennar eru að spá í allt aðra hluti…

X