Loading

TÍU HEILRÆÐI

Það er skrýtið hvernig hlutir sem við óskum okkar koma stundum til okkar áður en við vitum af. Þegar ég sá auglýst eftir mömmubloggurum hjá Foreldrahandbókinni hugsaði ég: Þetta er kannski eitthvað fyrir mig! Mig hefur lengi langað til að vinna með og á meðal foreldra, jafnvel á opinberum vettvangi, og nú er tækifærið komið til mín!

Ég vil því nota þetta tækifæri og byrja pistlana mína á jákvæðu nótunum, gefa heilræði og segja ykkur hverjar stoðirnar í uppeldinu eru á mínu heimili. Mér finnst nefnilega mjög mikilvægt að foreldrar standi saman og deili góðum ráðum. Nóg er af hinu. Ég ætla að byrja á 10 atriðum en auðvitað er þetta ekki tæmandi listi.

Ég á þrjú smábörn þriggja ára og yngri og það þarf að halda vel á spöðunum til að allt gangi vel fyrir sig og öllum líði vel. Ég reyni að hafa það í huga á hverjum degi að börnum líður best í fyrirsjáanlegu og vel skipulögðu umhverfi þar sem reglur og viðmið eru skýr en þó er hægt er að semja um eitt og annað. Öðru hvoru er hversdagurinn svo brotinn upp og munið að tilhlökkunin er hluti af skemmtuninni sjálfri.

  1. Haldið fast í gleðina og tilhlökkunina sem oftast fylgir óléttunni inn í foreldrahlutverkið og takið ykkur ekki of alvarlega. Þetta er hellingsvinna en reynið að slaka á og njóta samverunnar með barninu ykkar þegar það er hægt. Ég var mjög upptekin af því að gera allt rétt og eftir bókinni með fyrsta barnið mitt og hefði alveg mátt slaka aðeins á. Ef ég var ekki að venja drenginn á eitthvað var ég að venja hann af einhverju. Eftir á að hyggja gerðist margt af þessu sem ég var að venja hann af eða á bara af sjálfu sér með tímanum. Ég þarf enn að minna mig á þetta á hverjum degi!
  2. Hafið í huga að börn gera eins og þið gerið en ekki eins og þið segið. Leitist við að vera góðar fyrirmyndir í einu og öllu – alltaf! Munið að góð fyrirmynd kann líka að biðjast afsökunar ef mistök eru gerð.
  3. Hugið vel að og standið vörð um svefntíma barnanna. Lykillinn að vellíðan allra á heimilinu er góður og nægur svefn. Svefn á að vera í fyrirrúmi skipulagsins alla daga. Ef börn eru með svefnvandamál verða foreldrar að fá aðstoð til að geta lagt sig eða sofið eina nótt hér og þar án truflunar og hlaðið batteríin. Raunin er líka sú að oft sofa börn betur ef foreldrarnir eru ekki nálægt! Ég hvet því hér með fjölskyldumeðlimi, ömmur og afa, til að vera vakandi fyrir áhrifum svefnleysis á nýbakaða foreldra og bjóða fram aðstoð sína. Vansvefta foreldrar eru oft uppburðarlitlir og langþreyttir og hafa það ekki í sér að biðja um hjálp og hafna henni jafnvel þótt hún bjóðist. Til að skapa traust er mikilvægt að bjóða fram aðstoð sem byggist á forsendum foreldranna. Takið tillit til foreldranna og tilfinninga þeirra. Og til foreldra sem eiga börn með svefnvandamál – fólk sem ekki er með smábörn lifir það af að passa lítinn öskurapa part úr degi eða eina nótt. Það leggur sig bara á eftir! Ekki vera feimin við að biðja um aðstoð.
  4. Hafið matartímana á sama tíma alla daga og hugið að hollustu í matarvali. Södd og vel nærð börn og foreldrar eru líkleg til að eiga góðar stundir saman.
  5. Gefið börnunum ykkar fitu. Læðið hollum olíum og fiskiolíum í matinn þeirra. Fitan er límið í taugaboðum heilans og hana á ekki að spara við börn sem eru að þroskast.
  6. Hafið í huga að þó að börnin hafi borðað vel á leikskólanum geta þau samt verið banhungruð þegar þau koma heim. Gefið börnunum létt snarl (ávexti, mjólkursopa, brauð með smjöri og osti eða annað seðjandi) um leið og þau koma heim af leikskóla eða úr gæslu, jafnvel í bílnum (þá eitthvað sem ekki veldur köfnunarhættu) eða þegar þið gangið saman heim. Snarlið getur komið í veg fyrir alls kyns leiðindi og bætir samverustundir barna og foreldra fram að kvöldmatartíma. Veljið snarl sem truflar ekki matarlyst að kvöldi.
  7. Brjótið upp hversdaginn um helgar, farið í heimsókn eða gerið eitthvað annað skemmtilegt með öðrum. Það þarf ekki að kosta krónu! Til dæmis er það tilbreyting fyrir börnin að fara á nýjan leikvöll og göngutúr niður Laugaveginn í góðu veðri er líka góð skemmtun.
  8. Ekki hafa dagskrá helganna þaulskipulagða í stanslaust útstáelsi. Hvíld og rólegheit fjölskyldunnar eftir annasama viku ættu að vera jafn sjálfsagður hluti af helgunum eins og heimsóknir eða önnur skemmtun.
  9. Hugsið vel um foreldrasambandið ef þið eruð í sambúð. Alla daga – alltaf! Foreldrar ættu að setjast niður í að minnsta kosti 10 mínútur á degi hverjum og tala saman um það sem þarf að ræða. Einnig ættu foreldrar að taka að minnsta kosti 10 mínútur á hverjum degi í að tala um allt annað en það sem þarf að tala um, semsagt bara um eitthvað skemmtilegt! Og munið að heilsast og kveðjast með knúsi og kossi til að auka nándina. Þá mæli ég með stefnumótakvöldi einu sinni í mánuði þar sem foreldrar eru barnlausir, annað hvort heima eða að heiman. Með góðu skipulagi og fyrirvara má virkja vini, ættingja eða barnapíur til að passa eina kvöldstund eða eina nótt í mánuði. Það hljómar kannski illa en allur tími sem foreldrar fá saman án barna skiptir máli fyrir alla fjölskylduna. Foreldrarnir eru höfuð fjölskyldunnar og þurfa að vera vel tengdir til að fjölskyldulífið gangi sem best. Eftir höfðinu dansa limirnir!
  10. Foreldrar ættu að sækja reglulega félagsskap annarra foreldra með börn á sama aldri í hverfinu, til dæmis foreldra- og ungbarnamorgna í kirkjum eða fræðslufundi í leikskólum og skólum. Ég held til dæmis utan um foreldra- og ungbarnamorgna í kirkjunni minni og hef gert það um nokkuð langt skeið og tek þátt í foreldrafélaginu í leikskólanum. Þannig hef ég kynnst mörgum frábærum foreldrum í hverfinu mínu. Mitt álit er það að aðrir foreldrar í sama hverfi eru uppspretta upplýsinga og góðra ráða þegar kemur að uppeldi barna. Þessi félagsskapur er mikilvægt tengsla- og upplýsinganet um það sem er að gerast í hverfinu þínu, í grunnskólanum og leikskólunum. Betur sjá augu en auga! Það er aftur á móti algerlega í mínum höndum hvað ég nýti af þessum upplýsingum í uppeldi eða skólagöngu minna barna. Stuðningur, upplýsingar og vel ígrundaðar ákvarðanir eru alltaf lykilatriði í uppeldinu hjá mér.

Með von um að þið getið nýtt ykkur eitthvað af þessu. Meira næst. Góða helgi!

– – –
Ingunn Ásta er með BA próf í uppeldis- og menntunarfræðum sem og kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskólum. Þá sér hún ásamt annarri frábærri mömmu um foreldra- og ungbarnamorgna í sinni heimakirkju og er félagi í foreldrafélagi á leikskóla barna sinna. Hún á 3 börn 3ja ára og yngri og hefur mikinn áhuga á öllu sem kemur að uppeldi og menntun barnanna okkar. Markmiðið með blogginu mun verða að fjalla almennt og fræðilega um allt mögulegt sem snýr að lífi, þroska og uppeldi barna þannig að það gagnist öðrum foreldrum í foreldrahlutverkinu.

X