Loading

20 VIKNA SÓNARINN … HVAÐ EF?

Ég og maðurinn minn eigum tvær yndislegar skvísur sem við elskum út af lífinu. En við vissum að okkur langaði í eitt í viðbót, þrjú börn virtist bara vera okkar tala. Þegar við komumst að því að eitt væri í ofninum varð öll fjölskyldan mjög ánægð og þó að ljótt sé kannski að segja vonuðum við öll að þetta væri lítill strákur til að fullkomna nú þegar fullkomna fjölskyldu, alla vega að okkar mati.

Fyrri hluti meðgöngunar gekk mjög vel, við vorum spennt og ánægð og bumban stækkaði og stækkaði. Loksins var dagurinn kominn, 20 vikna sónartíminn sem við biðum svo spennt eftir. Við sátum saman við hjónin og horfðum á nýja fjölskyldumeðliminn hreyfa sig og sprikla á sónar monitorinum og voru rosa ánægð og spennt, en síðan kom þessi skrítna tilfinning … afhverju er hún svona lengi að skoða myndirnar? Afhverju er hún svona skrítin á svipin svo ég spurði… er ekki allt í góðu? Hún horfði á mig og brosti og spurði hvort við vildum vita kynið, já auðvitað sögðum við, verðum að kíkja í pakkann. Þetta er strákur sagði hún en ég vil að sérfræðingur líti aðeins á ykkur.Við vissum ekki hvort við ættum að hoppa af gleði útaf litla stráklingnum sem væri væntanlegur eða grúfa niður í áhyggjuhrúgu utaf sérfræðings álit var þurfa.

Við komumst að því að litli strákurinn okkar var með fæðingagalla sem kallast Gastroschisis. Þá er málið að þegar kviðurinn á barninu formast í móðurkviði fer húðin ekki alveg saman hjá naflanum og þar myndast gat. Þarmarnir og stundum önnur líffæri fara þá útum gatið og vaxa utan á kviðnum. Í okkar tilfelli virtist bara þarmarnir vera að utanverðu. Þau tvöfalt tékkuðu á öllu og inní kvíðnum leit allt frekar vel út, bara smá af smaþörmunum að utan, átti ekki að vera neitt vesen að laga þetta. Ég byrjaði strax að sanna hvað ég væri sterk, ég hafði nú heyrt að þessu áður, ekkert mál, við ættum bara að einblína á staðreyndina að þetta væri strákur, hitt myndi lagast. En maðurinn minn gat ekki hætt að hugsa um að strákurinn hans sem hann hefði beðið svo eftir væri ekki heill, og yrði að fara í aðgerð strax við fæðingu. Hægt og rólega náðum við að melta þessar fréttir en nú var að segja öðrum, finna upplýsingar á netinu og kynna sér þetta til að maður væri nú undirbúin fyrir þetta. Hvert sinn sem ég sagði eitthverjum frá þessu var ég tilbúin með jákveðnina og styrkinn og í endan orðin mjög góð í að róa aðra niður, þetta verður ekkert mál, nei nei hafðu engar áhyggjur svona tilfelli koma upp 6 til 8 sinnum á Íslandi ekkert mál … en innan í mér var ég ekki svona örugg.

Ég vildi að ég hefði farið aðeins tilbúnari í sónarinn. Maður gleymir í öllum spenninginum … er þetta stelpa … er þetta strákur að 20 vikna sónarinn er gerður til að athuga hvort allt sé í góðu standi með barnið og hvort frekara eftirlit þurfi eður ei. Ég er mjög þakklát að hafa fengið að vita þetta í 20 vikna sónarnum og náði þess vegna að hafa tíma til að ná mér niður á jörðina og gera mig og nákomna tilbúna fyrir því sem væri framundan. Ég var í góðu eftirliti það sem eftir var af meðgönguni og hægt og rólega fékk allar þær upplýsingar sem ég þurfti. Gott er að skrifa niður spurningar um leið og þær koma svo maður gleymi ekki og vittu til, engar spurningar eru vitlausar eða kjánalegar spurningar. Ég veit að við viljum öll fá heilbrigð börn og kynið skiptir ekki máli en næst þegar þið farið í sónar reynið að vera tilfinningalega tilbúin ef að eitthvad kemur uppá og muna að til þess er þessi skoðun gerð.

Dísa

– – –
Ég heiti Hjördís en er kölluð Dísa. Ég er 27 ára, gift og á tvær litlar dömur sem eru fjögurra og sex ára og einn lítinn gutta sem fæddist í enda september.
Ég er Montessori kennari og lærði í Bandaríkjunum. Ég vinn í leikskóla í Reykjavik sem sérhæfir sig í börnum með sérþarfir. Áhugamál mín eru góður félagskapur og börn og uppeldi.
– – –
Aron Raiden fæddist þann 30 september 2011. Það hafði komið í ljós í 20 vikna sónarnum að hann væri með fæðingargalla sem heitir gastroschisis en nánar má lesa um hann í fyrsta blogginu mínu 20 vikna sónar.
Aron dvaldi á vökudeild til 15 desember 2011 en hefur síðan þá verið niður á barnaskurðdeild barnaspítala Hringsins. Hann hefur þurft að fara í fjórar stórar aðgerðir, margar rannsóknir og þurft að hafa næringu í æð alla sína ævi.
Í þessu bloggi mun ég fara í gegnum sjúkdómsgreininguna, dvölina á vökudeildinni, brjóstagjöfina vs. mjaltarvél, muninn á vökudeild og barnadeild, hvað gerist þegar heim er komið.

X