Loading

27. APRÍL – GABRÍEL ÞÓR KVADDI ÞENNAN HEIM

Kæru lesendur athugið. Hér er um að ræða aðsenda sögu sem foreldri sem er að ganga í gegnum það erfiðasta sem við getum ímyndað okkur vill deila. Viðkvæmum er ráðlagt að láta lesturinn eiga sig. Foreldrum Gabríels Þórs vottum við okkar innilegustu samúðarkveðjur og vonum af öllu hjarta að sárið á hjartanu grói sem fyrst þó að örið hverfi aldrei.

Föstudagurinn 26. apríl byrjaði eins og hver annar dagur hjá okkur nú þegar barnið okkar lá á gjörgæslu vökudeildarinnar.
Ég vaknaði um hálf tíu til að mjólka mig í dágóðan tíma eftir nóttina. Ég var með stresshnút í maganum, læknarnir áttu að skoða myndirnar af heilanum hans Gabríels í dag og ég vildi helst fara sem fyrst upp á Vökudeild. Við skellum okkur upp eftir þegar ég var búinn að mjólka nokkra millilítra. Ég bara fann það á mér þegar ég labbaði inn að það væri ekki allt í lagi. Við fengum óteljandi spurningar um hvort við værum ekki með mikinn stuðning frá fjölskyldum okkar, og við svörum því auðvitað játandi þar sem sú er raunin. Við sátum hjá Gabríel um stund og spjöllum við hann, gáfum honum að borða og svona. Læknirin hans kom um tvö leitið og sagði okkur að það væri fundur með læknunum á eftir og að við þyrftum að vera með. Ég fékk sting í hjartað og það byrjuðu að koma nokkur tár þar sem ég gat ekki haldið aftur af þeim lengur. Læknirinn sagði að það yrði tekin önnur mynd bráðlega til að bera saman við hina. Þegar myndaliðið var komið ákváðum við að kíka og fá okkur að borða, ég vissi að það væri langur dagur og kvöld frammundan. Við komum til baka um hálf fjögur og sátum hjá Gabríel. Læknirinm kom um fjögur og segir við okkur að hún ætli að ná í okkur þegar hinir læknarnir eru komnir í hús. Hún sagði okkur jafnframt að það væru ekki góðar frétti sem við værum að fara að fá og leyfir okkur svo að vera ein með Gabríel.

Ég táraðist, hélt í hendina á syni mínum og grét svo. Ég vildi ekki fara frá honum, ég vildi halda eins lengi og ég gat í hendina á barninu mínu. Ég bað hjúkrunarkonuna sem var með hann þarna að halda í hendina á honum því hann var svo lágur í súrefnismettun. Læknirinn kemur og fer með okkur inn í fundarherbergi. Þar bíða okkar barna-heila-tauga-sérfræðingur, tveir hjúkrunarfræðingar, tveir læknar og prestur. Þegar ég sá prestin þá langaði mér að öskra og hlaupa út. Ég vildi ekki heyra þessar féttir, ég bara gat ekki meira, fannst þetta vera komið gott.

Okkur er sagt að Gabríel er ekki með neina heilablæðingu, þetta séu heilavefir sem séu búnir að stífla heilann hans og heilafrumur væru byrjaðar að deyja. Stíflan væri of nálægt miðtaugakerfinu og sé farin að skemma það. Það sé ekkert hægt að gera við þessu ástandi og þessar skemmdir geti ekki gengið til baka. Nýrun, lungun og heilinn voru aðalega til umræðu á þessum fundi og að sonur minn væri nær dauða en lífi eins og staðan væri nú. Læknarnir gáfu okkur boltann og við fengum að taka loka ákvörðun í þessu máli, þó svo þeir væru í rauninni búnir að því. Við fengum smá frið fyrir okkur og ég grét og grét, gat ekki hugsað um neitt annað en að kveðja annað barnið mitt fyrir fullt og allt. Ég hringdi í mömmu hágrátandi og bað hana um að koma, hún var í bænum svo það var lítið mál. Haddi hringdi líka í sína mömmu og þær komu því báðar. Pabbi minn kom líka frá Akranesi og litli bróðir minn var þarna með okkur líka. Við eyddum öllum okkar tíma þarna upp á vökudeild. Við fengum sér hebergi þar sem við fengum að vera í friði. Það voru teknar margar myndir af litla gullinu okkar. Þegar klukkan var að ganga níu um kvöldið kom presturinn og skírn var í vændum. Við fengum rosalega fallegan skírnarkjól í láni á Vökudeildini. Allir okkar nánustu voru með okkur á þessari fallegu stundu. Barnið mitt var blessað, hann var kominn með nafnið sitt, Gabríel Þór.

Við fengum að baða barnið okkar upp úr skírnarvatninu sem mér fannst ég þurfa að gera fyrir hann eins og öll önnur börn.
Þegar fór að líða á kvöldið fór fólkið okkar að fara heim, ég, Haddi, mamma mín, mamma hans og systir mín vorum eftir.
Ég bað um að fá hann í fangið og knúsa hann og kyssa, það var skipt um öndurnarvél svo að leiðslurnar myndu ná og ég sat með barnið mitt í marga, marga tíma, knúsaði hann og kyssti þetta litla ljós sem ég á. Það var svo góð tilfinning að halda loksins á sínu eigin barni og mér fannst ég loksins vera orðin alvöru mamma. Hann var lagður í fangið á pabba sínum þar sem hann var kysstur og knúsaður af litlu brotnu pabba hjarta. Þegar klukkan var að ganga þrjú var hann lagður bert við bert á mig og honum leið rosalega vel. Þegar það var búið að taka myndir og við búin að segja það seinasta sem við vildum að barnið okkar heyrði ég læknirinn og hjúkunarkonuna koma.

Tíminn var komin, honum var gefið róandi lif og morfín svo hann fyndi ekki til þegar öndurnar túpan og sondan væru teknar. Um leið og ég leit upp frá barninu mínu með tárin í augunum og gaf læknirinum grænt ljós á að taka barnið mitt úr sambandi. Þetta var búið. Allar slöngur voru teknar, allir mælar og bara allt saman. Hann lá í fanginu mínu og fékk að sofna hægt og rólega. Hjartað hans hætti ekki að slá fyrr en tíu mínutum eftir að túpan var tekin. Hann streittist ekkert á móti, heldur bara sofnaði hann umvafin ást, faðmaður, kysstur og elskaður af litlu brotnu mömmu hjarta.

Litli strákurinn minn var farinn.

Við vissum ekki hvert við áttum að fara, hvað við áttum að gera eða hvað væri næst.
Við fórum heim um fimm leitið og lögðum okkur til tíu um morguninn og fórum þá beint upp á vökudeild aftur.
Innst inni þá laumaðist sú hugsun að mér að það sem gerðist um nóttina hefði bara verið marthröð að ég myndi bara labba að kassanum hans og sjá hann sprikla þarna um og hafa það gott. Við löbbuðum inn í sér herbergi þar sem hann lá í vögguni sinni. Barnið mitt var dáið. Ég tók hann upp og fann um leið hvað hann var kaldur, ég tók upp hendina hans til að sjá litlu fullkomnu puttana, neglurnar voru orðnar fjólubláar og ég grét og grét.. náði ekki andanum, langaði bara ekki að anda.. Við tókum myndir og rauluðum fyrir hann.
Ég og Haddi kvöddum strákin okkar, gengum tómhennt útaf sjúkrahúsi eftir barnsburð í annað skipti. Ég var tóm og doðinn rann yfir mig. Ég hugsaði ekki neitt…
Jarðaförin og allt sem fyrigir henni er núna á næsta leiti. Ég er bara ekki tilbúin að jarða mitt annað barn.

Valgerður Guðjónsdóttir

X