Loading

40v + 4d

Mæðradagurinn, 26. mars 2017 var settur dagur – ekkert barn.
Sem þýðir að í dag erum við komin á viku 40 dag 4.

Ég hitti ljósmóðurina mína í seinasta skipti núna síðastliðinn föstudag.

Smá útúrdúr áður en lengra er haldið… en samt alveg tengdur ljósmæðra heimsóknum! Verður maður einhvertíma góður í að pissa í glas? Nú finnst mér ég vera búin að pissa frekar oft í glas, í hverri einustu heimsókn og þar sem ég var í auknu eftirliti fór ég oftar til ljósunnar en gengur og gerist á annari meðgöngu og alltaf er maður beðin um að pissa í glas. Ég héllt ég væri alveg komin með þetta og bara orðin sérfræðingur í að pissa í glas. En svo var nú ekki! Í seinustu tvö skipti fór allt út um allt! Það er bara ekkert grín að reyna hitta í þetta helvítis glas! – Alveg óþolandi.

En áfram með frásögnina, á föstudaginn var ég komin 39v +5d ljósmóðirin bauðst til að reyna að hreyfa við belgnum hjá mér.
Fyrir þá sem ekki hafa kynnt sér það þá er hér smá texti fengin af ljosmodir.is:

Belgjalosun
Þegar losað hefur verið um belgi aukast líkur á því að fæðing fari sjálfkrafa af stað. Við þreifingu á leghálsinum er metið hvort hægt er að losa um belgi. Leghálsinn þarf að vera byrjaður að breytast; styttast, mýkjast og opnast örlítið eins og hann gerir í aðdraganda fæðingar. Eftir belgjalosun má búast við að samdrættir aukist og hríðarverkir geta hafist innan sólarhrings. Þegar meðgangan er orðin 41 vika eða meira býður ljósmóðir í meðgönguvernd belgjalosun. Ekki er talinn ávinningur af belgjalosun fyrir 41 viku.

En já þar sem ég var bara komin rétt tæpar 40 vikur og ekkert búið að vera í gangi hjá mér engir fyrirvaraverkir eða neitt og enganveginn víst að leghálsinn væri orðinn hagstæður þá ákvað ég að afþakka þessi óþægindi. Því þetta er víst frekar óþægilegt og EF leghálsinn væri orðinn hagstæður fyrir belglosun þá jú hefði mögulega eitthvað byrjað að gerast… kanski. Þetta var bara of óljóst, það var ekki hægt að segja með vissu að þetta myndi hafa einhver áhrif á þessum tímapunkti eða yfir höfuð.

Ljósmóðirin sendi beðni um gangsetnigu og ég hugsaði með mér; “ú vei gangsetning, minni óvissa”…en nei það er alveg jafn mikil óvissa. Ljósmóðirin sendir bara inn beðni um gangsaetningu einhvertíma í vikunni 27.-31. mars og svo á maður bara að fá sms daginn áður ef ekkert hefur farið af stað af sjálfu sér og þar sem það er BRJÁLAÐ að gera í gangsetningum á LSH þessa dagana þá var meira að segja möguleiki á að þetta drægist framm yfir helgina. EN sem betur fer var það ekki svo og óvissan varði ekki fram að helgi ég fékk símtal frá ljósmóður í gær og var boðuð í gangsetningu á föstudaginn, þannig að nú vitum við allavega að ég fer uppá spítala í seinastalagi á föstudaginn. Við höldum bara áfram að bíða eftir litla stubb. Hér er allt í ró og spekt, engir verkir eða neitt, það er greinilega voðalega notalegt í þessari bumbu og engin ástæða til að vera eitthvað að flýta sér að fæðast. Þetta var nú ekki svona kósí fyri seinustu fæðingu, ég var með fyrirvaraverki í næstum heila viku áður en hún fæddist. Það er samt fínt að vera ekki að engjast um hérna heima á meðan ég bíð verkirnir koma að öllum líkindum bara þegar kemur að stóru stundinni og ekki fyrr.

En já brjálað að gera á fæðngardeildinni og brjálað að gera í gangsetningum, það virðist alltaf vera brjálað að gera þegar ég ætla að eiga þessi börn mín, ætli það sé einhvertíma ekki brjálað að gera á fæðingadeildinni? Ætla að kynna mér það og plana þá betur tímasetningu næstu fæðingar ef við ákveðum að skella í nr. 3.

En að bíða eftir litla stubb er rólegt líf, ég er búin að “föndra” smá. Setti upp svona áfangakort (milestone cards) handa honum er búin að prenta nokkur á eftir að klippa þau út, gerði myndrænt kvöldrútínu “plan” handa Freyju í von um aðeins minni prakkaraskap á kvöldin. Í gærdag var dekurstund, andlitsmaski, augabrúnir litaðar, lakkaði tásur (já ég gat það sjálf!) og hendur…..OG rakaði meira að segja lappirnar…þvílíkt brjálæði! Ég nenni s.s. mjög sjaldan að raka þessi örfáu hár sem eru á fótleggjunum svona yfir vetrartímann, sérstaklega ekki kasólétt. En hvað gerir maður ekki þegar manni leiðist?

Mjög rólegt líf, farðu nú að láta sjá þig litli stubbur það er allt klárt fyrir þig.

Anna Sigrún

– – –

Ég heiti Anna Sigrún og er 28 ára. Ég á eina dóttur sem heitir Freyja og er fædd þann 1. maí 2015 og síðan er lítill drengur væntanlegur í heiminn í lok mars. Ég hef verið gift í þrjú ár en við höfum verið saman síðan 2009.

Ég bý og vinn í Breiðholti, er að vinna á leikskóla í augnablikinu en það styttist í að ég fari í veikindaleyfi á síðustu vikum meðgöngunnar og við tekur svo fæðingarorlof. Helstu áhugamál mín eru barnauppeldi og barnamenning, förðun, ljósmyndun, DIY stúss og falleg hönnun. Ég hef MJÖG gaman af því að versla og skoða allskonar sniðugt á netinu og svo er ég með skipulagsdellu! Ég er mjög dugleg að búa til allskonar lista og skipulag yfir hvernig er best að skipuleggja hitt og þetta… en ég er ekki alveg jafn góð í að fylgja þeim, sérstaklega innan veggja heimilisins.

– – –

Langar þig að verða bloggari? Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hjá)foreldrahandbokin.is

X