Loading

600 GRÖMM HEILLIN!

Pistill eftir Þóru Sigurðardóttur, rithöfund og höfund Foreldrahandbókarinnar.

Ég skrifaði um það pistil fyrir þremur mánuðum síðan að ég hyggðist segja aukakílóunum stríð á hendur. Með það hugarfar að vopni arkaði ég af stað í leikfimi og trúði því statt og stöðugt að undir handleiðslu einkaþjálfara væri þetta nánast formsatriði að ná tilsettum árangri.
Ágúst tók ég með trompi og ég er ekki frá því að örlítill árangur hafi náðst þann mánuðinn. Síðan tók að halla undir fæti eftir því sem hausta dró og í gær var ég vigtuð og fitumæld. Ég var nú fullviss um að ég hefði eitthvað lést – mér leið að minnsta kosti þannig og var hið minnsta fullviss þess að rúmmálið hefði minnkað.
Síðdegis í gær fékk ég svo niðurstöðurnar sendar með pósti (reyndar tölvupósti en hitt hljómar betur) og ég trúði vart eigin augum. Heildar þyngdartap nam 600 grömmum og fituprósentan hafði lækkað um 1.2%. Einhver ummálsminnkun hafði orðið en hún skrifaðist aðallega á minni barm þar sem ég hætti með dóttur mína á brjósti í ágúst.
Lömuð af vonleysi hélt ég fund með sjálfri mér og reyndi að kryfja vandann. Ég var að mæta í ræktina, ég var að þykjast borða hollt og yfir það heila átti allt að vera í sæmilegu lagi.
En… ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin þá er ég ekki búin að vera nógu dugleg. Ég mæti bara tvisvar í viku í ræktina, borða óreglulega, borða of mikið, verðlauna sjálfa mig með mat ef mér finnst ég eiga það skilið (sem er alltaf) og sjálfsagi minn er á við húsflugu.
Ég ætla því að byrja upp á nýtt en í þetta skipti ætla ég að taka einn dag fyrir í einu og hugsa ekki út í hvernig hlutirnir verða eftir mánuð eða tvo – hvað þá fimm. Takmark dagsins er að borða hollt, borða minna og fara í ræktina. Ef það tekst þá er ég hetja.
Góðir hlutir gerast hægt – og sjaldnast af sjálfu sér!

X