Loading

7 RÁÐ GEGN SUBBUSKAP

Matmálstíminn getur verið algjör martröð – sérstaklega ef að eldhúsið lítur út eins og orustuvöllur að máltíð lokinni.
Flest börn eru óttalegar subbur (skiljanlega) en við foreldrarnir getum gripið til nokkurra fyrirbyggjandi ráða til að lágmarka skaðann. Þetta á sérstaklega við á morgnanna þegar að heimilismeðlimir eru að drífa sig af stað og allt þarf að ganga upp þannig að allt fari ekki úr skorðum.
Hér er listi yfir nokkur einföld atriði sem þó geta gert kraftaverk:

  1. Forðastu subbulegan mat! Í stað þess að vera með opna brauðsneið skaltu skera hana í tvennt og búa til samloku. Forðastu morgunkorn, notaðu diska sem að festast við borðið – hvað eina. Góð aðferð er að ýminda sér fyrirfram hversu mikill sóðaskapur mun hljótast af viðkomandi fæðutegund – eða framsetningu hennar og taka svo ákvörðun.
  2. Blautur klútur. Það er ástæða fyrir því að málarar eru alltaf með blauta tusku á sér. Þegar slettist útfyrir þá þurrka þeir það samstundis upp. Þetta er fyrirtaksráð fyrir foreldra og gerir það að verkum að matarborðið verður ekki nándar nærri jafn subbulegt að máltíð lokinni. (Þetta á sérstaklega við eftir skyrát.)
  3. Smekkur. Já, góður smekkur getur gert kraftaverk og sama hvað barnið er orðið gamalt þá er sniðugt að nota þá. Ekki spillir fyrir ef að smekkurinn er með ermum og tilheyrandi, er auðvelt að þrífa og þolir kjarnorkuárás – eða því sem næst.
  4. Náttföt! Hljómar kannski einkennilega en foreldrum á leið í vinnu er ráðlagt að klæða sig á síðustu stundu. Með því móti minnka líkurnar á að skítugir puttar sem þurfa smá knús rústi dragtinni.
  5. Hundur! Þetta er sagt í hálfgerðu gríni en samt ekki. Óhlýðinn hundur sem að hreinsar upp matarleyfarnar á gólfinu er besti vinur þreyttra foreldra. Verst að óhlýðnum hundum fylgja of fleiri gallar en kostir auk þess sem að dýralæknar mæla með mun stabílla matarræði fyrir hvutta.
  6. Mynstruð föt. Það er staðreynd að matarblettir sjást miklu betur á einlitum fatnaði. Fyrir foreldra á ferðinni er því gráupplagt að ganga í mynstruðum fatnaði þannig að matarblettir sjáist sem minnst. Þetta gildir að sjálfsögðu einnig fyrir börnin sjálf.
  7. Handþvottur. Kenndu börnunum að þvo sér um hendurnar. Fjárfestu í góðum palli fyrir framan baðvaskinn og freyðandi sápu með góðri lykt og áður en þú veist af verður handþvotturinn orðinn hluti af rútínunni.

Gott er einnig að hafa alltaf gólfmoppu, kúst eða handryksugu í seilingarfjarlægð. Með því móti er hægt að renna yfir gólfið að máltíð lokinni og eldhúsið lítur á ný út eins og paradís fyrirmyndaforeldrisins!

X