Loading

800 BLEYJUR OG 1470 BRJÓSTAGJAFIR: LANGÞREYTT EN LÍÐUR VEL

Guðrún Tinna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri barnafatamerkisins Ígló, eignaðist í byrjun febrúar tvíburana Grím Fannar og Fanneyju Petru. Fyrir eiga Tinna og eiginmaður hennar stelpurnar Katrínu Önnu 9 ára og Kötlu 5 ára og svo stjúpsoninn Ara Pál 14 ára. Fjölskyldumeðlimir eru því orðnir sjö talsins.

Er mikill munur á að eignast tvíbura og eitt barn? Í hverju finnst þér munurinn helst fólginn?

„Ég finn augljósan mun á því, bæði hvað varðar meðgönguna og eftir að börnin fæddust.

Allar meðgöngurnar þrjár voru yndislegar og gat ég í öllum tilvikum unnið og hreyft mig mikið, stundað pilates, yoga og sund ásamt því að hjóla fyrri hluta meðgöngu. Munurinn á meðgöngunum fólst einkum í tvennu; ég var mun þreyttari í tvíburameðgöngunni. Bæði var kúlan stærri en jafnframt var ég núna með tvö börn fyrir sem þurfti að sinna. Kalli maðurinn minn var við vinnu erlendis nánast alla meðgönguna og því lítið um hvíld frá 7 á morgnana til klukkan 22 á kvöldin. Í öðru lagi var mataræði mitt gjörólíkt. Á fyrstu
meðgöngu minni vildi ég bara borða kjöt og kartöflumús – og þá bjúgu, nautakjöt o.s.frv. Líklega er ástæða þess sú að fyrstu mánuði meðgöngunnar var ég á ferðalagi um Asíu og má því kannski segja að mig hafi skort einhver vítamin úr hefðbundnum íslenskum landbúnaðarafurðum, sem maður er alinn upp á. Á tvíburameðgöngunni vildi ég hins vegar nánast bara borða íslenskar gulrætur, sæt epli og hráfæðisréttina á Gló – þeir eru æðislegir. Í öll skiptin gladdi þó ristað brauð með osti mig mjög mikið.”

Hvernig gengu fæðingarnar?

„Allar þrjár fæðingarnar gengu mjög vel. Ég trúi því að með einbeitingu og réttri öndun þá getum við fætt börnin okkar með lágmarksaðstoð. Konur um allan heim á öllum tímum hafa fætt börn án miklis tilstands. Hér á landi búum við frábært heilbrigðiskerfi og er gott að geta fætt á tiltölulega náttúrulegan hátt, en vita á sama tíma af því að ef eitthvað kemur upp á eru læknar með tæki og tól tilbúnir að grípa inn í.”

Hvernig gengur með tvíburana?

„Þegar stelpurnar fæddust fengum við strax mikið af gestum og ég var farin út að ganga og hreyfa mig strax á fyrstu vikunum. Hins vegar hafa fyrstu vikurnar með tvíburana verið öðruvísi. Ég er búin að vera að gefa brjóst að jafnaði 20-22 sinnum á sólarhring, ásamt því að borða á við 2 fullorðna karlmenn til að hafa orku til að búa til alla þessa mjólk og því hefur lítill tími gefist til hreyfingar eða heimsókna þótt auðvitað hafi nánustu vinkonur og fjölskylda verið dugleg að kíkja við í kaffi og njóta lífsins með okkur. Kalli reiknaði út að þessa fyrstu 70 daga hafi ég gefið brjóst 1470 sinnum og miðað við mælingar hans framleitt ríflega 100 lítra af mjólk á þessum tíma. Bleyjurnar eru orðnar rúmlega 800 á þessum fyrstu tíu vikum.
Þannig að munurinn felst fyrst og fremst í því að álagið af tveimur börnum er í það minnsta tvöfallt meira.

Kalli hefur á meðan staðið sig eins og hetja við að sinna öllu heimilinu, stelpunum tveimur, sinni vinnu og gefa mér sódavatn milli gjafa. Í dag er þó allt að komast í góða rútínu, börnin eru enn bæði á brjósti, ég farin að sinna vinnunni hluta dagsins en gæti ég ekki verið án hennar – svo gott að hugsa um eitthvað annað milli gjafa – og við fjölskyldan farin að ferðast aðeins um landið. Það er svo mikilvægt að færa ekki allt fjölskyldulífið eingöngu yfir á þarfir litlu tvíburanna heldur verðum við að leyfa áfram Katrínu Önnu og Kötlu að njóta sín. Við eyddum páskunum til að mynda á Akureyri þar sem Katla lærði enn betur á skíði og söng niður brekkurnar ásamt systur sinni og pabba á meðan ég og tvíburarnir drukkum mjólk og heitt kakó upp í skála. En auðvitað er álág á svona stóru heimili, bæði andlegt álag að sinna öllum og ekki má gleyma þvottinum. Hér með auglýsi ég eftir stúlku eða dreng sem nennir að brjóta saman þvott hjá mér nokkrum sinnum í viku.”

Hvernig eru eldri systkin að taka þeim yngri?

„Í heildina má segja að það er alveg yndislegt að eignast tvíbura og í raun alger forréttindi að fá að prófa það. Fyrir foreldra er dásamlegt að fylgjast með systkinaástinni vaxa og dafna en það er ein sú fallegasta tilfinning sem við sjáum hjá börnunum okkar. Við höfum verið mjög lánsöm með hversu góðir vinir börnin okkar hafa ávallt verið. Eftir komu tvíburanna þá hefur hjarta þeirra eingöngu stækkað og sinna þau hvert öðru mjög mikið. Auðvitað er þetta oft erfitt þegar pabbinn og mamman eru á fullu að sinna litlu börnunum en krakkarnir eru mjög dugleg og hjálpa mikið til. Það er líka yndislegt að fylgjast með hvernig Grímur Fannar og Fanney Petra eru að uppgötva hvort annað. Þau eru gjörólíkir einstaklingar, bæði í útliti en einkum í hegðun og skapi. Hann er orðinn mun meðvitaðri um hana og fylgist með henni þegar þau liggja hlið við hlið. Þegar hann svo grætur þá setur hún upp skeifu og tekur þátt í þeim söng. Jafnframt eru þau bæði ólík systkinum sínum og sýnist mér við hafa hér heima við fjóra gjörólíka einstaklinga.

Reynsla mín sem foreldri er að virða og styðja við ólík einkenni og þarfir barna minna. Okkar verkefni sem foreldrar er að kenna börnunum okkar að lifa í sátt í samfélagi sínu, sýna sér og hvert öðru virðingu og hjálpsemi. Ég tel að börn sem alast upp í stórum hópi ólíkra systkina hljóti að koma vel undirbúin út í samfélagið.”

Hvernig líður móðurinni, nú er þetta mikil viðbót og í nógu að snúast. Passarðu upp á sjálfa þig, lumaru á góðum ráðum sem þú vilt deila og hvernig nærðu að slaka á?

„Mér líður mjög vel þótt ég sé orðin nokkuð langþreytt eftir lítinn svefn. Það er ótrúlegt hvað litlir hlutir eins og góður Caffe Latte eða heimagerður mango morgundrykkur að hætti Kalla geta látið mann gleyma þreytunni og finnst mér mikilvægt að gefa mér tíma fyrir þessa hluti. Jafnframt gefur það mér mikið að hitta vinkonur mínar og fjölskyldu, hér heima eða á kaffihúsum, og nýti ég hádegin vel til þess, þá eru börnin vel sofin, stóru systurnar í skólanum og allt orðið bjart og fallegt úti.

Ég tel líka mikilvægt að nýbakaðar mæður gefi sér tíma fyrir áhugamál sín og hef ég verið svo heppin að vinnan hefur verið mitt áhugamál á liðnum mánuðum. Að fylgjast með Ígló vaxa samhliða þroska og vexti tvíburanna er dásamlegt og eru við stelpurnar sex sem stýrum fyrirtækinu miklir félagar og mikill kraftur á skrifstofunni.

Í raun gefst lítill tími til að slaka á. Í staðin reynir maður að njóta hverrar stundar þótt þær geti verið erfiðar. Helsta leið okkar Kalla þessa dagana til slökunar er að setjast upp í sófa á kvöldin, með popp og nóakropp, með sitt hvorn tvíburann í fanginu og horfa á einn Mad Men þátt.
Það jafnast fátt á við það þessa dagana.”X