Loading

Á ÉG AÐ SENDA DÓTTUR MÍNA BURT?

Ég er 24 ára gömul móðir og er búsett í Danmörku þar sem ég er í háskóla. Ég á yndislega 4 ára stelpu og hef eiginlega verið ein með hana frá fæðingu. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt en ég hef verið svo lánsöm að eiga góða ættingja að sem hafa getað hjálpað mér. Nú stend ég hins vegar í þeirri erfiðu stöðu að vera ein hérna í Danmörku, allir ættingjar eru heima á klakanum. Ég var reyndar svo heppin að kynnast yndislegum manni hérna úti sem hefur verið mín stoð og stytta og hefur unnið sér sess sem „pabbi“ hjá dóttur minni. Nú eru prófin eru framundan hjá okkur báðum og til að bæta ofan á álagið fer ég í sumarskóla og tek tvo áfanga í fjarnámi og hann fer að vinna á sjó, allt á meðan leikskóli dóttur minnar er í sumarfríi.

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvað sé best að gera fyrir dóttur mína yfir sumarið. Hvort ég ætti að hafa hana hérna í Danmörku, þar sem ég hef eiginlega engan tíma fyrir hana og fá einhverja stelpu til að passa hana fyrir mig eða hvort ég ætti að senda hana til Íslands, til ættingja sinna þar sem hún yrði í fyrsta sæti hjá öllum og fengi að kynnast ættingjum sínum á meðan ég gæti einbeitt mér að náminu og hlaðið batteríin. Vandamálið er hins vegar að þá yrði hún í burtu frá mér í tvo mánuði, sem mér finnst alveg hrikalegt, því við höfum alltaf verið saman, við tvær. Sumum finnst þetta kannski ekki spurning og ég er eiginlega á því líka að auðvitað sé best að senda barnið til ættingjanna og leyfa henni að halda í fjölskylduböndin en svo eru sumir sem hneykslast, segjast aldrei myndu gera þetta og að það hljóti að vera önnur leið. Ég sé hreinlega slæm móðir fyrir að ætla að senda barnið mitt í burtu yfir allt sumarið, og hún svona ung.

Mér finnst fjölskyldan mjög mikilvæg og hef sem betur fer haft gott samband við bæði föðurfjölskyldu dóttur minnar og mína eigin fjölskyldu. Núna er heilt ár síðan við vorum seinast á Íslandi, ár síðan hún hitti fjölskyldu sína og fyrir 4 ára barn er heilt ár frekar langur tími. Við eyðum reyndar mörgum stundum í að skoða myndir af fjölskyldunni og náum annað slagið að hringja en ég vil að hún fái að kynnast þeim, fái að umgangast þau. Að vera Íslendingur, að vera einn af þessari litlu þjóð, án þess að þekkja ættingja sína getur leitt til ófyrirsjáanlegra atburða sem ég vil ekki að hún lendi í. Þó fólk eigi eftir að dæma mig og hluti af mér sé ekki sáttur við það verð ég að sætta mig við að það sé best fyrir dóttur mína að leyfa henni að kynnast fjölskyldunni á meðan ég hleð batteríin og einbeiti mér að náminu. Hamingjusöm og úthvíld mamma er jú góð mamma ekki satt?

– –

Hanna Benediktsdóttir er fædd árið 1988. Hún á 4 ára yndislega dóttur og þær eru búsettar í Danmörku þar sem hún er að læra félagsfræði í háskóla.

X