Loading

Á EKKI AÐ SKELLA Í ANNAÐ?

Ég á tvö börn. Stórkostlega vel heppnuð, yndisleg, gáfuð, skemmtileg, góð og allt þar á milli. Mér finnst lífið nokkuð gott. Þau eru tveggja og fjögurra ára, strákur og stelpa og semur vel. Þetta myndi ég kalla alslemmu.

Samt er alltaf verið að spyrja mig hvort það eigi ekki að fara að skella í annað. Eins og það sé eitthvað óumflýjanlegt.

Sjálfa umræðuna skil ég ekki sannast sagna. Samt viðurkenni ég fúslega að ég tek oft þátt í henna sjálf gagnvart öðrum. Systir mín tók þristinn á þetta. Toppaði það með tveimur strákum og loks lítilli stelpu. Það þykir voða fínt. Þrír af sama kyni er auðvitað bara klúður.

Svo var það önnur vinkona mín sem varð ófrísk af fjórða barninu. Hún tjáði mér í hjartans einlægni að viðbrögðin væru mjög blendin. Allt frá vorkun upp í ásakanir um of mikla kynhvöt. Hún bara skildi þetta ekki.

Svo eru þeir sem eiga bara eitt barn. Það auðvitað gengur ekki… og aumingja þeir sem hafa tekið ákvörðun um að eignast ekki eitt einasta barn. Það hlýtur auðvitað að vera eitthvað að svoleiðis fólki.

Eða hvað?

Staðreyndin er hins vegar sú að við tökum sjálf þá ákvörðun hvað við eignumst mörg börn (ja svona flest okkar). Hver svo sem ástæðan er þá er þetta persónuleg ástæða og persónuleg ákvörðun. Þetta er ekki eins og að sitja á bar og spá í hvort maður eigi að fá sér einn drykk í viðbót… bara alls ekki.

Þóra

X