Loading

AÐ ALA UPP ALVÖRU KARLMANN … MEÐ NAGLALAKK

Pistill eftir Björk Eiðsdóttur, blaðamann, móður og snilling með meiru…

Þegar ég áttaði mig á því fyrir um sex árum að þriðja barnið mitt kæmi til með að vera af karlkyni fann ég hvernig mér rann blóðið til skyldunnar. Fyrir átti ég tvær dætur sem ég hafði lagt mig fram við að kenna góða siði eins og að trúa á sjálfar sig, trana sér sem mest fram og láta í sér heyra og það sem hæst.
En ómótaður karlmaður í höndum mér? Ábyrgðin fannst mér gríðarleg en áskorunin vissulega spennandi.
Ofarlega í huga mér var að kenna honum ljúfmennsku, að tjá tilfinningar sínar og koma vel fram við stúlkurnar í lífi hans. Hann mætti samt ekki verða nein veimiltíta eða vælukjói. Hinum gullna meðalvegi skyldi náð. Lengi vel lék hann aðallega með leikföng systra sinna og hafði gaman af. Þar sem hann býr einn með okkur þremur konunum hefur hann eðlilega orðið fyrir töluverðum kvenlægum áhrifum og naglalakk varð t.d. snemma mjög spennandi. Þegar mamma einnar stúlkunnar á leikskólanum hans bannaði henni að fá naglalakk og stúlkan maldaði í móinn: „En Eiður er alltaf með naglakk!“ varð ég bara stolt, enda hef ég aldrei haft sérlegar áhyggjur af því að hann kæmi til með að mæta naglalakkaður fyrsta skóladaginn eða yrði svo fíkinn í glansandi lakkið að hann fengi hvergi vinnu í framtíðinni, heldur var hann bara lítill strákur sem langaði að prófa litríka stöffið sem stelpurnar voru alltaf að setja á sig, hver myndi ekki vilja það? Síðasta árið hefur áhuginn á „strákadóti“ þó aukist til muna, öllu handhægu er breytt í sverð eða byssu og hver sá sem gengur inn um dyr heimilisins ætti að vera tilbúinn í slag eða vopnaður skildi. Ekki kenndi ég honum þetta, það veit guð en ég barðist heldur ekki á móti. Hann er bara eins og hann er, svolítill gaur og það er gaman að fylgjast með hversu ólík áhugamál hann og systur hans hafa.

En ég lofaði mér því að þrátt fyrir að vera yngstur og eini karlmaðurinn á heimilinu þá skildi pilturinn ekki fá neina sérmeðferð. Það er oft hægara sagt en gert því auðvitað er litla splæsið með stóru bláu augun fyrir löngu búið að læra á kvenpening heimilisins og hvernig ber að taka hann og pakka saman. Það kemur fyrir að þrjár konur á aldrinum 10 til 37 hlaupa til um leið og heyrist píp í splæsinu… en betur má ef duga skal, ef þetta á að verða almennilegur karlmaður skal hann ekki fá allt upp í hendurnar! Heldur skal hann búa um rúmið sitt, taka af borðinu og ganga frá dótinu sínu rétt eins og systur hans gera þó með hangandi hendi sé. Kannski finnst flestum sjálfsagt að hugsa svona en ég segi þetta því það er staðreynd að það er allt of algengt að við dekrum strákana öðruvísi en stelpurnar og þar sem þeir eru oft á tíðum svo miklir „gaurar“ fá þeir oft að sleppa við heimilisverkin.

Sonur minn er í sérlegum áhættuhópi þegar að þessu kemur, eini karlmaðurinn, yngstur og hér á þessu heimili munu ekki fæðast fleiri börn á meðan ég fæ einhverju ráðið. Auðvitað er freistandi að dekra hann en litlir kálfar launa sjaldnast ofeldið, það vita allar þær konur sem einhvern tíma hafa leitt hugann að því að tengdamamma þeirra hefði kannski mátt kenna syni sínum betri siði… Nei, ég segi bara svona.

– –
Björk Eiðsdóttir hefur starfað við íslenska fjölmiðla undanfarin fimm ár, þá bæði tímarit og sjónvarp eftir að hafa menntað sig í fjölmiðlafræði í Bandaríkjunum. Hún er sjálfstæð móðir þriggja sjálfstæðra barna á aldrinum fimm til fjórtán ára. Hún segist vita að það er hægt að gera allt með fjölskyldu eftir að hafa farið í gegnum háskólanámið með tvö kríli og eignast það þriðja á útskriftarönninni. „Það er allt hægt en það getur kostað svita og puð þó oftar sé þetta gaman og síðast en ekki síst er um að gera að taka lífinu létt, hlæja að öllum mistökunum og halda áfram.”

X