Loading

AÐ BYRJA Á BYRJUNINNI

First things first ~ Að byrja á byrjuninni

Ég man eftir mér ófrískri á bókasafninu, í leit að bókum um foreldrahlutverkið. Eftir að frumburðurinn fæddist, hélt ég áfram að leita að bókum um barnið. Ég ætlaði svo sannarlega að massa þetta, gera þetta rétt, gera þetta almennilega. En einhverra hluta vegna endaði ég alltaf með bækur í höndunum, alls ótengdar börnum eða foreldrahlutverkinu.

Þetta voru bækur eins og ‘Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn’ og ‘Lögmálin sjö um velgengni’… sumar bækurnar hafði ég jafnvel aldrei heyrt minnst á, en þar sem ég á einhvern óútskýranlegan hátt (jújú, það má kenna brjóstaþokunni um) endaði með þær í höndunum, tók ég þær samt heim og las.

Þegar ég hugsa til baka sé ég þetta í fullkomnu samhengi. Auðvitað er ég ekki að fara að ‘massa’ neitt, nema að vera í góðu jafnvægi sjálf. Ég er ekki að fara að verða besta mamma í heimi, nema ég sé nú þegar besta útgáfan af sjálfri mér.

Ég er ekki að fara að aga börnin mín á uppbyggilegan hátt, nema vera fær um að aga sjálfa mig.
Þegar kemur að hlutverkum lífsins gildir hin gullna regla: First things first. Þetta er nefninlega eins og með súrefnisgrímurnar í flugvélunum, ég er svo sannarlega ekki að fara að bjarga heiminum meðvitundarlaus.

Þess vegna finnst mér svo gott að minna mig á tímann sem ég þarf að gefa sjálfri mér til þess að verða betri ég, tímann til að: Fara í jóga, lesa góða bók, hlæja með vinkonum, fara út að dansa eða hvað svo sem hleður batteríin á hverjum tíma fyrir sig.

– – –

Huld Hafliðadóttir er Kundalini jógakennari, leiðsögukona á sumrin og þýskunemi utan skóla. Tveggja barna móðir, búsett á Húsavík og starfar eins og er við ýmis verkefni á Hvalasafninu á Húsavík. Með óþrjótandi hugmyndir og áhuga á sem flestu, hefur hún fyrst og fremst gaman af lífinu og öllu sem það hefur upp á að bjóða.

X