Loading

AÐ EIGA EKKI BÖRNIN SÍN

Það að taka að sér fósturbörn er nú kannski ekki gáfulegasta leiðin til að stofna fjölskyldu – þau eiga það nefnilega til að koma og FARA!

Í upphafi fósturs er tímalengd þess ákveðin, allt frá nokkrum mánuðum til 18 ára aldurs barnsins. Aðstæður geta þó alltaf breyst, hjá upprunafjölskyldu barnsins, hjá fósturfjölskyldu eða barninu sjálfu sem verða til þess að fóstri er annað hvort framlengt eða því rift. Sé fóstri rift þýðir það að barnið snýr aftur til fjölskyldu sinnar. Það er að sjálfsögðu gleðiefni þegar fjölskyldur sameinast en þegar barn hefur dvalið lengi, jafnvel árum saman, á fósturheimilinu er allt annað en auðvelt að kveðja.

Fósturforeldrar hafa engan rétt gagnvart umgengni við barn þegar það er farið af heimilinu. Það er því undir foreldrum barnsins komið hvort og þá hvernig samskipti barnið hefur við fósturheimilið eftir brottför þaðan. Í því er ekkert sjálfsagt og ekkert réttara en annað, ef viðskilnaðurinn er barninu erfiður getur það jafnvel reynst barninu erfiðara að vera í miklum samskiptum við fósturfjölskylduna.

Mér hefur þótt vænt um öll börnin “mín” – þau eru reyndar ekki svo ýkja mörg, en það hefur verið erfiðara að kveðja sum en önnur. En það er ekki bara ég sem kveð, börnin sem eftir verða kveðja fóstursystkini sitt, samfélagið kveður vin og skólafélaga og stórfjölskyldan kveður líka. Það gefur auga leið að það er ekki bara fjölskyldan sem barnið býr hjá sem býður það velkomið – heldur skóli, vinir, afar, ömmur, frændur og frænkur.

Oft er sagt að foreldrar hafi börnin sín í láni, það verður bókstaflegt þegar kemur að því að kveðja fósturbarn. En þó herbergið sé tómt þar til næsta barn kemur þá skilur hvert barn eftir sig minningar, lærdóm og þroska fyrir okkur sem eftir sitjum. Systkini nokkur kenndu mér að borða túnfisksalat og önnur systkin kenndu mér að búa til undarlegt eggjabrauð. Öll hafa þau bætt í þolinmæðisbankann minn og öll hafa þau kennt mér að þykja vænt um sig. Og bestu verðlaunin eru þegar síminn hringir, kannski löngu seinna, og mjóróma rödd kynnir sig og spyr „manstu eftir mér”. Það segir mér að þeim hafi líka þótt pínulítið vænt um mig 🙂

– – –
Ég heiti Kristín Ósk, er félagsráðgjafi að mennt, heimavinnandi húsmóðir og fósturforeldri að atvinnu. Barnafjöldinn er því breytilegur en fastinn eru Rósin (2006), Drekinn (2010) og Ljónið (2011). Ég er einstaklega afskiptasöm, skipulögð og óskipulögð í senn, horfi jákvæðum augum á lífið og tilveruna og hef ekki áhyggjur af því sem ég fæ ekki breytt!

X