Loading

AÐ EIGNAST BARN MEÐ KLUMBUFÓT

Mætt í mömmublogg-hópinn með vonandi góðar, skemmtilegar og fræðandi færslur. Ég er nú enginn reynslubanki þegar kemur að börnum en maður skapar sína eigin reynslu og lærir vonandi eitthvað af henni. Ég heiti Ásta Margrét og eignaðist yndislegan strák sem verður fimm mánaða núna 1. febrúar. Hann heitir Óskar Jóhann og er minn helsti gleðigjafi.

Ég átti ekkert sérstaka meðgöngu, bætti vel á mig og var alltaf með verki einhverstaðar. Í 20 vikna sónar kom í ljós að sá stutti var með klumbufætur (Club foot). Stemmningin í sónarherberginu var frekar skrítin þar sem við fengum að heyra „þetta er strákur” og „hann er með klumbufætur”. Við vorum ánægð að heyra kynið – en vissum ekkert hvað klumbufætur voru. Við settum upp grímu og brostum út af eyrum en vorum eitt stórt spurningarmerki.

Eftir tímann þá keyrði Sigurður mig í skólann. Við vorum bæði með kökk í hálsinum yfir því að ekki væri allt eins og það á að vera. Við kvöddumst og ég fór til vinkvenna minna í landfræðinni. Þar ræddi ég þetta við þær og var gráti nær en þær studdu mig mikið og glöddust yfir því að væri hægt að laga þetta. Að sjálfsögðu var ég glöð, en viðurkenni ég var pínu vonsvikin.

Við ræddum þetta svo þegar við komum heim, auðvitað búin að gúggla þetta og fá allskyns hryllingsögur og myndir. Við vorum alveg miður okkar. Okkur rámaði þó í að vinafólk okkar hafði eignast strák með klumbufætur og höfðum samband við þau. Þau hjálpuðu okkur mikið að átta okkur á því að þetta er ekkert mál. Lifandi sönnun er þeirra yndislegi og fjörugi sonur.

Við lásum líka grein á Draumabörn.is sem hjálpaði okkur mikið að koma jákvæðri hugsun í gang. Þá var þetta í raun komið og „Pollýana” mætti á svæðið. Þessi færsla sem við lásum er ástæðan fyrir því að mig langaði til þess að blogga og vonast ég til þess að mín saga og reynsla verði einhverjum öðrum til hjálpar eins og þessi færsla var okkur.

Þegar Óskar Jóhann var sex daga gamall fór hann í gips á báðum fótum hjá Sigurveigu Pétursdóttur bæklunarlækni sem er alveg yndisleg og góður læknir. Gipsið var til að stýra fótunum í rétta átt. Hann fór alls sjö sinnum í gips og svo tóku við spelkur. Ég var mjög lengi að sætta mig við spelkurnar og gipsið. Mér fannst þetta erfitt tímabil og leið eins og allt væri á móti okkur. Hann fæddist lasinn og þurfti að vera á vökudeild í fimm nætur. Brjóstagjöfin gekk illa og fólk var reglulega að minna mig á það með spurningunni „hvernig gengur brjóstagjöfin?”. Hann gubbaði mjög mikið, svaf illa og var mjög órólegur. Ég átti líka almennt erfitt með að laga mig að þessum nýju aðstæðum og að kynnast þessum nýja einstaklingi. Þegar hann var þriggja mánaða fórum við með hann í ofnæmispróf þar sem hann var með mikið exem og gubbaði mikið. Þá kom í ljós að hann var með ofnæmi fyrir mjólk og soya. Þar kom skýringin! Okkur leið vel með að fá greiningu á þessu öllu saman og eftir það fékk hann sérstaka mjólk sem heitir Pepticate og varð strax allt annar af henni.

Ég sé núna í dag að klumbufætur eru ekkert mál. Besta ráð sem ég get gefið foreldrum sem eru miður sín og hrædd við klumbufætur er að sættast við þetta sem fyrst. Því í raun líður þessi tími svo hratt og gips og spelkur verður barninu eðlilegt svo það finnur lítið fyrir sársauka eða óþægindum. Þegar ég sá fæturnar hans fyrst þá varð ég hugfangin. Fallegustu fætur sem ég hef séð.

Oskar

Nú er Óskar Jóhann að verða fimm mánaða og við erum búin að kynnast vel. Við erum bestu vinir og er ég hamingjusamasta mamma í öllum heiminum (eflaust margar sem segja það sama). Ég gæti ekki hugsað mér lífið öðruvísi og finnst mér ég heppin að hafa eignast heilbrigðan son sem gleður okkur á hverjum degi með sínu gullfallega brosi.

Að lokum: Mikilvægt er að hlusta á mömmuhjartað, það veit best. Ég þakka reglulega fyrir góða heilbrigðiskerfið okkar sem tekur á málunum þegar kemur að veikindum barna. Það sem hjálpaði okkur mest var stuðningur fjölskyldu og vina sem er alveg ómetanlegur.

Njótum hvers dags!
Kv. Ásta Margrét

– – –

Ég heiti Ásta Margrét og er nemi í Landfræði í Háskóla Íslands. Ég er fædd árið 1987 og bý í Mosfellsbænum. Á yndislegan strák sem heitir Óskar Jóhann með kærasta mínum Sigurði Valgeir. Óskar Jóhann fæddist 1.september 2012 og gleður okkur á hverjum degi.

X