Loading

AÐ ENDA MEÐGÖNGU

Þann 18. febrúar 2013 vorum ég og unnustinn minn á leiðinni í 20 vikna sónarinn með frumburðinn okkar upp á Landspítala. Ég er 23 ára gömul og hann 27 ára. Þann dag vorum við á Hólmavík, brunuðum þaðan til Reykjavíkur vorum svo spennt að orð geta varla líst því! Við mætum og barnið er skoðað en ljósmóðirinn er með frekar skrýtin svipbrigði og segist ætla ná í aðra reynsluríkari ljósmóður. Við sögðum bara „allt í lagi” því það eina sem var gefið í skyn var að barnið væri alveg á skrilljón og þær fengu ekki frið til að mæla hann. En svo kemur hin ljósmóðirin og segir okkur að hendur og fætur séu talsvert minni miðað við meðgöngutíma og þetta gæti verið dvergvöxtur en jafnframt fengum við að vita að þetta væri strákur. Við förum heim með það í huga að litla barnið sé bara dvergur og krossum puttana að það sé ekki neitt verra. Mamma beið í íbúðinni minni eftir okkur því hún var svo spennt og þegar ég sá hana brotnaði ég niður. Hún vissi auðvitað ekkert hvað var í gangi, ekki frekar en við þar sem við í raun vissum svo afskaplega lítið.

Daginn eftir er hringt í okkur og við beðin að koma niður á spítala. Þar var sérfræðingur búinn að skoða myndirnar af barninu og tilkynnir okkur að útlimirnir hafi hætt að vaxa á 16 viku og myndu ekki vaxa meira. Ég man bara skellinn sem kom á mig, eins og einhver hafi hennt heilum vegg á mig og ég hafi mölbrotnað en unnustinn minn hélt höfðinu hátt til þess að styðja mig.

Við höfðum svo lítið af svörum og veltum því stöðugt fyrir okkur hvað væri hægt að gera? Daginn eftir hittum við erfðagreiningarsérfræðing sem fór yfir fjölskyldusöguna okkar. Hann fann ekkert athugavert og fannst líklegt að þetta væri bara svona “one in a million” og þeir sem þekkja mig vita að það er mjög týpiskt að ég lendi í þannig tilvikum! Okkur var boðið að gera legvatnsástungu en þá eru líkur á fósturmissi. Legvatnsástungan gæti samt gefið okkur einhver svör, við tókum því.

Við mættum daginn eftir í tímann en þá tilkynntum við ljósmæðrunum að við ætlum að enda meðgönguna. Hann hefði dáið seinna á meðgöngunni eða við fæðingu og okkur fannst réttast í stöðunni að enda þetta fyrr en síðar. Mig langaði bara að klára þetta af (þetta er á fimmtudegi). Þær segja mér að koma kl.20 upp á Landspítala til þess að taka töflu sem endar meðgönguna. Tíminn leið hægt, ég með þvílíkan hnút í maganum. Barnið mitt var lifandi inn í mér og ég var að fara taka töflu sem endaði hjartsláttinn hans. Við fórum, ég tók töfluna sem er það erfiðasta sem ég hef þurft að gera. Við þurftum að bíða fram á mánudag og barnið mitt var dáið inn í mér alla helgina. Klukkan níu átti ég að mæta upp á fæðingardeild og þá var ég sett að stað. Samdrættirnir byrjuðu hálf ellefu og urðu sterkari með hverjum klukkutímanum. Belgurinn var sprengur klukkan níu um kvöldið af því það var ekkert að gerast hjá mér. Drengurinn minn kom í heiminn kl.23:15 – gullfallegur englastrákur. Ég var búin að ímynda mér eitthvað afbrigði af barni útaf útlimunum, en jú maður sá mun en hann var ekkert gífurlegur, en auðvitað veit maður að barn sem fæðist með útlimi sem hættu að vaxa á 16 viku á ekki vænlegt líf fyrir höndum. Að auki voru yfirgnæfandi líkur á alvarlegri þroskahömlun og sködduðu miðtaugarkerfi.

Við áttum okkar stund með honum, tókum myndir og fóta- og handaför. Héldum á honum, knúsuðum hann, nefndum hann, Halldór Loga. Hann fæddist eftir 21v 3d meðgöngu.

Ég hafði alltaf á tilfinningunni að eitthvað væri að en það hlustaði enginn á mig. Það var bara eins og ég væri paranójuð! Ég fann eitt spark á meðgöngunni. Svo eftir 16 v varð allt rólegt. En hafði þessa hræðilegu tilfinningu. Og þegar það kom að þessum degi 20v sónarnum þá bara lokaði ég á hana og varð bara rosalega glöð og spennt í staðinn.  Maður þarf að vera frekur og ákveðin við suma lækna. Ég fór til heimililæknisins og talaðu við ljósuna mína í mæðravernd og þau bara ákváðu að minnka við mig vinnu, sögðu að þetta væri bara stress en ég viss betur.

Svo kemur það að labba tómhenntur af fæðingardeildinni, hræðileg tilfinning. Allt sorgarferlið tók við, grét í marga vikur eftir á, svo jörðuðum við hann hjá ömmu minni og það var þvílíkur léttir þegar það var búið. Þá fann ég að ég gat haldið áfram með lífið mitt

Nú eru tveir mánuðir liðnir og mér líður betur með hverjum deginum. En það er þetta tómarúm sem maður reynir að fylla. Maður vill bara verða óléttur strax og vill breytingar í lífi sínu. Við breyttum til, fluttum út á land og okkur líður miklu betur með það enda hafði lífið sem maður átti í bænum verið planað fyrir lítið barn. Ég hefði alveg getað sokkið í þunglyndi og haldið því fram að ég væri fórnalamb en ég tróð þessu öllu í reynslubankann og langar að deila minni reynslu! Staffið á Landspítalanum var æðislegt sem munar svo miklu og sálfræðingurinn alveg meiriháttar. Það er fólkið í kringum þig sem hjálpar þér og maður verður að passa að loka ekki á það!

En þar sem ég er frá litlu sveitarfélagi þá var byrjað að tala um allt sem gerðist og sögurnar breyttust og breyttust svo  ég tók mig bara saman og skrifaði smá pistil og póstaði því á Facebook. Ég vildi ekki að fólk færi að segja eitthvað rangt um barnið mitt. Það er líka rosalega óþægilegt að rekast á manneskju einhverstaðar og hún fer að spyrja hvernig meðgangan gangi og hvenær þú ert sett og þú brotnar bara og stamar út úr sér… uuu hann dó!  Þegar fólk spyr mig hvort að ég eigi börn, þá segi ég já einn strák!  Svo ég vildi ekki lenda í þessu, svo ég setti á facebook.

Það að tala við konur sem hafa lent í því sama eða álíka fannst mér vera bjargvætturinn minn í gegnum þetta allt saman. Þær vita alveg upp á hár hvernig þér líður og hvað þú ert að ganga í gegnum um. En ég hef ekki fundið neina sem hefur lent í því akkurat sama og ég.

En núna seinna mér, tveimur mánuðum seinna þá poppa svona hugsarnir í hausinn á manni. Tók ég vitlausa ákvörðun? Drap ég barnið mitt? Átti hann séns?  En maður hendir þeim út og hugsar um sólarstrendur og kokteila! Þessar hugsarnir koma í brot af sekúndu! Við erum sátt við okkar ákvörðun, þetta hefði ekki verið neitt líf fyrir litla strákinn okkar og hvort hann hefði lifað lengur en sem nemur meðgöngunni vitum við ekki. Það er svo margt sem maður mun aldrei fá að vita, er svo mikil óvissa. En maður heldur áfram og horfir fram á við og bíður eftir næsta barni sem vonandi á eftir að ganga vel. Krossum putta.

Takk fyrir mig,

Hekla Björk Jónsdóttir
heklab90@gmail.com

X