Loading

AÐ FERÐAST MEÐ BÖRN

Ég á nítján mánaða gamla tvíbura. Að fara í flug með svona grislinga er heilmikil áskorun. Fyrir jólin ákvað ég að fara í heimsókn til vinkonu minnar sem býr erlendis. Fyrst ætlaði ég bara ein en mömmuhjartað gat einhvern veginn ekki skilið bæði börnin eftir heima. Það eru reglur hjá Iclelandair um að hver og einn megi bara ferðast með eitt barn undir tveggja ára aldri og þurfti ég því að taka bara annað með mér í þetta skiptið. Eftir miklar vangaveltur og ugla sat á kvisti varð niðurstaðan að ég tæki strákinn minn með mér og að stelpan mín yrði eftir heima og fengi að fara með næst.

Við fórum eldsnemma út á flugvöll, innrituðum okkur og komumst á endanum inn í fríhöfnina. Þetta gekk allt saman ósköp vel, fyrir utan smá grát í öryggiseftirlitinu. Á flugvellinum fengum við okkur að borða, lékum okkur og létum tímann líða.
Ég ákvað meðvitað að fara frekar seint inn í vélina svo að við þyrftum ekki að sitja of lengi í henni áður en hún færi af stað. Strákurinn minn er algjör orkubolti og finnst mjög gaman að hlaupa um, eins og eðlilegt er. Við fórum inn í flugvélina og hann var ekki par sáttur við að vera ólaður niður með móður sinni í svona þröngu rými. Hann grét svolítið og var pirraður en ég vissi að hann myndi sofna um leið og flugvélin færi af stað. Þetta var í fyrsta skiptið sem að ég fór ein með barn í flugvél og var ég því frekar stressuð. Ég var með allt tilbúið í skiptitöskunni, nesti, ný föt, bleyjur, dót og allt sem nauðsynlegt er og taldi mig því vera vel undirbúna undir ferðalagið. Það sem ég var hins vegar ekki undirbúin fyrir var skilningsleysi annarra farþega.

Þegar við vorum búin að sitja í smá stund í vélinni kom kona í áttina að okkur. Ég sá á svipnum á henni að hún væri greinilega ekki í góðu skapi og kannski svolítið óþolinmóð að eðlisfari. Með henni var barnið hennar, í kringum 10 ára gamalt. Þau löbbuðu nær og nær og áttu greinilega að setjast í sætin fyrir framan okkur. Strákurinn minn var svolítið pirraður á þessu augnabliki og ég sveitt og stressuð að reyna að róa hann. Konan leit á okkur, sagði með ákveðinni röddu, „frábært” og ranghvolfdi augunum í leiðinni. Ég að sjálfsögðu stressaðist meira upp og varð hálf lítil í mér við þetta allt saman. Það var alveg nóg að vera að gera þetta í fyrsta skiptið og reyna að róa barnið, ég þurfti ekki á því að halda að fá svona skot frá einhverri konu sem ég þekkti ekki neitt en þurfti þó að sitja fyrir aftan næstu þrjá tímana. Þetta virtist óyfirstíganlegt á þessu augnabliki.
Þegar hún var sest var hún alltaf að gjóa augunum að okkur, andvarpa og nudda á sér höfuðið. Hún gerði það mjög ljóst að við værum ekki velkomin þarna í hennar augum og að henni fyndist ég ekki hafa neina stjórn á barninu.
Strákurinn minn var alls ekki að garga, hann var einfaldlega bara svolítið pirraður. Ég hélt að hún myndi hafa meiri skilning á þessu þar sem að hún var með barn sjálf en svo var ekki.

Á leiðinni heim gekk allt miklu betur. Ég var við öllu búin og þar af leiðandi minna stressuð sjálf. Við lentum svo við hliðina á yndislegum feðgum sem að skemmtu stráknum mínum alla leiðina.
Það er alveg ótrúlegt hvað getur munað að fá skilningsríkt viðmót og hlýju.
Í öllum bænum, reynið að setja ykkur í spor annarra og reyna að gera gott úr hlutunum. Það munar öllu!

– – –
Brynja Guðmundsdóttir heiti ég og verð 24 ára á árinu. Ég á 19 mánaða gamla tvíbura, stelpu og strák. Við búum í Stokkhólmi þar sem maðurinn minn leggur stund á hjartalækningar. Ég er sjálf í hjúkrunarfræði og mun halda áfram hérna úti næsta haust.
Ég hef mikinn áhuga á öllu sem viðkemur börnum og finnst alveg hrikalega gaman að skrifa.

X