Loading

Að finna röddina sína

Ég endurbirti áðan pistil eftir Soffíu Bærings sem fjallar um erfiða fæðingarreynslu og hausinn fór af stað. Skyndilega var ég stödd upp á fæðingardeild og tilfinningin að hafa enga stjórn á aðstæðum var yfirþyrmandi. Það er nefnilega þannig – eins einkennilega og það hljómar fyrir þá sem mig þekkja – að í fæðingu verð ég rosalegur introvert.

Ég missi getuna til að tjá mig, var í bæði skiptin tjóðruð niður út af mónitórum þar sem ég var gangsett og svo er ég vandræðalega kurteis við þessar aðstæður þannig að ég á eiginlega ekki breik í þetta.

Ég hef margsinnis verið spurð hvort mig langi ekki í þriðja barnið – eins og það sé eðlilegasti hlutur í heimi að vilja endalaust bæta við sig börnum. Ég hef oft velt þessu fyrir mér og viðurkenni fúslega að það stendur í mér að gera þetta aftur. Kannski aðallega af því að mér finnst ég svo fáránlega heppin með afkvæmi að ég hef litla trú á því að sú heppni haldist. Líka af því að það er loksins að róast og ég kann svo að meta það. Líka af því að ég er svo stjarnfræðilega lengi að jafna mig eftir fæðingu að með þessu áframhaldið yrði ég orðin góð í kringum sextugt.

En ef… þá er eitt sem ég myndi gera. Ég myndi ráða mér doulu og ég myndi hafa hana með mér. Ég trúi því að ýmislegt hefði verið öðruvísi ef ég hefði haft málssvara inn á fæðingarstofunni, einhvern sem ég hefði verið búin að ræða við í þaula og þekkti mig. Varið hagsmuni mína með kjafti og klóm og hugsað bara um mig. Þetta er sagt með þeim fyrirvara að flestir þeir heilbrigðisstarfsmenn sem hafa komið að mínum fæðingum hafa gert sitt allra besta og verið framúrskarandi – innan þess þrönga svigrúms sem þeir hafa. Eða þannig upplifði ég það. Vandamálið var miklu fremur vangeta mín til að tjá mig eða hafa vit á aðstæðum.

Þannig að já – doula. Einu sinni fannst mér það skrítin tilhugsun en í dag… ég myndi ekki hugsa mig tvisvar um.

Þóra

X