Loading

AÐ HLAUPA Á VEGG

Ég tók þá afdrifaríku ákvörðun í vor að sækja um meistaranám fyrir haustið og varð óskaplega glöð þegar ég fékk jákvætt svar frá Háskóla Íslands. Í lok sumars hef ég, full af stolti og eldmóð, sagt öllum sem vildu heyra að nú væri mín bara á leiðinni aftur á skólabekkinn. Ykkur að segja þá ætlaði ég að rúlla þessu upp með annarri, fara bara í fullt nám. Það gæti nú ekki verið mikið mál, ég ætlaði nefnilega ekkert að vinna með því. Það er að segja, ekkert fyrir utan það að hugsa um heimilið og börnin þrjú (1, 3 og bráðum 9 ára).

Vinir og ættingjar hafa spurt mig nærgætnislega hvort ég héldi að þetta yrði ekki kannski dálítið mikið, en satt best að segja sárnaði mér þær athugasemdir. Af hverju í ósköpunum ætti þetta að verða of mikið, þekkið þið mig ekki neitt, ég er nú engin uppgjafarmanneskja! Ég var meira að segja svo bjartsýn að ég sá fyrir mér að á morgnana væri ég í tímum og í hádeginu í leikfimi að léttast um tíu kíló og auðvitað að læra eftir það. Á eftirmiðdaginn væri ég að sinna krökkunum, hjálpa elsta með heimavinnuna, sækja yngri tvö til dagmömmu og í leikskóla, þrífa, þvo þvottinn, elda, baða liðið og lesa fyrir svefninn. Á kvöldin ætlaði ég svo að læra, undirbúa næsta dag og auðvitað vera hin fullkomna rómantíska unnusta… þið vitið hvað ég meina. En hvað gerðist svo?

Jú mér til mikillar furðu höfðu vinirnir og ættingjarnir rétt fyrir sér, nema hvað þetta var ekkert „aðeins of mikið“, þetta var bara ALLT OF MIKIÐ. Eftir 2 vikur í skólanum sá ég strax að þetta var talsvert meiri vinna en ég hafði reiknað með. Ég var skráð í 5 námskeið, hvert öðru meira spennandi en um leið krefjandi. Verkefnavinnan hlóðst upp á degi eitt og á degi tvö var minnsti guttinn á heimilinu orðinn veikur…. ekki í fyrsta og alveg örugglega ekki í seinasta skiptið. Síðan þá hafa allir á heimilinu veikst eitthvað, þar á meðal undirskrifuð. Við erum að tala um að september er bara rétt að klárast, hvernig verður þá restin af vetrinum?

Í fyrsta skipti í langan tíma féllust mér hreinlega hendur, mér leið eins og ég hafði hlaupið á vegg og nefbrotið mig. Eiginlega get ég ekki annað en hlegið að því hvað ég var bjartsýn á þetta allt saman og hvað ég ætlaði mér mikið.

Yngsta krúttið mitt er mikill pestargemlingur og megum við eiga von á að hann verði ansi skrautlegur hvað það varðar þennan veturinn. Að vakna klukkan 6.30, vekja restina af liðinu, koma sér frá uppsveitum Kópavogs og niður í Háskóla Íslands á morgnana, hlusta af ákafa á fyrirlestra og taka þátt í umræðum, vinna verkefnavinnu, versla í matinn, pirrast yfir hvað allt er skítugt og þykjast ætla að þrífa, sækja krakkana, reyna að halda þeim frá mat á meðan verið er að elda kvöldmatinn, baða, koma í rúmið og allt þar á milli…. þetta býður ekki beinlínis upp á að maður setjist niður á kvöldin full einbeitingar og fari að læra. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að það þarf að taka á honum stóra sínum, bretta upp ermar og gerast skipulagðasta manneskja á plánetunni.

Eftir á að hyggja er ég mikið að velta því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum mér fannst svona sjálfsagt að þetta yrði „ekkert mál“ og ég myndi bara rúlla þessu upp. Af hverju gerði ég mér ekki grein fyrir því að það er meira en að segja það að stunda fullt meistaranám ásamt því að sjá um tvö ungabörn, eitt að verða 9 ára og heimilið? Meira að segja þó ég sé svo heppin að eiga yndislegan mann mér við hlið sem styður mig hundrað prósent í þessu, verst að hann er með talsvert hærri skítaþröskuld en ég.

Er það kannski af því að í dag er þetta orðin krafa á okkur duglegu nútímakonurnar og súpermömmurnar, eigum við bara að geta ALLT, rétt eins og við hefðum óendanlega marga tíma í sólahringnum?

Það er með dálitlum trega og pínulítið særðu stolti sem ég ætla að viðurkenna það hér með að ég get ekki allt. Ég er ekki súpermamma, ég er bara venjuleg mamma. Þess vegna tók ég líka þá ákvörðun að minnka námið pínulítið svo það sé allavega líklegra að ég komist klakklaust í gegnum það, bara á lengri tíma en ella. Þið hinar sem hugsanlega eruð í sömu sporum, látið MIG ykkur að kenningu verða og slakið aðeins á. Ég hef ákveðið að lífið er einfaldlega of stutt fyrir svona mikið stress og tíminn með börnunum er of dýrmætur til að hreinlega missa af honum.
– –
Inga Lára er ferðamálafræðingur að mennt, í fæðingarorlofi þessa stundina, í störnumerki sporðdrekans ógurlega og ætlar að verða hjúkka þegar hún verður stór.
Barnalán hennar er mikið en hún á þrjú yndisleg börn. Frumburðurinn er fæddur á Þorláksmessu árið 2003, prímadonnan er fædd í júní 2009 og kúturinn litli í júlí 2011. Einnig á hún frábæran betri helming sem er hagfræðingur fram í fingurgóma og ef það er vandamál á heimilinu þá getur hann yfirleitt leyst það í excel.

Hún elskar Mahjong og Yatzi en hatar að föndra og er í raun bara ómöguleg í öllu slíku. Það er ekki beint tími hjá henni fyrir önnur áhugamál en börnin sjálf, hins vegar á hún sér markmið fyrir árið 2012 og það er að byrja aftur að hlaupa og taka 10 km í Reykjarvíkurmaraþoninu í ágúst (helst á klukkutíma).
Lífsmottóið hennar er að reyna alltaf að sjá það jákvæða í fólki og taka bara einn dag í einu.

X