Loading

AÐ HORFA Á BARNIÐ SITT VAXA ÚR GRASI

Það er sérstakur tími í lífi hvers foreldris þegar barnið sem maður hefur hugsað um undanfarin ár tekur spor sín í átt að sjálfstæðara lífi, ef til vill lítil spor, en spor engu að síður.

Spor í áttina frá þér. Þér, sem vakið hefur og sofið yfir litla barninu sem telur sig ekki vera jafn lítið og þér kann að finnast.

Þú hefur hingað til hugsað fyrir öllum þörfum þess, líkamlegum sem andlegum; borða, sofa, leika og læra og núna heldur þetta litla barn út í heiminn.

Þennan kalda grimma heim sem þú hefur enga stjórn á.

Það á eftir að þurfa að þola mótlæti jafnt sem meðvind. Stríðni rétt eins og vinskap og það er ekkert sem þú getur gert í því…

Það eina sem þú getur vonandi huggað þig við er að þú reyndir þitt besta við að ala upp sterkan einstakling.

Einstakling sem brotnar ekki við mótlætið, einstakling sem fer sínar eigin leiðir þrátt fyrir vind sem fer í allar áttir. Einstakling sem virðir vinskap og tekur ekki þátt í stríðni frekar en að láta slíkt á sig fá.

Því það sem við þurfum að muna þegar við tökum að okkur það ábyrgðafulla verkefni að ala upp börn er að þessi börn, þessar litlu verur, vaxa upp og verða að fullorðnum einstaklingum.

Þau verða ekki börn að eilífu, það er ekki hægt að vefja þeim inn í bómul og hafa þau þar.

En þau læra það sem fyrir þeim er haft og ef við reynum að sýna börnum okkar sterkar og öruggar fyrirmyndir þá vaxa þau á endanum upp og verða sterk og taka örugg skref út í heiminn.

Og takist þér verkið vel þá leiða sporin þau aftur til þín hvað sem þau taka sér fyrir hendur.

– – –
Íris Gefnardóttir, 28 ára mamma með meiru. Bý með manni, börnum og hundi á besta stað á Íslandi, Akranesi. Þrátt fyrir heimabæinn kann ég samt lítið í fótbolta en bæti það upp með fjörugu ímyndunarafli og hæfileikanum til þess tala mikið um misskemmtileg viðfangsefni með það að leiðarljósi að bæta í minn eigin viskubrunn. Daglegt líf og hugleiðingar má lesa um á www.gefnardottir.blogspot.com.

iris2

X