Loading

Að lifa árið af

Þessi fyrirsögn kann að hljóma fulldramatísk í eyrum einhverra. En fyrir mér er hún raunveruleikinn.

Fyrir tæpu ári síðan, 1. apríl 2016 (alla aprílbrandara má skrifa niður, setja í umslag og senda með forgangspósti á Þjóðskjalasafnið, þar sem þeir eiga heima, gleymdir og grafnir, ok?!) lá ég í óþægilegu rúmi með þægilega deyfingu í mænunni, tilbúin til þess að ýta einstaklingnum sem ég hafði verið að rækta inn í mér, út í þennan heim. Algjörlega grunlaus um þá miklu vinnu sem framundan var, þá miklu sorg, reiði, vanlíðan, kvíða, gleði og alsælu sem framundan voru.
Sagan af fæðingunni er efni í aðra sögu. Löng saga stutt, fæðingin gekk, barnið var komið í heiminn og við foreldrarnir saklaus, vitlaus jafnvel, en full tilhlökkunar.

Gísli skyldi hann heita, Gísli Ævar. Í höfuðið á móðurömmu og föðurafa. Gísli er komið af orðinu geisli og Ævar þýðir ávallt.

Fyrstu dagana í þessum heimi gerði hann lítið annað en að sofa og gráta. Svo mikið svaf hann reyndar að þegar ljósmóðirin kom að vigta hann hafði hann tapað hátt í 10% af fæðingarþyngd sinni. Þá hófst atburðarrás sem ég get ekki almennilega lýst fyrir ykkur, eða neinum ef út í það er farið. Bæði sökum þess að ég man hana ekki nægilega vel en einnig vegna þess að ég kæri mig ekki um það, ekki strax.
Löng saga stutt, engin var mjólkin handa grey barninu sem kominn var með gulu.
Hver atburðurinn rak svo þann næsta, Gísli grét hástöfum fyrstu 4 mánuði ævi sinnar, hann ældi stanslaust, svaf lítið en dafnaði vel. Hann öskraði, grét og hló annað veifið. Hann er einnig með mjólkurofnæmi, exem og sefur enn töluvert minna en jafnaldrar sínir.
Seinna áttuðum við okkur á því að hann er einnig með eitthvað sem fræðin kalla torticollis, en það þýðir einfaldlega að hann er með háa vöðvaspennu og vöðvarnir öðru megin í hálsinum toga meira og eru sterkari en hinir, sem getur valdið verkjum.

Þegar við vorum hálfnuð í heilt ár sem þriggja manna teymi var ég ekki viss um að ég myndi hafa þetta af.
Ég var með fæðingarþunglyndi.
Að geta ekkert gert fyrir barnið sitt, barnið sem virðist líða illa heilu og hálfu sólarhringanna.
Að fá ekki staðfestingu á því að maður sé að gera rétt er meira en minn kvíðasjúki heili gat höndlað.
Svo ég leitaði mér hjálpar, sem síðar átti eftir að koma mér á betri stað. Ég sættist við sjálfa mig og geri ekki lengur þær kröfur að allt sem snýr að Gísla þurfi að vera fullkomið. Sumt má vera bara nægilega gott ef við erum ánægð. Sumt er meira að segja stundum langt frá því að vera fullkomið. En það er ég líka.

Við höfðum það af og ég get ekki beðið eftir næstu 100 árum (smá óraunsæ kannski?) með þriggja manna teyminu mínu. 1. árs afmælinu verður fagnað með látum, aðallega sem klapp á bakið fyrir okkur foreldrana að hafa haft þetta af.
Í dag er Gísli tápmikill, kröftugur, klár, að mestu og yfirleitt kátur (nema í tanntöku, en hver væri það svo sem?), forvitinn, fyndinn og sterkur karakter.
Erfiðasta, magnaðasta, flóknasta og gleðilegasta ár lífs míns fram að þessu.
Þangað til hann verður unglingur…

Margrét

– – –

Margrét Lúthersdóttir er 28 ára mannfræðingur, móðir og maki. Hún er gríðarlega forvitin og fróðleiksfús. Þeim þörfum svalar hún gjarnan með góðu föndri, verkefni, eldhúsdundi, lestri og almennu brasi.

– – –

Langar þig að blogga? Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við höfum endurvakið okkar stórkemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora (hjá) foreldrahandbokin.is

X