Loading

AÐ MÆTA ÞÖRFUM UNGBARNA

Pistill eftir Rakel Rán Sigurbjörnsdóttur, fjölskyldumeðferðarfræðing.

Að mæta þörfum ungbarna

Börn fæðast einungis með hálfan heila. Það eru engin mistök þar að baki. Það væri ansi erfitt að fæða barn með fullvaxinn heila! Börn fæðast með þá hluta heilans sem þau þurfa til að geta lifað af. Stór partur af heilanum – félagslegi heilinn – verður að langmestu leyti til eftir að barnið er komið í heiminn. Sá partur þroskast við örvun og félagsleg samskipti. Á fyrstu tveimur árunum er grunnurinn lagður að tilfinningastjórn einstaklingsins út lífið. Ást, umhyggja og tilfinningalegt öryggi er þá mikilvægara en margan grunar.

Reynsla fyrstu áranna getur varað alla ævi. Við höldum auðvitað áfram að þroskast og læra eftir fyrstu ár lífsins. En með tímanum tekur það lengri og lengri tíma. Á fyrstu árum í lífi barns er heilinn í örum vexti og því er mikilvægt að nýta tækifærið og hlúa vel að börnunum. Ef hlúð er vel að þeim eru miklar líkur á að þau geti seinna meir farið út í lífið sem hamingjusamt ungt fólk sem getur tekist á við það sem lífið hefur upp á að bjóða.

Svo vel erum við þróuð af náttúrunnar hendi að börn finna sig knúin til að sækjast eftir því sem veitir þeim mestan þroska. Hvort þau fái það sem þau vantar fer eftir því hversu vel foreldrum og uppeldisaðilum gengur að lesa í skilaboð barnsins. Það er því mikilvægt að foreldrar leggi sig fram um að skilja börnin. Ungabörn gráta sjaldan að ástæðulausu. Gráturinn er þeirra tungumál á meðan þau geta ekki gert sig skiljanleg með orðum. Best er að geta lesið í svipi og líkamstjáningu þeirra til að komast hjá óþarfa gráti. Það er einnig mikilvægt að afskrifa ekki tilfinningar ungabarnsins sem frekju eða óþekkt. Ástæða þess er einföld, sá hluti heilans sem þarf til að geta sýnt frekju og óþekkt er hreinlega ekki til.

Flest börn láta vita hvað þau þurfa. Þau láta vita þegar þau eru svöng, þyrst og þreytt, þegar þau vilja líkamlega snertingu, þegar þau vilja komast í ró og svo framvegis. Ef á þau er hlustað halda þau áfram að láta vita. Börn sem fá ekki þörfum sínum mætt láta vita af því en ef þeim er ítrekað ekki svarað þá þagna þau með tímanum. Þau læra að þeim verður ekki mætt og þau hætta að búast við því. Það er þá einnig veganestið sem börnin fara með út í lífið “ég og mínar þarfir skipta ekki máli”.

Það skiptir máli að veita börnum það sem þau þurfa á þessum árum. Börnin læra að þau geti treyst sínum nánustu, að bæði líkamlegar og tilfinningalegar þarfir þeirra séu mikilvægar og að fyrir þeim sé borin virðing (og þá um leið læra þau að bera virðingu fyrir öðrum). Börn sem alast upp við það eru líklegri en önnur börn til að vera sjálfsörugg börn með góðan tilfinningaþroska. Þau eru líklegri til að geta notið hamingjustundanna í lífinu og til að geta tekist á við erfiðleika lífsins án þess að það verði þeim um megn.

Það er því um að gera að njóta fyrstu áranna með barninu, hlusta á það og hlúa að því. Það mun skila sér margfalt til baka, bæði fyrir okkur sem foreldra og fyrir barnið sjálft.

Rakel Rán er lærður fjölskylduráðgjafi frá Háskóla Íslands. Hún starfar á Shalom þar sem boðið er upp á heildræna meðferð. Þar býður hún upp á ráðgjöf og meðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur. Rakel Rán vinnur að meistaraverkefni um samskipti við börn og heldur úti fésbókarsíðunni Ást og umhyggja – fjölskyldustuðningur.
Hægt er að hafa samband við Rakel með tölvupósti á netfangið rakelran@gmail.com.

X