Loading

REYNSLUSAGA: AÐ MISSA BARN Á MEÐGÖNGU

Ég hef lengi ætlað að setjast niður og skrifa mína sögu en aldrei látið verða af því. Þegar ég fór að sjá fleiri og fleiri koma með sína sögu þá ákvað ég að skrifa mína niður og setja hana á internetið.

Föstudaginn 7. september 2012 fórum ég og kærastinn minn í 20 vikna sónar. Ljósmóðir tekur á móti okkur og ég leggst á bekkinn og hún byrjar að skoða. Það lítur allt vel út þangað til hún kemur að hjartanu, þá snarþagnar hún og segir svo mjög rólega en hikandi „anatómínan í hjartanu er ekki alveg eins og hún á að vera, ég þarf að sækja sérfræðing og láta hana skoða þig betur“.

Hún labbar út og tárin byrja að streyma, ég bara trúði þessu ekki. Sérfræðingurinn kemur inn og byrjar að skoða mig, hún lítur á ljósmóðurina og segir við hana „erum við ekki sammála þessu“, og ég hugsa bara „sammála hverju“. Þá segir hún við okkur að það sé op á milli hjartagátta og við verðum að fara að hitta hjartasérfæðing sem við gerðum strax eftir sónarinn.

Við löbbum inn á Barnaspítala Hringsins þar sem tekur á móti okkur yndislegur maður, Hróðmar, sem er hjartalæknir. Ég leggst á bekkinn hjá honum og hann byrjar að skoða mig og segir ekkert á meðan, er bara mjög alvarlegur á svip og grandskoðar litla hjartað í sónartækinu sínu.
Þegar hann er búinn að skoða okkur kemur mesti skellurinn. Hann útskýrir alvarleika málsins fyrir okkur, sem er að litla stelpan okkar er með alvarlegan hjartagalla sem heitir Hypoplastic left heart syndrome. Það þýðir að það er op á milli hjartagátta og vinstri slegill er nánast ekki til staðar, bara mjög smár miðað við hægri slegil og ósæðarnar mjög þröngar og smáar. Ofan á þennan galla var að lungnaslagæðin var ekki til staðar.

Hann útskýrir svo fyrir okkur að við eigum tvo möguleika, að enda meðgönguna eða halda áfram og eiga þá nokkrar aðgerðir eftir að barnið fæðist. Fyrsta aðgerð úti í Svíþjóð þegar barnið væri viku gamalt, næsta aðgerð tveggja-þriggja mánaða og svo um tveggja ára aldurinn. Í framtíðinni væru svo miklar líkur á hjartaþræðingu eða jafnvel þörf á nýju hjarta. Hann segir svo að lokum að 60-70% líkur væru á að fyrsta aðgerð myndi heppnast.
Við fengum svo helgina til að hugsa hvað við vildum gera. Helgin var erfið og gerðum við lítið annað en að halda okkur heima og það var mikið grátið.

Við vorum strax á sama máli að við vildum enda meðgönguna, vildum ekki leggja það á okkur né barnið að halda áfram með meðgönguna.
Eftir helgina þá hittum við hjartalækninn aftur og sögðum honum okkar ákvörðun. Hann útskýrði þetta svo betur fyrir okkur og sagðist hafa sent myndirnar út til Svíþjóðar og fengið þar annað álit. Þá var loka niðurstaðan að líkurnar að fyrsta aðgerð myndi heppnast væru bara 30-40%.

Á þriðjudeginum mætum við upp á meðgöngu- og sængurkvennadeild þar sem ég fæ töflu sem endar meðgönguna og kem svo aftur á fimmtudeginum til að fá aðra töflu til að koma fæðingu af stað.

Þetta var 13. september og kl. 9 erum við mætt þar sem tekur á móti okkur yndisleg kona sem fylgir okkur inn í herbergið þar sem ég átti að vera. Ég fæ töfluna fljótlega eftir að ég leggst inn og þá hófst biðin.

Ég man ekki alveg hvenær ég fékk fyrstu samdrættina en það hefur verið fljótlega eftir hádegið og ég missi vatnið um kl. 14. Klukkan 16.30 fæddist gullfalleg stelpa sem við fengum svo til okkar eftir að það er búið að taka fótaförin af henni, vigta og mæla.
Við fengum að hafa hana hjá okkur eins lengi og við vildum, það var haldin bænastund þar sem foreldrar okkur og systkini mín komu og voru hjá okkur ásamt presti sem fór með bænir.

Við gáfum henni nafið Hrefna Þórdís en okkur fannst það viðeigandi þar sem tvær stelpur með þetta sama nafn úr minni fjölskyldu létust þegar þær voru aðeins tveggja mánaða, önnur þeirra með hjartagalla, ef ekki bara sama gallann. Við tókum svo fullt af myndum af henni. Hún var jörðuð í lítilli fallegri kistu hjá systur minni og ömmu og afa í Fossvogskirkjugarði.

Dagarnir eftir á voru hrikalega erfiðir. Mig langaði bara að verða ólétt strax aftur og höndlaði ekki að vera í kringum lítil börn eða óléttar konur. Sumum finnst það vera afbrýðisemi og ljótt að hugsa þannig en það er það bara alls ekki. Það er eðlilegt að hafa þessar tilfinningar og mér fannst mjög erfitt að sætta sig við fólk sem fattaði bara ekki að þetta er erfitt, þetta er barnsmissir og mun alltaf vera erfitt en maður lærir að lifa með þessu. Svo má heldur ekki gleyma makanum, þetta er líka erfitt fyrir hann. Hann fékk oft spurninguna „hvernig hefur hún það?“ en aldrei var hann spurður hvernig honum leið.

Sem betur fer eiga konur, og líka makinn, sem hafa lent í svona missi rétt á sálfræðiaðstoð sem hjálpar mjög mikið í sorgarferlinu.
Núna eru komir sjö mánuðir síðan stelpan okkar fæddist og hafa dagarnir verið mismunandi síðan þá. Fyrst hélt ég alltaf að þetta yrði alltaf svona hrikalega sárt en svo varð þetta skárra með hverjum deginum sem leið.

Ég komst svo að því 6. janúar 2013 að ég væri orðin ólétt aftur. Þegar ég fór í snemmsónar fengum við boð um að hitta hjartalækninn á 16. viku sem við þáðum.

Einhvern veginn varð sársaukinn ekki eins slæmur og hann hafði verið. En það má alls ekki misskiljast að ég sé hætt að hugsa um missinn, langt í frá, en við fengum ósk okkar uppfyllta um að verða ólétt fljótt aftur.
Ég hugsa um Hrefnu Þórdísi á hverjum degi, hún ætti að vera orðin um þriggja mánaða núna hefði hún lifað en ég veit að hún er á betri stað núna.

Nú er ég komin 19 vikur á leið og það styttist í 20 vikna sónar hjá okkur, sami tími sem við þurftum að enda meðgöngu síðast, en einhvern veginn er ég frekar róleg á þessari meðgöngu þrátt fyrir að hafa verið sagt að ég yrði kvíðin og hrædd. Ég man að ég var mjög kvíðin og hrædd á síðustu meðgöngu því að ég fann alltaf á mér að það væri eitthvað að. Það koma auðvitað dagar þar sem ég hugsa „hvað ef það er eitthvað að þessu barni“ en við vitum allavega fyrir víst að hjartað á þessu barni er alveg heilbrigt.
Við eigum von á þessu kríli í september, í kringum þann dag sem Hrefna Þórdís okkar fæddist.

Umræða um missi á meðgöngu hefur oft verið „tabú“ en það er mikilvægt að tala um þetta mál, því þetta gerist, oftar en fólk heldur og getur komið fyrir alla.

Það eru stuðningshópar sem mér hefur fundist hjálpa mjög mikið þar sem þar eru konur sem hafa lent í svipuðu og deila svipuðum tilfinningum í kringum þetta allt.

Takk fyrir mig.

Vilfríður Hrefna Hrafnsdóttir

X