Loading

AÐ MISSA FÓSTUR – AFTUR OG AFTUR…

Þetta er eitt af því persónulegra sem ég ræði og algerlega án nokkurrar feimni eða skammar. Umræðan um fósturmissi hefur verið svo mikið feiminismál og „tabú“ en má alls ekki vera það. Þetta er það sem gerist, oft !! Því miður. Og það er svo sárt og svo mikill missir. Maður verður svo tómur og upplifir ýmislegt. Það er sorgarferli sem tekur við og það ber að virða !! En, það er sama hversu oft þetta ber á góma þar sem ég er, eiginlega alltaf er einhver sem segir frá sinni reynslu líka og hefur þörf fyrir það !! Hefur kannski aldrei sagt frá áður.
Við hjónin tilheyrum þessum hópi. Ég segi við, því það er ekki bara móðirin sem missir, því fer fjarri.
Við eignuðumst fullkomna stúlku árið 2000, engin vandamál eða neitt óútskýrt þar í kring. Hún bara varð til og kom, er hér enn og er dásamleg 😉
En, það er nú ekki alltaf svona einfalt og ljúft. Við misstum fóstur 2004, 2006 og 2007. Um páskana í öll skiptin. Við vorum farin að hata páskana !! Í alvöru og eðlilega finnst mér. Árið 2004 vorum við búin að þrá það nokkuð lengi að eignast annað barn og gleðin við niðurstöðu þungunarprófs var ólýsanleg. Hún var einstök. Við rukum ekki í að segja frá, mér hefur alltaf fundist rétt að fá að eiga þetta leyndarmál svolítið sjálf fyrst og fullkomlega eðlilegt að bíða – en það eru líka rök sem mæla með því að segja frá. Þegar ég var komin 8 eða 9 vikur vorum við dóttir mín að baka saman, þá var hún 3,5ára. Hún horfði allt í einu á mig og sagði „mamma þú ert með barn í maganum“ ég varð eins og kjáni og reyndi að eyða þessu … en hún lyfti upp svuntunni minni og sagði „jú, sjáðu, þarna er það“ … ég veit ekkert hvað hún sá en við ákváðum að setjast og ræða þetta við hana. Hún var mjög skýr og byrjaði snemma að tala og við gátum ekki logið að henni og sáum í raun enga ástæðu til þess. Við vorum jú svo glöð !! Svo ooooofur glöð. Hún varð voða spennt og talaði um þetta með mikilli gleði og tilhlökkum, svona miðað við aldur; biðin yrði löng. Eða það héldum við.
Ég missti fóstrið á 11 viku, var byrjuð að æla eins og á fyrri meðgöngu og fáir skildu af hverju þessi flensa ætlaði ekkert að rjátlast af mér … það var enginn annar með ælupest. Við vorum ekkert að segja frá nema foreldrum okkar og allra nánustu, til að útskýra veikindin.
Ég hringdi á Kvennadeildina og spurði ljósmóður út í blæðingar sem byrjuðu allt í einu, var sagt að bíða svolítið og sjá til. Hringdi aftur morguninn eftir, það blæddi enn töluvert, og við fórum niður á LSP. Fór í sónar og skoðun … enginn hjartsláttur. Ég fer alltaf að gráta við að hugsa, tala, skrifa um þetta. Þessi setning … en það er svo sem ekki margt annað hægt að segja. Við fengum smá stund saman og svo samtal við hjúkrunarfræðing sem útskýrði tölfræðina, líkurnar, hugmyndir um hvað gæti mögulega hafa gerst og hvað tæki nú við. Við sátum sem steinirunnin og sögðum ekki orð. Tárin runnu í þögninni og við bara biðum. Það sem beið var svæfing og útskaf/útskröpun.
Maðurinn minn fór heim og sótti dóttur okkar á leikskóla. Hans beið ekki skemmtilegt verkefni. Svo sátu þau og spjölluðu og grétu, spjölluðu meira og grétu meira. Hún virtist samt skilja þetta. Svo ótrúlega vel. Hún talaði um að barnið okkar fengi að hitta mömmu hennar Línu, því mamma Línu Langsokks er jú engill á himnum. Hún teiknaði og spjallaði. Svo sóttu þau mig og um kvöldið lágum við saman og grétum, spjölluðum um þetta og margt annað. Skottan hefur alltaf verið svo ótrúlega skýr og næm á líðan annarra og þarna hjálpaði það. Það varð einhvern veginn auðveldara, fannst okkur, að takast á við þetta með barni. Þau spyrja, þau vilja heiðarleg svör en engar ræður. Við veltum okkur ekki upp úr þessu, ekki með henni. Við einbeittum okkur að því að reyna að gera eitthvað skemmtilegt og dreifa hugum okkar. Það reyndi svolítið á leikhæfileika okkar foreldranna. Þetta gekk ágætlega en sorgin hvarf ekki og þetta var erfiður tími. Lengi. Þetta reyndi verulega á okkur, sambandið og allt fjölskyldulífið. Það fljúga alls kyns hugsanir gegnum hugann … gerði ég eitthvað sem ég átti ekki að gera, gerði ég ekki eitthvað sem ég átti að gera, er þetta ég, er þetta hann, borðaði ég eitthvað, æfði ég of mikið eða of lítið … endalaust. Það er ennþá erfitt að hugsa um þetta, mörgum árum, meðgöngum og tveimur börnum síðar.
En, þetta kemur. Maður réttir úr sér smám saman og tekst á við lífið. Þetta fer ekkert, enda lítill engill sem maður var búinn að bindast óútskýranlegum böndum. Af hverju ætti maður að gleyma?
Ég vil bara segja við þau sem eru eða munu glíma við þetta – talið um þetta. Munið samt að sumum finnst þetta óþægilegt og erfitt, en það er alltaf einhver sem skilur, sem betur fer. Ef maður er búinn að segja frá eru meiri líkur á skilningi. Það er svo erfitt að fara að segja frá eftir á, því þá þarf að byrja á að segja … ég varð ófrísk en … og það er svo sárt og erfitt. Maður jafnar sig, og það verður aftur gaman, maður fer aftur að hlæja og fíflast.
Mér finnst þetta hafa breytt okkur. Það þarf ekki að vera slæmt, öll reynsla hefur áhrif á mann og þroskar mann á einhvern hátt. Þetta er reynsla sem maður óskar ekki eftir en situr uppi með.
Ég ætla að skrifa um hin tvö skiptin seinna, ég þarf þess.

X