Loading

AÐ SKRIFA ÓSKALISTA FYRIR FÆÐINGU

Pistill eftir Soffíu Bæringsdóttur, kennara, doulu og burðarpokaspekúlant.

Það er orðið nokkuð algengt að verðandi foreldrar skrifa óskalista sem þeir svo afhenda ljósmóður sem annast þá í fæðingunni. Fæðingaróskalistar eru fyrir margt mjög sniðugir, kannski ekki síst fyrir tvennt. Þeir gera það að verkum að par sest niður og ákveður, hvað það vill, hvernig og af hverju og svo gefur það umönnunnaraðilum kost á örnámskeiði meðan þið kynnist og þeir átta sig á hvað skiptir ykkur máli og geta brugðist við samkvæmt því.

Það er hinsvegar mikilvægt að skrifa sinn eigin óskalista og hafa hann eftir sínu höfði og hafa aðeins það sem skiptir máli á listanum.

Óskalistinn er líka akkúrat óskalisti og miðast við hvernig kona vill hafa hlutina, listinn má ekki vera meitlaður í stein út fyrir öll mörk skynsemi, en það þarf kannski ekkert að taka fram. Rétturinn er samt konunnar, þetta er hennar fæðing og hennar óskir ber að virða.

Við gerð óskalista er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

 • Ekki hafa óskalistann lengri en A4 blaðsíðu, stórt og skýrt letur. Þetta er svona blaðamannakænska, við viljum ekki að sá sem les missi áhugann á miðri leið því letrið er smátt og þétt skrifað.
 • Setjið óskirnar fram kurteisislega og verið persónuleg. Ef listinn er bara afrit af lista einhvers annars eru óskirnar væntanlega ekki teknar jafn alvarlega.
 • Setjið nöfn ykkar á listann og hverjir koma með ykkur í fæðinguna og hvert hlutverk þeirra er.
 • Hvað skiptir ykkur miklu máli og af hverju? Er eitthvað sem þú vilt endilega gera eða alls ekki gera t.d. vatnsfæðing eða innri skoðun. Býrðu yfir lífsreynslu sem er líkleg til að hafa áhrif á fæðinguna t.d. erfið fyrri fæðing, missir eða ofbeldi? Þitt er auðvitað valið að deila því en það getur komið til góða og starfsfólk passað enn betur að vera nærgætið.
 • Hvaða náttúrulegu bjargráð hyggstu nota í fæðingunni og ertu opin fyrir hugmyndum um hvað er hægt að gera? Tónlist og öndun koma konum langt. Ljósmæður búa oft yfir töfraráðum til að gera fæðingu bærilegri t.d. Ilmkjarnaolíur, rebozo og nálastungur.
 • Hvað með myndir, ætlið þið að taka myndir eða video, einhverjar séróskir með það?
 • Hvaða verkjalyf viltu nýta þér og hvernær og hvernig? Hér er verið að tala um gas, petidín og mænurótardeyfingu. Hvaða afstöðu tekur þú til þessa? Hér er gott að vera búin að kynna sér kosti og galla og vita hvort maður vill láta það ráðast á stundinni. Ef tekin er einörð ákvörðun um að fæða án verkjastillingar er gott að biðja starfsfólkið um að bjóða það ekki af fyrrabragði heldur bíða þar til maður stingur upp á því sjálfur.
 • Hvaða stöður og stellingar höfða til þín? Er einhver fæðingarstelling sem þú hefur að þú fílir meira en aðrar? Viltu vera hvött til að vera á ferðinni?
 • Höfðar vatn sem verkjastilling til þín? Stefniru kannski að því að fæða í vatni? Ef svo er er gott að vera fullviss um að ljósmóðirin sé vön vatnsfæðingum.
 • Hvað hefur þú hugsað þér með rembingsstigið? Viltu vera hvött áfram eða látin vera?
 • Hvað með tangir og/eða sogklukku?
 • Þegar barnið er komið i heiminn, hvað þá? Á að bíða með að klippa á strenginn? Viltu láta klæða barnið strax og vigta eða viltu vera með því húð við húð.
 • Hver er afstaða ykkar til fylgjunnar? Viljið þið kannski taka hana með heim?
 • Hvaða afstöðu tekur þú til brjóstagjafar? Má gefa barninu ábót?
 • Mega gestir koma? Viltu svara í síma? Viltu fá einhverja sérstaka aðstoð á meðan þið dveljið þarna?
 • Annað sem skiptir máli ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið eftir fæðinguna, endilega takið það fram.
 • Plan B, hér er gott að setja fram plan B sem er þá afstaða ykkar ef planið að ofan fer ekki eins og lagt var upp með.

Óskalistar eru frábær hjálpartæki þegar þeir eru rétt notaðir og auðvelda öllum vinnuna. Óskalistar eru því miður ekki handrit sem hægt er að fylgja í blindni en þá bregst maður við því á staðnum, rétt eins og í lífinu sjálfu.

– – –

Soffía Bæringsdóttir er kennari og doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X