Loading

AÐ SLEPPA TAKINU

Í fyrsta skipti síðan dóttir mín, Askja Bjargey fæddist finn ég fyrir ró. Ég er afslöppuð.

Askja var greind með efnaskiptasjúkdóm þegar hún var tveggja vikna gömul. Þetta er ósýnilegur og ósanngjarn sjúkdómur. Dóttir mín er fullkomlega heilbrigð og eðlileg að öllu öðru leyti.

Askja byrjaði á leikskóla í byrjun september. Leikskólinn er það besta sem hefur átt sér stað á hennar stuttu ævi. Þar starfa yndisegir leikskólakennarar sem tóku á móti henni með opnum hug og hlýju. Það er töluvert mikið mál að gefa henni að borða því hún er á mjög sérhæfðu fæði og það þarf allt að vera vigtað mjög nákvæmlega ofan í hana og skráð niður. En þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel. Eldri systur hennar eru náttúrulega á sama leikskóla og þar af leiðandi var hún aldrei alveg ókunnug. Það vissu flestir starfsmenn af henni áður en hún byrjaði sjálf og systur hennar eru mikið að pæla og spjalla um hvað hún má borða og hvað ekki.

Það tók samt sem áður alveg nokkra mánuði að undirbúa komu hennar inn á leikskólann, deildarstjórinn hennar og leikskólastjórinn funduðu með næringarfræðingnum hennar, kontaktinum okkar í parlogis og svo vorum við foreldrarnir dugleg að spjalla við þær líka. Það þurfti að sækja um plássið, fá undanþágu fyrir því að hún yrði tekin inn, leikskólinn þurfti að sækja um „stuðning” og þar fram eftir götunum.
Ég er svo heppin að hafa kynnst móður drengs með sama sjúkdóm. Allt þetta ferli hefði verið alveg óbærilegt og erfitt ef ég hefði ekki aðgang að hennar reynslu í þessum málum. Hún hamraði á því við mig frá byrjun að þegar kæmi að því að hún færi á leikskóla, þá myndu öll helstu samskipti sem varða hennar matarræði og það allt saman fara fram í gegnum næringarfræðinginn. Bara svo við gætum kúplað okkur út úr umönnunni á meðan hún væri í daggæslu. Hún nestaði son sinn í leikskólann og ég get ekki ímyndað mér hversu mikil vinna það var. Og það hefur komið á daginn að þessi ráð sem hún gaf okkur eru sennilega bestu ráð sem ég hef fengið á ævinni. Til að byrja með, fyrstu mánuðina var tilhugsunin um að leggja barnið í hendurnar á einhverri ókunnugri manneskju mjög fjarlæg og bara fáránleg. Mér fannst ég þurfa að bera allan þungann, áhyggjurnar og vinnuna sjálf. En ég er líka mamma hennar. Og allar mömmur hugsa svona. Hvort sem börnin þeirra eru fullkomlega í lagi eða ekki. Ég fékk samt rétta hvatningu, á réttum tíma og uppskeran er fram úr öllum vonum!

Þrátt fyrir erfiða niðurskurði alls staðar eru verkefnin unnin með það að markmiði að láta hlutina ganga upp. Ég er alveg einstaklega þakklát fyrir starfsfólk leikskólans því það sem er verið að fara fram á við þau er í rauninni langt umfram þeirra starfslýsingu. En þar á bæ eru hlutirnir bara tæklaðir með jákvæðu hugarfari og vandamálin fá ekki að verða til.

Askja blómstar og er svo hamingjusöm á leikskólanum sínum. Hún hefur engan tíma til þess að kveðja á morgnana og hún hoppar skælbrosandi í fangið á manni þegar hún er sótt.

Það er ofboðslega mikilvægt að flestir geri sér grein fyrir mikilvægi daggæslu. Þar öðlast börnin félagslega færni og sjálfstæði. Þroskastökkið fyrst eftir að börn byrja á leikskóla eða dagmömmu er alveg rosalegt. Allt í einu er barnið ekki bara ,,litla barnið manns”, heldur fer maður að sjá þessa litlu manneskju þrokast og eflast á svo allt annan hátt en áður.

Ég lagði allt mit traust á starfsfólk leikskólans, manneskjum sem sinna börnunum mínum og annarra af mikilli ást og alúð alla daga.

Þess vegna er ég afslöppuð, þess vegna finn ég fyrir ró. Byrðinni hefur verið lyft af mér og ég deili henni með enn fleirum. Ég var svo hrædd við þessi tímamót, hrædd við að geta ekki sleppt af henni höndinni og hrædd við að „enginn” gæti sinnt henni eins og við. Ég hafði rangt fyrir mér!

X