Loading

AÐ SLEPPA TÖKUNUM – LISTIN AÐ ÞIGGJA

Ég gleymi seint atviki sem fékk mig til að endurskoða þá miklu list sem er fólgin í því að þiggja. Ég var á gangi að sumarlagi með dóttur mína í kerru, veðrið var fallegt og það var nokkuð hlýtt úti. Framundan okkur sé ég hvar gömul kona kemur gangandi hægum skrefum með tvo innkaupapoka, einn í hvorri hendi. Ég man að ég hugsaði með mér að ég skyldi nú bjóðast til að keyra pokunum hennar heim í kerrunni, hún yrði örugglega fegin og á leiðinni gætum við spjallað saman um gamla tíma. Glöð í bragði með þetta nýja plan mitt nálgumst við konuna, sem þá hafði numið staðar til að hagræða pokunum. Augljóslega voru þeir þungir fyrir hana, henni var heitt og hún átti enn eftir dágóðan spöl heim til sín á dvalarheimilið, sem við mæðgurnar höfðum gengið fram hjá skömmu áður. Ég stoppa kerruna og býð góðan daginn og spyr í kjölfarið hvort við megum keyra fyrir hana pokunum heim. Svarið kom mér heldur betur í opna skjöldu og var að sjálfsögðu ekki partur af „planinu“ mínu: „Nei takk, ég er bara löt.“ Svaraði konan samstundis, móð og með tóni sem virtist lýsa vanþóknun hennar á þessari frammistöðu sinni. Ég stamaði upp einhverju svari á meðan ég reyndi að melta svar hennar betur. Í hálfgerðri leiðslu hélt ég áfram göngunni en gat ekki hætt að hugsa um þetta. Ég leit til baka og sá hvar konan var enn og aftur búin að leggja pokana frá sér.

Það sorglega við þetta allt saman er það að mjög líklega hefur konan haldið áfram að brjóta sig niður alla leiðina heim, sagt sjálfri sér hversu löt hún væri, nú og ómöguleg, já, gott ef ekki bara algjör aumingi. Mér verður reglulega hugsað til þessarar konu og ég óska henni af öllu hjarta þess frelsis, sem fylgir því að geta einn daginn sleppt tökunum og sagt „Já, takk!“

Jafnframt, minni ég sjálfa mig á það hversu dýrmætt og nauðsynlegt það er að geta þegið hjálp, að geta sagt þessi orð: „Já, takk“ og fundið fyrir raunverulegum létti, jafnvel gleði – en ekki sektarkennd. Hvort sem er í heimilishaldinu, barnauppeldinu, vinnunni, búðinni eða á förnum vegi vil ég trúa því að þegar fólk býður fram aðstoð vilji það raunverulega hjálpa. Ég vil líka trúa því að við höfum öll gott af því að þiggja hjálp – á sama hátt og við höfum öll gott af því að gefa öðrum af okkur sjálfum. Þetta snýst um jafnvægi eins og allt annað í heiminum, að gefa og þiggja, plús, mínus, yin og yang.

Kæru mömmur, ömmur, frænkur, systur og vinkonur. Það er ekki merki um veikleika að þiggja hjálp. Í rauninni er það þvert á móti merki um mikinn styrk. Nefninlega: Að sleppa tökunum.

– – –
Huld Hafliðadóttir er Kundalini jógakennari, leiðsögukona á sumrin og þýskunemi utan skóla. Tveggja barna móðir, búsett á Húsavík og starfar eins og er við ýmis verkefni á Hvalasafninu á Húsavík. Með óþrjótandi hugmyndir og áhuga á sem flestu, hefur hún fyrst og fremst gaman af lífinu og öllu sem það hefur upp á að bjóða.

X