Loading

AÐ SNERTA OG STRJÚKA

Þegar ég var ólétt að fyrsta barninu og kúlan var farin að standa aðeins út og fréttirnar að kvissast út um fyrirtækið þar sem ég starfaði, varð ég fljótt vör við það hvernig allt breyttist. Skyndilega var staðið upp fyrir mér á yfirfullum fundum, kaffistofuspjallið mitt snérist bara um óléttuna og ég gleymi því ekki hvað margir urðu hissa yfir því að ég ætlaði að ferðast með þeim, án maka, til Akureyrar á árshátíð. Grindin var í fínu lagi, ég átti ekki erfitt með gang eða svefn og var almennt í góðu stuði og formi. Fyrst fannst mér þetta vissulega ofursérstakt en lærði samt fljótt að njóta óléttuathyglinnar og tilheyra skyndilega greinilega algjörum forréttindahópi. Ég var orðin ófrísk viðkvæm verðandi móðir, í stað töffarans sem áður gat allt með léttu. Eða það fannst þeim að minnsta kosti! Samt hafði ég ábyggilega sjaldan verið frískari.

Það sem þó vakti mesta athygli mína á þessum tíma var hvernig mitt persónulega rými og snerting fengu allt aðra merkingu á meðgöngunni. Það var allt í einu eins og allt væri leyfilegt. Ég stóð inni á litlu kaffistofunni að ná mér í vatn þegar yfirmaður eins sviðsins í fyrirtækinu gengur inn. Hann hafði alltaf verið frekar fjarlægur mér og ekki mikið gefið færi á því að kynnast mér eða spjalla. Ég hafði greinilega ekki verið svo merkileg í hans augum… ekki fyrr en þarna. Þarna vorum við stödd inni í þessu litla kaffistofurými og ég sá strax hvernig andlitið, fasið og röddin breyttist þegar hann sá kúluna. Það var eins og allar varnir hyrfu og hann fór að spyrja mig út í óléttuna – um leið og hann lagði höndina á kúluna og snéri lófanum létt í hringi. Þetta varði í dágóða stund og jú, ég varð svakalega hissa. Þarna var þessi merkilegi upptekni yfirmaður sem ég þekkti sama og ekkert að strjúka á mér bumbuna spyrjandi mig hvernig við (barnið) hefðum það. Við urðum mestu mátar á mettíma – allt kúlunni að þakka.

Ég hef ekki tölu á hversu margir struku á mér kúluna næstu mánuðina, ýttu, potuðu eða hlustuðu, án þess svo mikið sem spyrja mig hvort það mætti. Það er einhvern veginn eins og þessar útstandandi bumbur bjóði upp á það að sjálfu sér að verða snertar af bæði konum og körlum og það þurfi ekkert leyfi. Þetta er jú vissulega harðbannað þegar ekkert barn er í bumbunni… Karlarnir verða mjúkir og sætir er þeir strjúka og konurnar, sér í lagi þær sem eiga nú þegar börn, tísta og fá gæsahúð er þær um leið rifja upp sína reynslu. Persónulegt rými óléttrar konunnar er skyndilega ekkert og það að snerta konuna er hreinlega talið leyfilegt.

Persónulega fannst mér þetta ekkert mál og meira gaman en ekki og skapa skemmtileg óvænt tengsl milli mín og ólíklegasta fólks, þótt ég hafi vissulega orðið steinhissa við fyrstu strokuna. Ég veit hins vegar að margar konur þola þetta ekki, finnst þetta argasti dónaskapur eða finnst snerting á bumbusvæðinu almennt óþægileg. Svo við ættum kannski að spyrja um leyfi næst þegar okkur þyrstir í að snerta bumbur, það er kannski ekki svo sjálfsagt fyrir allar konur.

– –

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir er 36 ára tveggja barna móðir sem langar í þriðja. Hún hefur búið með fjölskyldunni síðastliðið 1,5 ár í Ástralíu þar sem hún stundaði mastersnám í alþjóðlegum friðarfræðum en er á heimleið í sumar. Erlu finnst skemmtilegast að gera hversdagslega hluti að öðruvísi og spennandi athöfn með krökkunum og að ræða málin með þeim þar sem slíkt spjall, þótt stutt sé, birtar alltaf upp daginn.

X