Loading

AÐ ÞORA AÐ SEGJA JÁ

Hvenær á maður að biðja um hjálp? Ég sat á spjalli við konu um daginn sem hefur glímt undanfarið við fæðingarþunglyndi og upp úr samtalinu kom það í ljós að hennar tilfinning væri sú að hún þyrfti að gráta af vanmætti og vanlíðan til þess að eiga rétt á því að biðja um hjálp og segjast vera með þunglyndi. Ég fór því að velta fyrir mér hvort það ætti við um fleiri konur. Ég veit að fyrir mitt leyti að þá gerði ég mér sjálf ekki almennilega grein fyrir því að það væri eitthvað að, mér fannst þetta vera eðlilegar hugsanir en mér leið verulega illa.

Samkvæmt mínum bókum á maður ekki að þurfa (hvort sem það séu karlar ellegar konur) að vera algjrlega niðurbrotinn til að mega biðja um aðstoð fagaðila, vina eða ættingja. Það geta ekki allir dagar verið góðir og frábærir en þeir eiga þó að vera í meirihluta. Þegar dagar sem einkennast af vanlíðan, vanmætti og óeðlilegum hugsunum um lífið og tilveruna eru komnir í meirihluta er nauðsynlegt að leita sér aðstoðar.

Það er ekki veikleikamerki að biðja um hjálp eða aðstoð. Hvort heldur sem andlegan eða verklegan stuðning. Það er meira en að segja það að sjá um heimili, börn og jafnvel vinnu með því. Ég sjálf hef nýtt mér það stundum að fá einhvern annan til að hafa börnin svo að ég geti séð um að þrífa heimilið hátt og lágt … ef til vill ekki alltaf þegar ég hef virkilega átt að gera það en maður er alltaf að læra.

Að biðja um hjálp er fremar merki um hugrekki. Ég sé það alla vega þannig. Það er ekki auðvelt að taka upp tólið og segjast ekki geta framkvæmt eitthvað einn síns liðs.
Ef þú ert ein eða einn af þeim sem átt fleiri slæma daga en góða, taktu upp tólið, hringdu í ættingja, vin, fagaðila eða einhvern sem þú treystir til að leiða þig áfram í rétta átt. Hugrekki í þessum aðstæðum borgar sig margfalt. Þér er líka velkomið að hafa samband við mig ef þú vilt það heldur, getur sent mér tölvupóst (hiljan hjá gmail.com) eða leitað mig uppi í símaskránni.

Það þarf ekki að gráta til þess að hafa rétt til þess að leita sér hjálpar, er ekki kominn tími á að breyta þeim ranghugmyndum ???

– – –

Ég heiti Hildur Lilja en er yfirleitt kölluð Hilja. Ég er 26 ára, gift og á tvo litla drengi. Ég er menntaður náttúrufræðikennari og ástríða mín tengist fyrst og fremst hinum ýmsu sviðum heimilisins og reyni ég að deila þeirri ástríðu á www.hiljainspires.blogspot.com. Hér hef ég hins vegar hugsað mér að deila með ykkur móðurhlutverki mínu.

X