Loading

AÐ TÝNA BARNINU SÍNU

Undanfarið hefur verið auglýst eftir mjög ungum börnum sem urðu viðskilja við foreldra sína og fundust ekki fyrr en nokkrum klukkustundum síðar. Þau höfðu þá farið heim til annarra barna án þess að foreldrar þeirra barna létu viðkomandi foreldra vita. Ég hef sjálf orðið fyrir þeirri skelfilegu lífsreynslu að týna barninu mínu og þá reynslu þarf ég vonandi aldrei að upplifa aftur.

Dag einn var dóttir mín, tæplega sex ára gömul, að leika sér á planinu fyrir framan heimili okkar. Ég var með svalahurðina opna og fylgdist reglulega með leiknum. En allt í einu, er ég leit út, var hún horfin. Börnin, sem hún hafði verið að leika sér við, voru enn að leik á planinu en gátu upplýst mig um að hún hefði farið eitthvað með einhverri stelpu. Ekkert barnanna þekkti þó þessa tilteknu stelpu og leitin hófst. Eldri dætur mínar og vinkonur þeirra voru líka sendar í leitina. Sjálf hringdi ég í alla foreldra þeirra barna sem mig gat hugsanlega grunað eða dottið í hug að dóttir mín hefði farið heim með, en allt kom fyrir ekki − hún var týnd. En um það bil tveimur klukkustundum síðar fannst hún þar sem hún í sakleysi sínu var á heimleið. Hún hafði farið heim með stelpu, tveimur árum eldri, og fékk að fara inn með henni eins og ekkert væri sjálfsagðara.

En þá spyr ég: Hvers vegna hleypa foreldrar öðrum börnum inn til sín án þess að láta viðkomandi foreldra vita, og þá sérstaklega ókunnug börn eða nýja leikfélaga?

Það ætti að vera gefin regla að foreldrar bjóði engu barni inn á heimili sitt án þess að foreldrar þess viti af því. Þessa reglu ættu allir foreldrar að virða. Þannig má koma í veg fyrir óþarfa skelfingu foreldra og aðstandenda þeirra sem týna barninu sínu á þennan hátt. Enginn á að þurfa að upplifa slíka reynslu að týna barninu sínu.

– –

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X