Loading

AÐ VERA LANGVEIK MÓÐIR

Ég er móðir, með mitt fyrsta barn, og er með sjúkdóm.

Ég er með hjartagalla og liðagigt. Get ekki verið undir miklu álagi þá fer hjartað á fullt, get ekki gengið upp langar brekkur því þá verð ég andstutt, né beygt mig mikið eftir hlutum eða haldið endalaust á barninu mínu vegna gigtarinnar.

Að vera móðir með sjúkdóm er erfitt og tekur á andlega og líkamlega.

Ég er í 100% starfi heima og barnið er í leikskóla í fimm tíma á dag. Á meðan fæ ég minn afslöppunartíma því svo tekur við stanslaus umönnun barnsins.

Mig dreymir um heilbrigt líf. Að geta hlaupið um garðinn með barninu án þess að verða andstutt, geta gengið upp Esjuna með hana án þess að þurfa nota astmapúst, eða getað haldið á henni heilan dag án þess að finna fyrir verkjum í baki og fótum. 
Dreymir um að geta hlaupið á eftir henni í Bónus án þess að vera andstutt og þurfa stoppa til að ná andanum og slaka á.

Ég öfunda hinar mömmur sem eru þessar ofurmömmur í mínum huga. Þessar sem geta hlaupið um og verið í fótbolta. 
Hvað þá vera í 100% vinnu og sinna bæði heimili og barni. Ég get ekki unnið, má rétt svo vinna 20-50% vinnu og ég dauðöfunda hinar mömmunar sem tala um vinnuna, hlaupatúrana sem þær fóru í og tóku krakkana með, eða þá jafnvel berjatýnslu upp í fjall.

Mig dreymir um að eiga langt og gott líf og sjá barnið mitt vaxa, dafna, fara í grunnskólann eftir leikskóla, framhaldskóla, klára háskólann, gifta sig, eignast barnabörn og svo framvegis.

Daglega reyni ég að hugsa ekki um sjúkdóm minn og hugsa það jákvæða, bjartara og fallegasta sem ég á: stelpuna mína.

Margir spurðu mig hvort ég gæti yfir höfuð verið ólétt vegna hjartagalla. Hvort ég gæti yfir höfuð séð um barn og sinnt því næstu árin, af hverju? Vegna sjúkdóms? Af því ég er ekki 100% heilbrigð 
eins og þú? Get ég þá ekki verið góð, frábær og besta móðir í heimi?

Núna þarf ég að fara í stóra og mikla hjartaþræðingu í Boston eftir mánuð, sem mun gera mitt líf svo miklu betra. Engin lyf, mun hætta vera andstutt (vonandi) og mun einn dagin geta spilað fótbolta með barninu eða farið snú snú. Það erfiðasta við það er að þurfa vera frá henni þessa daga, hafa hana í pössun, ekki geta knúsað hana, kysst hana, leikið sér við hana, farið með hana í leikskólann og sungið með henni. En í stað hugsa ég að þetta er allt gert fyrir það besta, besta fyrir mig og hana.

Kanski ég mun geta gengið upp alla Esjuna í sumar, eða skroppið í fótbolta út í garð, og jafnvel út að skokka líka.

Ég er orðin þreytt á að að heyra að ég sé ekki nægilega góð móðir því ég er með sjúkdóm. Ég er alveg jafn góð og allir hinir þó ég sé ekki 100% fullkomin. Daglega geri ég mitt besta, þrauka og geri allt til að barninu mínu líði vel. Ég er góð mamma – alveg eins og þú.

Vaka Dögg

– – –

Ég heiti Vaka Dögg, fædd árið 1985, þann 1. mars. Eignaðist mitt fyrsta barn 11. febrúar 2011, litla hetju prinsessu. Er fiskur í stjörnumerki. Frekja, skemmtileg, ferleg, einstök, upptekin af vinum og vandamönnum og einnig hundamamma! Sé um öll heimilisverkin hér heima, svo sem næturgjafir, bleyjuskipti, týna upp og þvo óhreina sokka, setja í uppþvottavélina og stundum elda kvöldmatinn! Samt sem áður hef ég tíma fyrir Facebook og að skrifa greinar.

X