Loading

AÐ VERA MAMMA

Að vera mamma …

Er alveg yndislegt og án ef merkilegasta hlutverk sem ég hef tekið að mér. Að vera mamma þýðir að ég stend vaktina allan sólarhringinn, er alltaf tilbúin ef börnin þurfa á mér að halda.
Að vera mamma þýðir að ég er stundum með ælu á öxlunum.
Að vera mamma þýðir að ég er oft að hugsa um annað en það sem ég er að gera.
Að vera mamma þýðir að ég fer yfirleitt síðust að sofa, vegna þess að ég geng frá, þvæ þvott og tek saman föt og dót sem á að fylgja guttanum í leikskólann daginn eftir.
Að eiga börn þýðir að heimilið er ekki alltaf spikk og span, sandur og bleyta í forstofunni, playmó karlar og hjól út um gólf, vörubílar, gröfur og kubbar finnast hingað og þangað.
Að vera mamma þýðir ekki að mig langi aldrei til að gleyma stað og stund og verða 17 ára aftur. Það þýðir ekki að mig langi aldrei út á kvöldin, að mig langi aldrei til að hitta vini mína. Reyndar þýðir það miklu frekar að ég er sjúk í að komast út og hitta fólk.
Ég viðurkenni það að oft hugsa ég með mér hvað ef..
… ég hefði aldrei kynnst Gulla
… ég hefði ekki átt börnin
Hvar mögulega væri ég stödd?
Mér tókst að ljúka háskólanámi áður en börnin komu í heiminn (ekki að það sé eitthvað merkilegast í heimi).
Mér tókst að fara ófáar ferðir til útlanda.
Mér tókst að eyða miklum tíma í að gera ekki neitt (frekar merkilegt).
Mér tókst að vera ótrúlega óskipulögð.
Mér tókst að koma mér upp heimili.
Mér tókst að afla mér reynslu á vinnumarkaði.
Þetta skiptir allt svo litlu máli núna. Ég veit hreinlega ekki hvar ég væri stödd ef ekki væri fyrir litlu gormana mína.
Ég sakna þeirra um leið og ég er komin út af heimilinu. Það besta sem ég veit er þegar litli tveggja ára guttinn minn skríður upp í rúmið til okkar seinni part nætur og ef hann kemur ekki liggur við að ég fari og nái í hann.
Litla skvísan mín er ennþá virkilega háð mömmu sinni hvað fæðu varðar og mér finnst það góð tilfinning að vakna með henni í bítið og eiga smá mæðgnastund áður en feðgarnir fara á fætur.
Hvað með það þótt það sé stundum drasl, af hverju er maður að ergja sig á því þegar börnin gefa manni svona ótrúlega mikið. Hvað með ælublettina á öxlunum, matarleyfar í buxnaskálmunum, fingraför á speglunum og sand í forstofunni.
Ég ætla að fara að einbeita mér að einhverju öðru en þessum smáu hlutum sem verður kippt svo auðveldlega í liðinn með ajaxi, tusku og þvottavél.

X