Loading

Af hverju reynduð þið ekki bara að eignast barn eðlilega?

Fyrirsætan, sjónvarpsstjarnan og metsöluhöfundurinn Chrissy Teigen er þekkt fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum þegar kemur að umræðum á netinu. Hún er hárbeitt og hispurslaus og ekki hrædd við að koma til dyranna eins og hún er klædd.

Hún hefur aldrei farið leynt með þá staðreynd að dóttir hennar og eiginmanns hennar, John Legend, er glasabarn og að það hafi verið langt og erfitt ferli að eignast hana.

Internet-tröllið Linda Wampaugh, sem samkvæmt Twitter prófílnum sínum elskar að angra óþolandi fræga einstaklinga með því að beita tjáningarfrelsinu sem stjórnarskráin veitir henni. Greinilegt er að stjórnarskrárvarinn réttur hennar veitir henni jafnframt frelsi til að ráðleggja öðru fólki varðandi barneignir og hvernig sé best að bera sig að.

Í tístinu sem Linda sendi frá sér spyr hún Teigen hvort hún hafi svo mikið sem reynt að eignast barn „eðlilega” eða hvort hún sé fráhverf því að „gera það”?

Teigen var ekki lengi að svara:

Hæ Linda. Takk fyrir að spyrja, nornin þín. Ég reyndi í níu ár. Eitthvað fleira?

Eins og allir foreldrar vita sem eiga við frjósemisvandamál að stríða þá er fátt erfiðara en stanslausar spurningar um hvenær sé von á barni, öll góðu ráðin eins og að fá sér hund og slaka bara á – hætta helst að hugsa um það… og svo auðvitað hinir alvitru sem stinga bara upp á því að maður geri það „eðlilega” og allt annað sé bara merki um almennan fávitaskap og áhugaleysi á kynlífi!!!

Húrra fyrir Teigen.

X