Loading

AF STRESSI OG ÖÐRUM NÚTÍMAKVILLUM

Þú ert 28 ára. Það er mánudagsmorgun. Þú fórst alltof seint að sofa og vaknar upp með andköfum við vekjaraklukkuna og uppgötvar þér til skelfingar að þú ert orðin of sein/n. Pirringurinn tekur yfirhöndina og þú blótar öllu í sand og ösku í huganum. Klósettferð-klæða sig-borða-bursta-koma barninu á lappir og í föt- drífa sig svo út. Allt þetta á sem stystum tíma. Það er verkefnið sem bíður. Nei, mamma getur ekki lesið þessa bók fyrir þig núna. Nei, núna er ekki hægt að púsla. Nú verðum við að drífa okkur, við erum orðin alltof sein! Í fötin, drífa sig og svo einn, tveir og út!

Þú ert 3ja ára. Það er mánudagsmorgun. Þú sofnaðir í gærkvöldi eftir að mamma eða pabbi hafði lesið uppáhalds söguna þína og ert búin/n að sofa vel. Þú teygir úr þér, stekkur fram úr rúminu og hleypur inn í herbergi til mömmu og pabba. Þú sérð og heyrir strax að mamma/pabbi er stressuð/aður og að flýta sér. Þú skilur ekki afhverju. Í gær var enginn stressaður, þá settumst við saman niður og lásum bók. Afhverju ert það ekki hægt núna? Afhverju þurfa allir að flýta sér, ekkert hægt að tala saman eða gera saman. Þú skilur þetta ekki. Ringluð/aður drífuru þig í fötin og fylgir foreldri þínu í humátt út í bíl.

Það er oft svo auðvelt að gleyma sér í stressinu og hraðanum sem að tíðkast í nútímasamfélagi. Það er líka auðvelt að gleyma því að börnin okkar hafa, sem betur fer ekki skilning á því afhverju það þarf að drífa sig og stressa sig yfir jafn miklu smáatriði og tímanum. Fimm mínútur til eða frá geta ekki skipt svona miklu máli fyrir vinnuafköst dagsins. Næst þegar að stressið og pirringurinn tekur yfir ætla ég því að prófa að stoppa við og velja frekar að eyða þessum fimm mínútum með barninu mínu. Setjast niður og lesa með því bók. Sú minning er mun líklegri til þess að ylja heldur en sú þar sem ég sit og stari á tölvuskjá meðan ég hamast á lyklaborði.

Bestu kveðjur,

Sandra Hrafnhildur

– –

Sandra Hrafnhildur Harðardóttir er 26 ára gömul og á ættir að rekja til Þingeyjarsýslu. Hún ólst upp á Seyðisfirði, þeim fallega stað og stundar nám við Háskóla Íslands við mannfræði. Hún stofnaði góðgerðarframtak sem ber nafnið Vonarnisti síðasta janúar. Hún á eina litla skottu, hina 3ja ára Amelíu Rún og svo er annað væntanlegt heiminn í enda október.

X