Loading

HÚSMÆÐRAORLOF

Ég er á leiðinni til Boston. Ójá! Hjartað hamast af tilhlökkun og sem óð fantasera ég um MoccaLoccaGingerKaffi frá Starbucks, hitta mömmu mína og systur og njóta þess að fara í alvöru húsmæðraorlof. Tek reyndar litlar stýrið með þannig orlofið verður í lágmárki en halló – þrjár kynslóðir saman og allir hressir. Það er ómetanlegt.

Ég var búin að sjá þessa ferð fyrir mér sem afslappandi kósíheitaferðaleg þar sem ég myndi rölta á milli skemmtilegra búða með krúttið í kerrunni og kaupa eitthvað smálegt sem vantaði til jólanna – eins og smákökuskreytingarsett og annað álíka sniðugt sem fæst bara í Ameríku. Meðan ég planaði í ró og næði var ég gjörsamlega ómeðvituð um storminn sem er í aðsigi og núna sit ég fyrir framan tölvuna og hamra niður þessi orð – með hnút í maganum og kökk í hálsinum.

Málið er nefnilega að á föstudaginn er hinn svokallaði Svarti Föstudagur – eða Black Friday í Bandaríkjunum. Þá byrja jólaútsölurnar! Búðir opna sumar hverjar á miðnætti, tilboðin eru fáránleg og allt virðist leyfilegt. Allar sjónvarpsauglýsingar sýna snaróðar konur vera í heimagerðri herþjálfun til að undirbúa sig sem best fyrir brjálæðið og áhugasömum er bent á að mæta nokkrum klukkutímum fyrir opnun því svo langar verði raðirnar.

Á Svarta Föstudeginum er líka allt leyfilegt. Þá máttu hlaupa niður aðra viðskiptavini, stela úr körfunum þeirra, skriðtækla, rífa af og allt hvað eina. Sögur af grátandi fólki í mátunarklefum sem búið er að hirða fötin af óma og einhver hvíslaði að mér að ég ætti að mæta með net yfir innkaupakörfuna svo það væri ekki hægt að taka góssið mitt og að ég mætti aldrei líta af barninu – þá yrði því stolið. Árlega liggja einhverjir í valnum því þetta er ekkert ævintýri fyrir aumingja!

Ekki nóg með það heldur er víst búið að herða til muna alla öryggisleit við komuna til Bandaríkjanna og nú er svo komið að hversdagsbullurnar í öryggisbúningunum eru komnar með leyfi til að þukkla gróflega á fólki. Eru menn vægast sagt æfir yfir þessu og krafðist einn flugfarþegi þess í gær að fá hreinlega að afklæðast frekar enn að þurfa að þola þuklið. Að sjálfsögðu var sagt nei því nekt er svo dónaleg – en ekki þukl!

Nú er því að duga eða drepast. Ætla ég að liggja skjálfandi undir rúmteppi inn á hótelherbergi og bíða af mér brálæðið eða ætla ég að reima á mig gömlu stáltáskóna mína, setja á mig grifflur og hnúajárn, teipa barnið á bakið á mér, ata mig stríðsmálningu og arka út í vitleysuna. Ég eiginlega veit það ekki.

Ég vona því innilega að ég snúi ekki til baka úttauguð og þukluð, blúsuð, beygð og búin á því. Og þó – það er aldrei að vita nema að mér áskotnist smákökuskreytingasett á hálfvirði…

X