Loading

ÁFALL Í KÓLUMBÍU

Þrautarganga Friðriks og Bjarnhildar, foreldra Helgu og Birnu sem verið er að ættleiða frá Kólombíu ætlar engan endi að taka en núna á dögunum hundsaði hann dóm hæstaréttar og gaf aftur út sama dóm. Dómurinn er mikið áfall fyrir fjölskylduna sem hefur nú dvalið þar í landi í tæpa tíu mánuði. Hér gefur að líta ítarlega greinargerð frá þeim hjónum um gang mála.

Frá fjölskyldunni:

Dómari nr. 9 er okkar versta martröð eins og við óttuðumst, hann er núna búinn að gefa út nýjan dóm þar sem hann hunsar alfarið dóm yfirboðara síns. Hann gaf bara aftur út sama dóm og í byrjun júní, samþykkti sem sagt ekki ættleiðinguna eins og dómurinn í Tribunal dæmdi hann til að gera. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir okkur og alla sem koma að málinu.

Okkur var sagt að ef hann myndi ekki gefa út dóminn eins og Tribunal dæmdi hann til að gera þá myndi hann vera rekinn. Við vonum bara að hann verði látinn fara svo hann geti ekki kvalið fleiri fjölskyldur. Það er víst búið að reyna að koma þessum manni frá í mörg ár og er vonast eftir því að okkar mál muni vera kornið sem fyllir mælinn. Okkur skilst að hann sé víst alfarið á móti ættleiðingum til erlendra fjölskyldna og telur greinilega samkvæmt þessum dómi og hinum (í júní) að það sé betra fyrir Helgu og Birnu að alast upp á stofnun til 18 ára aldurs heldur en að alast upp hjá fjölskyldu sem elskar þær út af lífinu.

Við vitum að það eru einhverjir sem halda að það sé eitthvað gruggugt í okkar máli sem við erum ekki að segja frá en svo er ekki. Það er bara þessi maður sem er greinilega eitthvað veikur á geði og getur ekki játað sig sigraðan og eru allir sem koma að málinu alveg miður sín yfir þvi hvernig hann leyfir sér að koma fram við okkur. Okkar mál er algjört einsdæmi hérna í Kólumbíu.

Það er engin sem gerir tilkall til stelpnanna okkar nema auðvitað við og fjölskylda okkar. Blóðfjölskylda stelpnanna gerir ekki tilkall til þeirra og hefur Birna Salóme aldrei búið hjá þeim og Helga Karólína fór frá þeim þegar hún var eins og hálfs árs. Þær voru hjá fósturfjölskyldu þar til við komum að sækja þær. Fósturfjölskyldan er á launum hjá ICBF ríkisreknu ættleiðingarstofnuninni við að hugsa um munaðarlaus börn og gerir ekki tilkall til þeirra.

Hér er færsla af heimasíðunni okkar um það þegar við hittum dómara nr.9 í fyrsta sinn, það var 7. febrúar: „Seinni partinn í gær fórum við að hitta dómarann. Við þurftum að bíða eftir honum í um 2 klukkutíma þar sem ekki er hægt að panta tíma hjá honum. Hann sagði okkur að það væri mjög mikið að gera hjá sér og að hann myndi reyna að klára málið á 4 – 6 dögum eða í seinasta lagi á þriðjudaginn (14 feb) í næstu viku. Við erum ekkert stressuð með þetta lengur þar sem hann sagði okkur það sem skiptir okkur öllu máli, það er að hann ætlar að „dæma okkur í vil“ að við verðum löggiltir foreldrar stelpnanna okkar. Hann sagði að þetta sé allt eins og það á að vera þannig að núna getum við farið að sofa rólega.“

Við fengum strax á tilfinninguna að það væri ekki hægt að treysta þessum manni og var það greinilega rétt hjá okkur. Það voru margir póstar sem við fengum á tímabilinu janúar til júní frá lögfræðingi okkar þar sem hún segir okkur að dómarinn lofaði henni að hann ætlaði að gefa út dóminn á næsta föstudag…. þeir voru ansi margir og aldrei stóð hann við það… Einnig lofaði hann henni alltaf að hann myndi dæma okkur í vil…. en síðan tók hann bara geðþóttar U-beyju….
Þann 29. júní fór Friðrik að hitta dómarann og sagði hann þá við hann að hann væri alls ekki að reyna að taka stelpurnar af okkur, hann væri ekki vondi maðurinn í þessu. Samt var hann búinn að gefa út dóminn þá…..

Þann 6 .september gefur dómarinn út opinbera tilkynningu þar sem hann segir að hann ætli að gefa út réttan dóm eins og Tribunal dæmdi hann til að gera. Svo 2 vikum seinna gefur hann aftur út sama rugl dóminn sem Tribunal var búið að dæma ógildan. Það er því miður ekkert að marka neitt sem þessi maður segir eða gerir, hann er algjörlega siðblindur! Greyið!

Það eru 4 mánuðir síðan dómari 9 gaf út fyrsta dóminn og lítur allt út fyrir að við séum komin aftur á byrjunarreit sem okkur finnst alveg óskiljanlegt, við skiljum engan veginn hvernig réttarkerfið hérna getur virkað svona….

En og aftur erum við komin í þá stöðu að óvissan ræður ríkjum hjá okkur. Það sem við vitum er að það verður byrjað á því að áfrýja málinu aftur til Tribunal og er vonast eftir því að þeir geti tekið við málinu aftur. Þetta er allt á byrjunarstigi og vitum við ekki hvernig þetta verður en vonum við bara að við sleppum frá þessum manni sem er alls ekki hæfur í sínu starfi.

Við erum búin að vera í landinu í 9,5 mánuð núna og höfum enga hugmynd um hvað er langt eftir. Við erum alla vegna ekkert á leiðinni heim á næstunni eins og við vonuðumst eftir sem er mikið sjokk fyrir okkur þar sem við vorum komin hálfa leiðina heim í huganum.

Fólk hefur mikið verið að tala um hvað Helga og Birna séu heppnar að eiga okkur fyrir foreldra, okkur finnst við vera miklu heppnari að hafa fengið þær inn í líf okkar.

Þegar maður fær börnin sín í fangið í fyrsta sinn þá breytist allt og höldum við að það skipti engu máli hvernig börnin koma inn í líf manns. Þetta eru börnin þín sem þú elskar meira en allt annað í lífinu og þú vilt að þau fái allt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Þú vilt vernda þau fyrir öllu illu í heiminum og það er ekkert öðruvísi með okkur heldur en aðra foreldra, við munum gera allt sem við mögulega getum til að vernda dætur okkur. Helga og Birna eiga hvergi annars staðar heima heldur en hjá okkur og það vita það allir foreldra að þeir myndu aldrei skilja börnin sín eftir í ókunnugu landi til að alast upp á stofnun.

Kærar kveðjur
Friðrik og Bjarnhildur

X