Loading

ÁGÆTIS BYRJUN FYRIR NÝBAKAÐA FORELDRA

Ágætis byrjun er verkefni sem Umhverfisstofnun stendur fyrir til að kynna Svaninn og hvetja foreldra til að nota umhverfismerki sem hjálpartæki við vöruval. Með því að velja umhverfisvottaðar vörur fram yfir aðrar tekur maður sjálfur stjórnina og velur í auknum mæli hvaða efni maður kemst í snertingu við.

Verkefnið Ágætis byrjun gengur út á að dreifa Svanspokum til nýbakaðra foreldra. Verkefnið er unnið að norskri fyrirmynd en þar hefur sambærilegt verkefnið verið í gangi síðan 2005. Í pokunum er bæklingur sem fjallar um umhverfismerkið Svaninn og mikilvægi þess að velja umhverfisvottað fyrir ungabörn. Í pokanum eru einnig vöruprufur en tilgangurinn er ekki að kynna einstök vörumerki heldur að varpa ljósi á að Svanurinn hefur vottað breytt úrval af ungbarnavörum og því hafa foreldrar raunverulegt val um vöru sem er betri fyrir umhverfi og heilsu. Hvaða vörur eru í pokanum? Verkefninu er ætlað að ná til alls landsins og er miðað við að öll börn fædd á Íslandi á tímabilinu nóvember 2011 til nóvember 2012 fái pokann.

Sem foreldrar viljum við það allra besta fyrir börnin okkar. Við viljum að þau séu örugg og hamingjusöm og vonum að þau muni lifa góðu lífi. Sjaldan er eins mikilvægt að vanda valið og þegar maður velur vörur fyrir nýfædda krílið sitt. Ungabörn eru mun viðkvæmari fyrir skaðlegum efnum heldur en fullorðnir. Varasöm efni geta leynst í öllum vörum og þess vegna er mikilvægt að vera meðvitaður um áhætturnar og velja skynsamlega.

Þetta snýst ekki um að vera fullkominn….heldur að velja skynsamlega! Nýbakaðir foreldrar finna margir fyrir álagi því þeir vilja gera allt rétt. Sumum fallast jafnvel hendur því þeim finnst erfitt að leggja mat á mismunandi vörur eða efnainnihald. Skilaboð Svansins eru: Ekki missa móðinn, það er hægt að taka upplýsta og skynsamlega ákvörðun þegar kemur að vöruvali. Hægt er að velja Svansvottaðar vörur í stórum og algengum vöruflokkum en með vali sínu eru foreldrar að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og auka heilnæmi í umhverfi barnsins.

Svanurinn auðveldar foreldrum að velja vöru og þjónustu sem standast ströngustu umhverfis-, heilsu– og gæðakröfur. Svanurinn vonar að verkefnið verði til þess að vekja athygli á mikilvægi neytendavals fyrir umhverfi og lýðheilsu.

X