Loading

ÁSTIR SEX ÁRA BARNA …

Ýmislegt er það sem maður hefur áhyggjur af með sex ára krílin sín en að þurfa að velta fyrir sér kærustumálum hans var nú ekki á dagskrá þetta sumarið, það breyttist snögglega. Sex ára pjakkurinn er kurteis og sjarmur fram í fingurgóma, hann heldur hurðum fyrir ókunnuga og kallar á fólk sem er með lítið í körfunni í Bónus og segir þeim að koma fram fyrir okkur, við séum ekkert að flýta okkur. Hann er afspyrnu hress, ör, hvatvís og skilur ekki afhverju tíu ára strákar hafi engan sérstakan áhuga á að leika við hann.

Um daginn er sonurinn var sóttur í skólann sagði hann mér frá því að nú ætti hann kærustu. Ég hló örlítið við enda bjóst ég nú við að þarna lægi ekkert á bakvið.
Síðar sama dag mætti kærastan heim til okkar og bankaði kurteisislega á hurðina á pallinum. Snáðinn fékk leyfi til að skreppa út í 20 mínútur til að hitta kærustuna sína smá fyrir svefntímann. Þau eru mjög góðir vinir sem er að hans sögn nauðsynlegt fyrir kærustupar en ætla þó ekki að giftast.
Tveimur dögum síðar tilkynnir hann mér að nú hafi hún kysst hann og það hafi nú bara verið afar ljúft! Uppúr krafsinu kom að það hefðu verið þrír kossar, einn á sitthvora kinnina og einum smellt á ennið.
Í gærkvöldi kom hún við að leika og fékk að geyma úlpuna sína heima hjá kærastanum meðan þau færu aðeins út að leika!

Já, þetta er ungt og leikur sér en ég er ekki frá því að kvíðahnútur fyrir unglingsárunum sér byrjaður að myndast í maganum, hvað skyldi gerast næst?

– –

Halldóra Anna Hagalín hefur starfað síðastliðin sex ár við ýmislegt tengt tímaritum. Hún hefur ritstýrt fótboltablaði, ferðablaði, sinnt vefmálum og markaðsmálum en starfar í dag sem ritstjóri unglingablaðsins Júlíu, fríblaðsins Heilsunnar og sem vefstjóri Birtíngs útgáfufélags. Henni finnst, að eigin sögn, best að hafa nóg fyrir stafni og kann vel að meta þann fjölbreytileika sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún er þrítug sjálfstæð móðir með tvo hressa drengi sem eru fjögurra ára og á sjöunda ári.

X