Loading

ÁTTA ATRIÐI SEM ALLIR ÞEGJA YFIR

Að eignast barn er það stórkostlegasta, frábærasta og magnaðasta sem nokkur manneskja upplifir og reynir í lífinu. Þó að við upplifum það kannski ekki alltaf þannig þá er ástin sem við berum til barnanna okkar sterkasta afl heimsins… nánast yfirnáttúrulegt.

En… þessi frétt fjallar ekki um það… svona þannig séð heldur um það sem allir virðast þegja samviskusamlega um – þ.e.a.s. hvað gerist í líkamanum eftir fæðingu. Flestir halda að barnið komi út, fari á brjóst, mamman skreppi saman (nema hún borði of marga hraunbita) og allir séu ferlega glaðir.

En sannleikurinn gæti ekki verði fjarri lagi og hér eru átta frægustu leyndarmálin sem alheimurinn virðist þaga yfir.

1. Þú ert á túr í sex vikur eftir fæðingu – eða lengur. Gleymdu hinni notalegu tilhugsun um að þrurfa ekki að fara á túr næsta árið eða svo – a.m.k. meðan þú ert með barnið á brjósti. Eftir fæðinguna hefst úthreinsunin úr leginu og það blæðir… lengi… mikið og það lyktar ekki vel. Sorrí.

2. Hárið dettur af þér. Sakir hormónabreytinga hættir hárið að vera ferlega fallegt og flott og dettur af í hrönnum fljótlega eftir fæðinguna. Margar konur verða hálf sköllóttar og eru lengi að ná fyrri hárfegurð. (Ath. þetta er þó ekki algilt en óvísindaleg könnun sem gerð var sýndi að 80% kvenna upplifa mikið hárlos eftir fæðingu.)

3. Harðlífi er helvíti. Já… margar konur fá skelfilegt harðlífi eftir fæðingu sem orsakast af vökvaskorti í líkamanum og almennu ójafnvægi í búskapnum þar sem verið er að skipa úr óléttugír yfir í brjóstagjafa/mömmugír. Harðlífi er hryllingur en Jóhanna Vilhjálms hvíslaði því einu sinni að mér að besta leiðin væri að taka inn góðar olíur á borð við hörfræolíu. Slíkt mýkti allt innra með okkur og kæmi í veg fyrir of harðar hægðir.

4. Slitin hverfa ekki. Sorrí. Stundum dofna þau með tímanum en slit hverfur aldrei. Það er hins vegar bannað að verða eitthvað blúsaðir yfir því. Mundu bara að þetta er minnisvarði lífsins sem þú skapaðir og þá líður þér betur… og já – keyptu þér sundbol í staðin fyrir bikiní.

5. Það er mál að fá sléttan maga aftur. Áður en lengra er haldið eru til konur – og reyndar fullt af þeim – sem endurheimta fyrri vöxt. Hins vegar er líka heil herdeild af konum sem eiga í mesta basli við að komast í gamla formið og margar hverjar eru með bumbu ansi lengi…

6. Brjóstin verða aldrei eins. Margir halda að það sé brjóstagjöfin sem fari með brjóstin en það er reyndar ekki rétt. Meðgangan stækkar brjóstin oftast nær umtalsvert og því er það meðgangan sem hefur mest að segja um það að stinnleiki brjóstanna tapist.

7. Geirvörturnar eru sjúklega viðkvæmar þegar brjóstagjöfin er að byrja. Já, sjúklega… svo hryllilega reyndar að það getur verið algjört helvíti að setja barnið á brjóstið og oft myndast skelfileg sár. En… það er til lausn og hún er fáránlega einföld. Notaðu litla búta af plastfilmu (úr eldhúsinu) og settu þá yfir geirvörtuna milli gjafa. Það ver geirvörtuna alveg og gerir þetta miklu auðveldara. Gleymdu bara ekki að fjarlægja plastfilmuna áður en þú gefur.

8. Farvel nætursvefn. Já, lítið nýfætt barn þarf að fara oft á brjóstið og það þýðir að mamman þarf að vakna jafnoft. Oftast erum við ferlega hressar og brosum okkur í gegnum þetta en langvarandi svefnleysi hefur afleiðingar. Þú missir minnið, jafnvægið og gleðina – en þó bara tímabundið þar til þú færð að sofa á ný.

Við vonum að þessi listi fái ekki einhverja til að hætta við að fjölga sér en það er staðföst skoðun okkar að betra sé að vita út í hvað þú ert að fara heldur en að standa ein, dauðþreytt eftir fæðinguna og skilja ekkert í því af hverju þú ert á eilífðartúr, getur ekki kúkað og ert að missa hárið. Ég segi bara svona.

X