Loading

ERTU ÞÁ BARA ÓFRJÓ?

Ég fór í viðtal við DV á dögunum þar sem ég tjáði mig meðal annars um baráttu mína við ófrjósemi. Í kjölfarið höfðu margir samband við mig og þökkuðu mér fyrir að segja sögu mína. Þar sem ég trúi því staðfastlega að reynsla okkar geti hjálpað öðrum þá ákvað ég að hripa saman lengri og ítarlegri útgáfu af sögunni minni. Sjálf las ég allt sem að ég komst yfir á þessum tíma og speglaði mig ítrekað í reynslu annarra. Sumt átti við og annað ekki – en í gegnum allt upplifði ég að ég var svo sannarlega ekki ein á báti. Ég skora jafnframt á aðra foreldra í sömu sporum að deila reynslu sinni hér og skapa með því móti góðan reynslubanka fyrir aðra sem eiga eftir að standa í okkar sporum.

– – –
SAGAN MÍN

Ég var nýorðin þrítug þegar ég gifti mig. Tilhugalífið hafði staðið fremur stutt yfir og við vorum bæði sammála um að það væri engin ástæða til að bíða eitthvað með það sem lá ljóst fyrir. Ég var búin að mennta mig, vera í frábæru starfi og stóð hálfpartinn á tímamótum þar sem ég var að hætta í því. Þess vegna var þetta fullkomið. Gifta sig, stofna fjölskyldu og prófa eitthvað algjörlega nýtt – eins og að flytja í Karíbahafið. Skothelt plan.

Eitthvað lét þó barnið á sér standa og eftir heilt ár af tilraunum, með tilheyrandi, talningum, útreikningum á egglosi, hóstasaftsdrykkju, heimsóknir til grasalækna, gúggl og rannsóknarvinnu var bara ekkert að frétta.
Ég fékk mér hund því að einhversstaðar las ég að það væri svo sniðugt fyrir barnlaust fólk að fá sér hund til að slaka á spennunni. Bölvað rugl en hundinn á ég enn. Hundur kemur samt ekki í staðinn fyrir barn.

Ég las allt sem ég komst yfir, var orðin hálfgerður vísindamaður, hefði pottþétt staðist öll helstu próf í frjósemisfræðum – svo vel lesin var ég orðin.
Ekki má heldur gleyma því að kynlífð var ekki lengur kynlíf. Það þjónaði orðið bara einum tilgangi og innst inni held ég að eiginmaðurinn hafi verið farinn að dauðkvíða mánaðarlegum fengitíma frúarinnar.

Verst var þó tímabilið fram að blæðingum. Þá spáði maður í öll líkamleg einkenni og lá á bæn. Óttinn við að byrja á túr var svakalegur og í hvert skipti sem maður byrjaði fylgdi tilheyrandi táraflóð. Svo herti maður upp hugann og hélt ótrauður áfram.
Á meðan kom hver óléttutilkynningin á fætur annarri og auðvitað samgladdist maður. En það var alltaf jafn erfitt að heyra þetta. Verst var það þegar systir mín varð ófrísk og ég búin að reyna í allan þennan tíma án árangurs.

Ég er svo heppin að eiga bestu vinkonu sem var búin að ganga í gegnum ófrjósemispakkann og búin að fara í glasameðferð. Hafandi fylgst með henni í sinni þrautargöngu (sem spannaði nokkur ár) ákvað ég að gera eitthvað í málinu. Ég var orðin þrítug og nennti ekki að sóa meiri tíma.
Ég bókaði tíma hjá ArtMedica og fékk þar tíma nokkrum mánuðum síðar. Ég er kannski óþolinmóð en ég sá ekki hvaða tilgangi það átti að þjóna að bíða lengur. Á Art var gríðarlega vel tekið á móti okkur og við mættum fullkomnum skilningi. Mér leið ekki lengur eins og ég væri vænisjúkur vitleysingur sem kynni ekki að slaka á (því það er rosalega lífsterk míta að þrá eftir barni valdi ófrjósemi).

Það var ákveðið að byrja að kanna málið og fyrst var athugað með eiginmanninn. Það var eiginlega versti tíminn. Ég man að innst inni vonaði ég að það væri frekar ég en hann … veit ekki hvað veldur en svona hugsaði ég.
Hann reyndist í fínu lagi og í kjölfarið var ég send í kviðarholsspeglun. Ég man enn þegar ég vaknaði úr svæfingunni og Þórður læknir sagði mér að ég væri með sjúkdóm sem héti Endómetríósa og hann væri að valda ófrjóseminni. Ég man hvað ég var rosalega fegin að það væri komin skýring. Fyrst ég vissi hvert vandamálið var þá yrði auðveldara að laga það.

Endómetríósa (eða legslímuflakk) er frekar ógeðfelldur sjúkdómur og er í mörgum tilfellum bæði sársaukafullur auk þess að valda ófrjósemi. Sjálf fann ég aldrei fyrir neinum líkamlegum einkennum en margar konur sem þjást af honum eru nánast óvinnufærar en nánar má kynna sér sjúkdóminn á heimasíðu samtakanana endo.is.

Ég man að eftir að í ljós kom hvað var að spurði pabbi minn mig hvort ég væri þá bara ófrjó? Mér svelgdist á kaffibollanum enda hljómaði spurningin eins og hann væri að spyrja mig um veðrið. Ég varð hvumsa yfir spurningunni og hugsaði þetta í smá stund. Nei, ég var ekki ófrjó – það var bara hindrun á veginum.

Það var ákveðið að bíða aðeins fyrst að búið var að hreinsa út úr kviðarholinu en nokkrum mánuðum síðar, þegar ekkert hafði gerst var ákveðið að drífa sig í glasameðferð. Þar sem eiginmaðurinn var búsettur erlendis fór ég ein í gegnum „allan pakkann.” Ég tileinkaði mér viðhorf vinkonu minnar sem hafði áður gert þetta og með það viðhorf í farteskinu lagði ég af stað í þetta ferðalag.

Bara svo það sé á hreinu þá þjáist ég af alvarlegri nálafælni – sem þýðir að ég hata sprautur – svo mikið reyndar að það líður oftast yfir mig þegar tekið er úr mér blóð. Tilhugsunin um að þurfa að sprauta mig daglega var allt annað en uppörvandi en maður lætur slíkt ekki stöðva sig. Fyrsta morgunin þurfti ég að vera mætt til tannlæknis snemma og hafði því takmarkaðan tíma fyrir sprautuvesenið. Ég var búin að græja sprautuna og kleip samviskusamlega í magaspikið og mundaði nálina. Hjartslátturinn varð hraðari eftir því sem tíminn leið og ég fann kunnuglega flökurtilfinningu innra með mér. Kaldur sviti spratt úr á enninu og ég vissi að ég var að brenna á tíma. Það var að duga eða drepast og sönglandi það í huganum lét ég vaða og rak nálina á bólakaf í mjúkt fitulagið og sprautaði lyfinu inn. Á eftir leið mér eins og ég hefði unnið Reykjavíkurmaraþonið og mér fannst ég óstöðvandi. Næstu sprautur á eftir voru mun auðveldari og smám saman varð ég sjúklega flink og fann aðferð sem hentaði mér svo vel að ég get bókstaflega fullyrt að þetta sé ekkert mál! Meira að segja fyrir fólk sem þjáist af sprautufælni.

Sprautuferlið tekur nokkrar vikur meðan verið er að bæla allt kerfið. Þú ferð reglulega í skoðun og svo, þegar búið er að slökkva á þínu náttúrulega kerfi, þá hefst örvunin og það er fjör. Þá sprautarðu þig tvisvar á dag og mætir vikulega í skoðun (að mig minnir).

Loks er svo komið að stóru stundinni og það er þegar þú færð Miðnætursprautuna í hendurnar. Miðnætursprautan er þrungin svo mikilli merkingu að það er erfitt að færa það í orð. Hún táknar að loksins loksins er komið að ögurstundu og það sé eins gott að ekkert klikki. Þetta er gríðarlega magnað ferli því Miðnætursprautunni verður að vera sprautað á nákvæmlega réttum tíma því hún framkallar egglos. Það þýðir að ef þú átt tíma í eggheimtu klukkan ellefu daginn eftir þá þarftu að sprauta þig NÁKVÆMLEGA svona mörgum tímum áður. Ekkert má klikka og fyrir konu sem er búin að sprauta sig daglega í nokkrar vikur og eygir loksins möguleikann á því að verða ófrísk er þetta eins og að handleika atómsprengju.

Til að gera þetta enn magnþrungnara færðu símtal frá Art þar sem þér er gefinn upp tíminn sem þú átt að sprauta þig. Þá fyrst leið mér eins og leynilegum útsendara – dularfullri týpu sem mögulega væri með framtíð mannkyns í höndunum – allavega mína eigin framtíð eins og ég upplifði það.

Eggheimtan var daginn eftir og gekk vel. Fyrir manneskju sem þjáist af alvarlegri nálarfælni er frekar fríkuð tilfinning að láta stinga 20 sentimetra nál inn í sig og á bólakaf inn í eggjastokkana. En nú færi ég í stílinn og þetta er ekki svona mikið mál. Kæruleysislyfin virkuðu vel og svo fær maður að fylgjast með á sjónvarpskjá hvernig heimtur ganga. Ég var svo hress að ég var farin að lýsa þessu eins og íþróttaviðburði enda gamalreyndur starfsmaður íþróttadeildar RÚV og því öllu vön. Í bland við íþróttalýsingarnar reitti ég af mér brandarana og guð má vita hvað. Kæruleysislyfin virkuðu sem sagt vel á mig!

Ég man satt best að segja ekki hvað það náðust mörg egg – held að þau hafi verið átta. Þá tekur við næsta skref og það er biðin eftir SÍMTALINU. Þá færðu að vita hversu mörg frjógvuðust og hver gæði fósturvísanna eru. (Nú má einhver hjálpa mér því ég man þetta ekki alveg… )

Ég fékk að mig minnir fimm nothæfa fósturvísa og daginn eftir var hin svokallaða uppsetning en það er þegar fósturvísi er komið fyrir í leginu. Angistarfull horfði ég á hjúkrunarfræðingana og læknana handleika glært glas og sprautu sem að innihélt fósturvísinn minn. Ég var logandi hrædd um að þau mynd missa hann í gólfið, setja á vitlausan stað í legið eða eitthvað annað myndi klikka. Í huga mér voru möguleikarnir óteljandi og ég þurfti að róa mig niður til að halda sönsum.

Vinkona mín keyrði mig heim og ég man að ég hugsaði með mér að hún þyrfti að keyra varlega. Ég væri með fósturvísi inn í mér. Á einhverjum tímapunkti keyrði hún frekar harkalega yfir hraðahindrun og ég hvæsti á hana að hún skyldi fara varlega. Elsku vængmaðurinn minn hló bara og sagði að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa. Legið á mér væri ekki tómarúm að innan þar sem fósturvísirinn héldi dauðahaldi og gæti dottið við minnsta hnjask. En þannig leið mér samt.

Heima var ég búin að búa mig undir rúmlegu! Ég var með urmul af sjónvarpsefni tilbúið á lager og helst ætlaði ég að hanga á hvolfi. Ekkert varð þó úr þeim plönum þar sem ég sættist fljótlega á þá skoðun að börn yrðu til daglega út um allan heim án þess að móðirin þyrfti að liggja neitt sérstaklega fyrir. Í mínu tilfelli var ekkert að leginu eða fósturvísunum og því fannst mér þetta ásættanlegt.

Tvær vikur liðu og ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að taka próf. Ég fann stundum fyrir túrverkjum og var viss um að þetta væru bara eftirmálar hormónameðferðarinnar og var í huganum farin að undirbúa mig undir að endurtaka leikinn. Ég fór reglulega yfir tölfræðina í huganum og var búin að semja við sjálfa mig um þrjú skipti… samt hljómar það fáránlega en ég hef einhvernvegin alltaf verið þannig að vonbrigðin eru minni ef maður er með b-plan. Ekki beint samkvæmt The Secret en dregur úr áfallinu ef að útkoman er ekki eins og maður reiknaði með.

Dagurinn rann upp… fjórtán dögum eftir uppsetninguna (frekar en eggheimtuna) og það var komið að blóðprufunni. Á þessum tímapunkti eru flestar konur búnar að taka þungunarpróf en ég bara gat það ekki. Veit ekki af hverju og hef svo sem ekkert greint þá tilfinningu neitt en ég bara vildi ekki gera þetta sjálf.

Blóðprufan gekk vel og svo kom biðin eftir símtalinu. Ég fór til vinkonu minnar sem ætlaði að vera með mér þegar símtalið kæmi. Sagt var niðurstöðurnar yrðu hringdar út milli 14 og 16 og auðvitað var ég búin að greina það í tætlur. Mér fannst sem sagt líklegt að jákvæðu niðurstöðurnar yrðu hringdar út fyrst þar sem hjúkrunarfræðingarnir þyrftu smá jákvætt til að undirbúa sig fyrir erfiðu símtölin sem eru þau neikvæðu. Að þurfa að segja konu sem er kannski að ganga í gegnum sína sjöttu meðferð að svarið sé neikvætt hlýtur að taka á.

Við vinkonurnar fórum í bíltúr til að drepa tímann og ég hélt dauðahaldi í símann. Klukkan 14.15 hringdi hann og við litum á hvor aðra og ég svaraði skjálfandi röddu.
„Sæl Þóra,” sagði hjúkrunarfræðingurinn við mig. „Þú veist væntanlega niðurstöðuna er það ekki?”
„Ehh…. neiiii,” svaraði ég hikandi og þorði ekki að draga að mér andann.
„Nú, jæja – það er jákvætt. Hjartanlega til hamingju… “ sagði hún og ég fraus.

Ég sleit símtalinu skömmu síðar og leit á vinkonu mína. Það var augnablik sem ég gleymi aldrei. Við horfðumst í augu og skyndilega brustum við báðar í grát. Þetta hafði tekist. Ég var orðin ófrísk.

Níu mánuðum seinna fæddist okkur hjónum heilbrigður drengur. Hann fæddist á öðrum brúðkaupsafmælisdegi okkar hjóna – fullkomin gjöf sem að fullkomnaði fjölskylduna okkar.

Starfsfólki Art Medica vil ég þakka fyrir framúrskarandi þjónustu – TAKK!

– –
Vilt þú deila þinni reynslu? Sendu okkur póst á thora@foreldrahandbokin.is

X