Loading

BARNFÓSTRA UM BORÐ

Margir foreldrar fá kvíðahnút í magann við tilhugsunina um að fara með barnið í flugvél. Af hverju? Ímyndaðu þér að vera fastur inn í litlu rými, yfirfullu af fóki, ekkert pláss og barnið er allt annað en ánægt með lífið. Vissulega eru mörg börn til fyrirmyndar á ferðalögum en öll getum við átt slæman dag og ef hann á sér stað um borð í flugvél er fjandinn laus.

En… lausnin virðist vera í sjónmáli (eða því sem næst) því Julie nokkur Melnick fékk þá snilldarhugmynd að koma á fót vefsíðu þar sem fjölskyldur á ferðalögum geta fundið sér fóstrur á ferðalagi fyrir lága þóknun. Vefsíðan heitir Nanny In The Cloud og það er aldrei að vita nema hún slái í gegn.

Hljómar þetta flókið? Sennilega af því að þetta er nokkuð langsótt en hugmyndin er góð engu að síður – fyrir foreldrana.

Hugmyndin gengur út á að foreldrar á leið í ferðalag geta farið inn á heimasíðuna og skráð flugin sín niður. Þá kemur í ljós hvort að barnfóstra hefur skráð sig í það flug og ef svo heppilega skyldi vilja til þá geta foreldrarnir samið um pössun við hana. Enn sem komið er hefur engin samingur verið gerður.

Spurningin er hins vegar af hverju dagfarsprúð barnfóstra ætti að leggja sig fram við að finna börn til að passa um borð í flugvélum? Er hún ekki á leið í frí?

Okkur hér finnst miklu frekar að flugfélögin eigi að bjóða upp á sér barnaherbergi um borð… bólstrað svæði með dóti, starfsmanni og eintómum skemmtilegheitum. Væri það ekki notalegt…

X