Loading

BARNIÐ BYRJAR AÐ BORÐA

Pistill eftir Ingibjörgu Baldursdóttur, hjúkrunarfræðing og IBCLC brjóstagjafaráðgjafa.

Barnið byrjar að borða

Foreldra og aðra aðstandendur er oft farið að hlakka óskaplega til að gefa litla barninu eitthvað að borða. Þetta er alveg skiljanlegt þar sem það er svo félagslegur þáttur í allri okkar tilveru að borða saman. Barn er stundum farið að sitja til borðs með fjölskyldunni í sínum stól og mænir á eftir hverjum bita. Þetta er hluti af þroska og það að taka eftir því sem aðrir gera verður hluti af því að læra það sama og verða smámsaman þátttakandi í máltíðum fjölskyldunnar.
Þegar barnið fer að nálgast hálfa árið þá fer það einmitt að sýna þessi merki um að hafa áhuga á mat og vera tilbúið til að prófa fyrstu fæðuna. Alþjóða heilbrigðisstofnunin mælir með brjóstamjólk sem einu fæðu barnsins fyrstu sex mánuði ævinnar svo fremi sem barnið sé að fá næga mjólk til að vaxa og dafna. Þetta er ekki regla heldur viðmið sem byggist á rannsóknum sem sýnt hafa fram á að næringin nægir börnum þennan tíma en eftir það eru meðfæddar járnbirgðir ekki nægilegar og barnið þarfnast auka járns úr annarri fæðu. Næringin í brjóstamjólkinni heldur þó áfram að vera jafngóð og allir þeir þættir sem voru verndandi gegn sjúkdómum sem og ónæmisþættir halda áfram að vernda barnið. Reyndar er ekki heldur þar með sagt að öll börn sem nærast eingöngu á brjóstamjólk hafi nægar járnbirgðir í fulla sex mánuði, það er alltaf verið að rannsaka þessa þætti og ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda miða við nýjustu rannsóknir. En mörg börn eru líka farin að fá aðra mjólk til viðbótar eða hætt á brjósti fyrir þennan aldur og geta ýmsar ástæður legið þar að baki. Það gildir þó nokkur veginn það sama um það hvenær barn sem er að hluta eða ekki á brjósti, er tilbúið að fara að borða fasta fæðu. Þegar börn eru farin að sitja upprétt með stuðningi í barnastól, eru farin að vera þátttakendur í máltíðum og geta sjálf tekið upp tilbúna fæðu sem sett er fyrir framan þau og sett upp í sig án þess að hún komi út aftur: Þá er barnið tilbúið!

Þetta gerist oftast á bilinu 5-6 mánaða. Barn sem nærist eingöngu á brjósti drekkur þegar það er svangt, stundum mikið og stundum lítið, misoft á sólarhring. Barnið stjórnar því alveg sjálft. Þess vegna er brjóstagjöf góður undirbúningur undir að barnið fari að borða sjálft, á sínum hraða, í því magni sem það ræður við hverju sinni. Þegar barn drekkur brjóst, ræður það magninu, það er ómögulegt að þvinga það í að drekka meira en það vill. Eins er það þegar barnið fær að ráða ferðinni með að matast sjálft, þá hættir það þegar það er búið að fá nóg. Þessi aðferð að láta barnið matast sjálft hentar þó alveg eins börnum sem hafa að hluta verið á brjósti eða eingöngu á annarri mjólk áður en þau fara að borða.

En hvað er verið að tala um að barnið matist sjálft? Við erum vön því að þegar barn fer að borða þá gefum við því fyrst hrísmjölsgraut og svo grænmetis og ávaxtamauk. Þetta var áður sagt að væri besta aðferðin þar sem grauturinn væri auðmeltanlegur og maukinu væri svo auðvelt að kyngja. Kostirnir eru kannski að þetta er hreinlegri aðferð, foreldrið ræður alveg ferðinni hvað varðar magn og hvað fer ofan í barnið. Það þarf ekki endilega að vera kostur og eiginlega er það galli því að oft erum við búin að ákveða visst magn og leggjum upp úr að klára úr skálinni þó að barnið sé kannski búið að fá nóg. Það er hætta á að skapist streita í samskiptunum þegar barnið er ekki sammála foreldrunum um hvort það vill matinn en auðvitað höfum við áhyggjur af því að barnið fái nóg. En hugsið bara að þegar þau eru á brjósti þá stjórna þau sjálf magninu, stundum bara stuttir sopar og stundum langar gjafir. Flestir nota þessa grautar og maukmötun en mig langar að segja ykkur aðeins frá hinni aðferðinni.

Hugmyndin með því að láta barnið matast sjálft er að mauka ekki ofan í barnið og mata það heldur leyfa barninu sjálfu að handleika fæðuna og setja hana upp í sig. Þetta á sér erlenda fyrirmynd en Gill Rapley fann út að með því að leyfa barninu að ráða ferðinni (baby led weaning) þá urðu matmálstímarnir skemmtilegir og áreynslulausir. Með þessu stjórnar barnið frá upphafi hversu mikið það borðar, verður nýjungagjarnara á bragð og áferð og borðar fljótlega sama fjölskyldumat og aðrir. Þegar barnið tyggur fæðuna losnar munnvatn sem hvetur til meltingar en það gerist síður þegar þau kyngja mauki. Þjálfun kjálkanna við að tyggja er líka mikilvæg en við að borða graut og mauk reynir lítið á kjálkavöðvana. Einnig reynir þetta á hreyfiþroska bæði grófhreyfingar og ekki síður fínhreyfingar.

Hér eru nokkrir punktar til að byrja með:

  • Hugsaðu um matartímana sem leik í upphafi. Tilgangurinn með þeim er að barnið læri og prófi sig áfram – ekki endilega að það borði ! Mundu að barnið er að fá alla næringuna sína áfram úr mjólkinni.
  • Best að halda áfram að láta barnið drekka hvenær sem það vill og eins mikið og það vill, þannig bætist fæðan frekar við brjóstamjólkina/aðra mjólkurgjöf heldur en að koma í staðinn fyrir hana. Barnið mun sjálft sjá um að minnka mjólkurmagnið smám saman.
  • Ekki búast við að barnið borði mikið í fyrstu, Mörg börn borða mjög lítið magn fyrstu vikurnar. Næringuna fá þau áfram úr mjólkinni.
  • Fjölskyldumáltíðir eru stór þáttur í þessari aðferð: reyndu að borða á sama tíma og barnið þitt þegar hægt er. Þannig lærir barnið líka að herma eftir og bera sig eins að eins og hinir og svo verða matmálstímarnir miklu skemmtilegri!
  • Reiknaðu með að matartímarnir verði skrautlegir og subbist út um allt, mundu að barnið er að læra en ekki að reyna að leggja aukavinnu á þig við að þrífa! Best að slaka bara á og hafa smá húmor fyrir þessu.
  • Leggið áherslu á að hafa matartímana skemmtilega og streitulausa – fyrir ykkur öll. Þannig lærir barnið að það er gaman að matast og verður spennt fyrir nýjum fæðutegundum og hlakkar til matartímans!
  • Börn sem fá að matast sjálf, hlakka oft til þess að borða, þeim finnst almennt gaman að læra inn á mismundandi matartegundir, lit, áferð og bragð og finnst skemmtilegt að fá að prófa sig áfram.
  • Þau eru virkir þátttakendur í matmálstímum og stjórna sjálf hvað þau borða, hversu mikið og hversu hratt. Þetta gerir matartímana ánægjulega en ef að börn eru hlutlausir þiggjendur sem eru alltaf mötuð af öðrum, er hættara við að skapist þreyta og streita í matartímanum milli barns og foreldris.
  • Matartímarnir verða oftast ánægjulegri fyrir foreldrana líka þar sem þau geta fylgst með barninu sínu njóta matarins á sínum forsendum, án þess að þurfa að vera að hafa áhyggjur af að „fá barnið til að borða.”

Ef nefna má ókost á þessari aðferð er það einmitt að matartímarnir eru mjög skrautlegir og subbulegir en með þolinmæði og húmor má alveg líta á björtu hliðarnar á því sem öðru. Óneitanlega kostur að hafa hund á heimilinu ef þessi aðferð er notuð.
Nánari upplýsingar um þetta má sjá á facebook síðunni: barnið byrjar að borða og nú eru að hefjast námskeið hjá www.bjorkin.is sem byggjast á þessari aðferð en eru líka mjög gagnleg almennt fyrir foreldra sem eru að stíga fyrstu skrefin í því að gefa barninu sínu að borða.

Ingibjörg Baldursdóttir er hjúkrunarfræðingur og IBCLC brjóstagjafaráðgjafi.
Hún vinnur sjálfstætt með ráðgjöf og námskeið um brjóstagjöf og umönnun ungbarna. Jafnframt því er hún að ljúka meistaranámi í hjúkrun í HÍ með áherslu á sérhæfingu í brjóstagjöf. Ingibjörg heldur jafnframt út Facebook síðunni Brjóstagjöf – meira en bara næring þar sem hægt er að fá ráðgjöf frá Ingibjörgu um allt er viðkemur brjóstagjöf og umönnun ungbarna.

X