Loading

BARNIÐ SEM VILDI EKKI BORÐA

Þegar ég eignaðist þriðja barnið mitt, yndislegan strák, hafði ég ekki hugmynd um að hann yrði barnið sem hafði bara engan áhuga á mat.
Brjóstagjöfin gekk illa, hann drakk jú ágætlega en hann var aldrei sáttur. Svaf illa, grét mikið og var pirraður á brjósti. Eftir rúma fjóra mánuði þar sem mér fannst ég ekki gera neitt nema sitja á sama stað í sófanum að gefa barni brjóst og nætur sem voru þannig að öll nóttin fór í það að skipta á milli hægra og vinstra brjósts þá gat ég ekki meira og gafst upp.
Ég sannfærði sjálfa mig um það að þurrmjólk væri lausnin, þá myndi hann sofa betur, líða betur og vera kátari…

Heldur betur ekki! Hann var ekkert áhugasamari um pelann, drakk yfirleitt ekki það sem hann átti að gera samkvæmt „bókinni” og kvíðinn hjá mér jókst. Hvað gat verið að?
Ég reyndar fann ró í því að pabbinn gat hjálpað til með gjafirnar og ég fékk því meiri tíma til að reyna að leggja mig eftir erfiðar nætur og daga.

Við sex mánaða aldur reyndi ég að byrja að gefa honum að borða. Mér fannst hann ekki drekka nóg eða allavega ekki eins og bókin sagði og kvíðinn jókst alltaf og jókst. Hann hafði engan áhuga á mat, flest skiptin sem ég reyndi þá grét hann. Það var ekki fyrr en við átta mánaða aldur sem hann fór að hafa smá áhuga en hann var ákveðinn hvað hann vildi og hvað ekki.

Stelpurnar mínar höfðu alltaf verið eins og svangir fuglsungar; maður gat ekki skóflað nógu hratt uppí þær. Þessi ungi herramaður ætlaði ekki að vera eins, það hlaut að vera eitthvað að, er það ekki?
Reyndar kom síðan í ljós að hann átti erfitt með hægðirnar og það var ákveðið að taka út mjólk og ég beið spennt eftir því að hann tæki nú rækilega til matar síns og sýndi þessu einhvern áhuga, en nei hann var ekkert spenntur fyrir þessu.

Ástæðan fyrir því að ég segi ykkur þessa sögu er að mömmur verða oft mjög kvíðnar yfir því ef að barnið fylgir ekki „bókinni”. Ég leitaði á netinu og las, prófaði hitt og þetta. T.d þegar hann var 2 ára þá las ég að ef þau borða ekki það sem er á boðstólnum að þá eigi bara að láta þau svöng að sofa. Ég ákvað að fylgja því ekki eftir, eða jú ég lýg.
Eitt skipti við tveggja og hálfs árs aldurinn ákvað ég að núna myndi hann borða matinn eða fara svangur að sofa. Hann fór svangur að sofa, ég fór að sofa með samviskubit.

Unginn minn hefur alltaf haldið sinni kúrfu í þyngd, meira segja þegar að hann var lítill var hann frekar pattaralegur þótt að hann borðaði ekki neitt. Samt var ég kvíðin að eitthvað væri bara að hjá honum, það hafði ég lesið og heyrt. Ef það væri ekki eitthvað að líkamlega þá væri hann bara svona svakaleg frekja sem ég yrði að taka á.

Ég hinsvegar ákvað að sætta mig við hann eins og hann er, hann smakkar það sem hann vill smakka en annars fær hann sér jógúrt og ávexti í kvöldmat. Ég er þver við hann þegar eitthvað er á boðstólnum sem ég veit að hann borðar og þá verður hann að borða jafn marga bita og hann er gamall (þrjá bita) en síðan sleppi ég þessu bara.
Engin græðir á stressi við matarborðið, þar sem engin gat notið matarins og þar sem allur tíminn fór í að semja, áminna, skamma, suða, múta. Stelpurnar mínar fengu enga fjölskyldustund við matarborðið og við foreldrarnir urðum meira og meira stressuð yfir þessu „ástandi” á barninu.
Amma og Mamma sögðu báðar einhvern tímann „Börnin vita sitt magamál” og vitið þið hvað? Það er satt.

p.s Ég veit að auðvitað eru til börn sem ekki fylgja sinni kúrfu í þyngd og þessi ráð eiga ekki við í þeim tilfellum eða þar sem læknir hefur ráðlagt annað.

– – –
Sandra Guðlaugsdóttir er 32 ára mamma þriggja yndislegra barna á aldrinum 14, 6 og 4 ára. Hún er búsett í Svíþjóð með sínum heittelskaða. Sandra er jafnframt nýútskrifuð sem sjúkraliði og er núna að klára stúdentsprófið og stefnir ótrauð á hjúkkunám.

X