Loading

BEIÐNI UM MJÓLKURGJÖF

Nýlega barst hjálpabeiðni til Fésbókarsíðunnar Mjólkurgjöf – Human milk for human babies. Hún hljóðaði eitthvað á þá leið að þörf væri á að hjálpa litlum dreng sem fæddist fyrir tímann. Móðir hans gat ekki mjólkað nóg, eins og algengt er þegar börn fæðast langt fyrir settan dag. Álagið er mikið sem fylgir því að eignast veikan fyrirbura og eiga líka að koma af stað mjólkurframleiðslu.

Hjálpin fólst í því að biðja mæður sem eru með börn á brjósti að gefa móðurmjólk til litla drengsins sem þurfti á henni að halda. Viðbrögðin létu ekki á sér standa! Í anda jólanna og kærleikans í því að geta gefið öðrum eitthvað sem maður er aflögufær með, hrúguðust inn póstar og símaskilaboð og símtöl til stjórnanda síðunnar! Hún sá um að koma þeim áfram til móðurinnar og það er svo hennar val hvað hún gerir með það. Þetta sýnir okkur þá samstöðu sem getur skapast i okkar litla samfélagi ef einhver er hjálpar þurfi.

Það dýrmætasta sem við getum gert er einmitt að gefa af sjálfum okkur og það sýndu íslenskar mæður með þessu. Við erum svo oft reiðubúin að gefa í hjálparstarf erlendis og það er gott, þörfin er mikil. Stundum er samt hægt að líta sér nær, kannski er einhver í okkar nánasta umhverfi sem getur vel þegið hjálp okkar og þá getum við líka verið glöð í hjarta okkar að hafa lagt eitthvað örlítið af mörkum til að gleðja aðra.

Mjólkurgjöf er Íslandsdeild alþjóðasamtakanna “Human milk for human babies” (skammstafað HM4HB). Hér er um að ræða tengslanet á veraldarvefnum, sem skiptist í svæðisdeildir, þar sem gefst möguleiki á að annarsvegar bjóða fram brjóstamjólk og að nálgast móðurmjólk fyrir börn sem þurfa á henni að halda. Ástæðurnar geta verið margvíslegar eins og að móðirin geti ekki mjólkað barni sínu nóg.

Facebook síðu Mjólkurgjafar er hægt að nálgast HÉR. https://www.facebook.com/hm4hbIceland

Skrifað af Ingibjörgu Baldursdóttur, brjóstagjafaráðgjafa og pistlahöfundi.

Móðir litla drengsins vildi koma til skila að henni þætti þetta ótrúlegt og hefði engan veginn búist við þessum viðbrögðum og fannst ótrúlegur þessi samhugur hjá mæðrunum. Læknarnir töldu ekki ráðlegt að gefa honum annað en sérstaka þyngingarblöndu að svo stöddu en nú liði drengnum betur og þetta væri allt í rétta átt hjá honum. Móðirin vonast þó til að geta notað mjólkina síðar og vill koma á framfæri kæru þakklæti til allra þeirra sem hjálpuðu til.

Ath. ljósmyndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti – fyrir utan að vera mynd af litlum fyrirbura.

X