Loading

Birti mynd til að vekja athygli á brjóstabólgu

Bólga, sýking eða stífla í brjósti er eitthvað sem ansi margar mjólkandi mæður hafa kynnst og getað vottað að er skelfilega hvimleiður fjandi svo að ekki sé sterkar til orða tekið. Við vitum líka að við lifum á tímum þar sem verið er að draga allt fram í dagsljósið svo að fáfræði og þekkingarleysi fái ekki þrifist.

Lindsey Bliss birti mynd af sér á dögunum þar sem hún liggur í eymd sinni og gefur barni sínu brjóst þrátt fyrir að á hana herji sýking. Vill hún með þessum hætti vekja athygli á því hversu sársaukafullt það er að fá bólgur, sýkingar eða stíflur í brjóstin og að það geti komið fyrir allar konur – jafnt reyndar sem óreyndar.

Sjálf er Bliss fimm barna móðir og starfar sem doula. Hún segir að sýkingin hjá sér hafi verið orðin það slæm að hún hafi íhugað af fúlustu alvöru að fara á bráðamóttökuna. Flensulík einkenni eru merki um sýkingu og besta leiðin er að taka sýklalyf.
Nánar má lesa um leiðbeiningar um góða brjóstahirðu og vandamál sem upp geta komið.

X