Loading

BLESSUÐ BÖRNIN…

Þessa dagana rigna yfir mig vinkonubörnum. Engar fréttir eru i heiminum betri en þær að heyra um nýtt líf sem hefur fæðst í heiminn. Allt verður fallegt og gott. Toppa meira að segja fréttirnar um lítið ljós sem á leiðinni í heiminn. Eins og þær eru nú alltaf ljúfar líka. Og náskyldar.
Ég er moldrík af vinkonum. Og þakklát fyrir þær alla daga. Ég get alltaf leitað til þeirra og þær til mín. Fallegar að innan sem utan. Allar sem ein.
Ég þekki hins vegar enga sem hefur orðið ófrísk, óvart. Mér finnst það svolítið merkilegt, þegar ég hugsa um það. Mér finnst orðið ófrjósemi vera farið að færast í aukana og það hræðir mig meira en allt. Að hugsa sér hvað margir þurfa að ganga í gengum miklar raunir til þess eins að fá að eignast afkvæmi. Og er það ekki draumur allra, þegar á heildina er litið. Það er í það minnsta mín skoðun, að til þess séum við á vafri um þessa jörð. Börn eru lífið og ástæða þess að ég lifi er fyrir Leu Íseyju. Mjög einfalt og ég þarf ekkert að kunna stærfræði til þess að skilja það. Það er í eðli mínu. Óáháð umhverfi eða menningu.
Mér finnst það ógnvekjandi staða kærustupara samtímans að barneignir séu í raun svona erfiðar. Upp til hópa eiga pör í vandræðum og þurfa leita sér aðstoðar. Það kom mér vissulega á óvart og heimur sem ég hreinlega þekkti ekki áður en við fórum sjálf að fikra okkur á foreldrabrautinni. Vandamálin eru næstum allstaðar, á einn eða annan hátt og engin er óhulltur. Erum við að drekka ófrjósemina með kranavatninu okkar svei mér þá því ekki áttu forfeður okkar í þessum vandræðum. Við værum sennilega útdauð ef vandamálin nú væru þau sömu í þá daga og engar læknaþjónustur til staðar. Því gvuð blessi tækni og glasameðferðarheimilin. Þar gerast kraftaverkin og næstum allir geta fengið óskir sínar uppfylltar, þó veskin þeirra séu tóm og oft ótal misheppnaðar meðferðir að baki með brostnum hjörtum og vonleysisröddum. Ég þekki svo mörg dæmi um slíkt, en sem betur fer hafa þau öll farið vel og foreldrarnir þakklátari fyrir vikið. Kunna að meta börnin sín og lífið meira en sveitaballakynslóðin sem þurfti ekki nema korter undir hlöðuloftinu. Að hugsa sér að það sé hægt. En auðvitað tala dæmin sínu máli og ekkert allir sem þurfa að liggja með fæturnar upp í loft á réttum dögum í mánuði. Stunda vélmennakynlíf og reikna út fengi daga sína eins og búfjárræktendur í gróðavon.
Ég þekki bæði stelpur og stráka sem geta ekki átt börn. Líffræðilega. Þó vonin sé til staðar og þráin eftir erfingja. Í báðum tilfellum hefur nútímatækni komið til hjálpar og eru þetta í dag blessunarlega dásamlegir foreldrar yndislegra barna. Slík mál vekja mann þó alltaf um umhugsunar, siðferðislega um rétt þeirra barnanna sem eiga í hlut. Rétt eins og ættleiðingar gjarnan gera. Hvort eða hvenær á að segja frá .. barninu og hinum í kring. Hvaða rétt hefur barnið til að finna erfðafræðilegt foreldri sitt. Ég er engin sérfræðingur og veit svo sannarlega ekki hvert mitt svar væri í þessum sporum. En eitt er víst að mikið vildi ég frekar eiga ósýnilegt foreldri sem ég gæti aldrei rakið ættir til, en þess að vita til vanhæfs einstaklings þarna úti sem er sjálfri mér og öðrum til ósóma.
Þessi óskabörn eru rík því ekki aðeins eru þau draumabörn foreldra sinna. Þeim sem virkilega langaði til að eignast þau, og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að láta drauminn rætast. Og þá skiptir engu máli hver það var sem rúnkaði sér í bolla. Raunverulegir foreldrar eru þeir sem eru til staðar fyrir börnin sín, kyssa þau á kollinn á kvöldin og skipta um bleyjur með heimsins mestu ánægju, leika með þeim af eigin frumkvæði, njóta stundarinnar alltaf. Fá gæsahúð af lyktinni þeirra og sturlast úr monti yfir hverju skrefi. Að heyra fyrstu skæru og fallegu orð elsku barnsins með sinni sakleysislegu röddu. Sjá það taka fyrstu skrefin, eins og gíraffi sem reynir að mynda jafnvægi .. lítil mörgæs með stóra bleyjurassinn sinn og dúnhárið í allar áttir. Hve dásamlegt. Að miðla visku og sjá hvernig lærdómurinn kemst til skila, barnið hermir og greipar í sig alla þekkingu sem það mögulega getur fest hendur á. Allt er merkilegt, og prófessoragleraugun eru alltaf á lofti. Fyrsta danssporið, við sátum stjörf. Hvernig gátum við búið til svona fallegt og fullkomið barn. Faðmlag, svo innilegt að ekkert annað skiptir máli. Einlægir slefkossar og blautir bleyjurassar í morgunsárið. Hlátrasköll, svo innileg að heimurinn stöðvast. Mikið er gott að fá að vera foreldri. Ég get aldrei beðið um meira.
Elsku vinkonur, ég samgleðst ykkur til tunglsins. Þið eigið besta tíma lífs ykkar í vændum. Börn eru lífið. Amen.

Íris Hauksdóttir

– – –
Ég heiti Íris Hauksdóttir og er 28 ára háskólanemi á loka árinu í mannfræði. En auk þess drattast ég með meistaragráðu í bókmenntafræði. Ég hef mikla ást á leikhúsi og flokka mig sjálfa sem fagurkera fram í fingurgóma. Hef unun af bakstri og eldamennsku sem og lestri góðra bóka. Ofar öllu öðru er ég móðir dásamlegrar næstum tveggja ára stelpurófu.

X