Loading

Bókabingó fyrir bókaþjóð

Bókabingó fyrir bókaþjóð!

Landsleikurinn Allir lesa er nú í fullum gangi og hafa tæplega 2.000 Íslendingar lesið í samtals 850 daga á þeim tveimur vikum sem af eru keppni!

Í ár er blaðalestur í fyrsta sinn leyfður í keppninni þar sem margir verja miklum tíma í lestur blaða og tímarita! Forseti landsins komst nýlega í fréttirnar þegar hann skráði danskt Andrésarblað á vefinn, en forsetinn keppir til sigurs með fjölskyldu sinni. Í kjölfarið tóku skráningar á Andrésarblöðum stóran kipp inn á vefnum og ljóst að forsetinn er mikil lestrarfyrirmynd fyrir almenning í landinu.

Til að gera seinni hluta landsleiksins enn skemmtilegri hafa aðstandendur Allir lesa útbúið sérstakt bókabingó sem fólk getur prentað út og merkt við. Þeir sem deila frumlegum lestrarmyndum með myllumerkinu #allirlesa eiga möguleika á verðlaunum í lok landsleiksins.

Nóg er eftir af Allir lesa og tilvalið að skrá sig á allirlesa.is og nýta vel næstu daga, enda til mikils að vinna. Aðstandendur Allir lesa eru Reykjavík, bókmenntaborg Unesco og Miðstöð íslenskra bókmennta með stuðningi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Heimili og skóla.

Hér er hægt að nálgast Bókabingómyndina.

X