Loading

BOLLUDAGSMARTRÖÐIN

Ef ég ætti að velja minn uppáhaldsdag á árinu þá held ég að það væri án efa Bolludagur! Mér finnst hann betri en afmælið mitt og aðeins betri en jólin… ekki það að mér finnist framangreindar hátíðir eitthvða leiðinlegar – alls ekki – heldur finnst mér Bolludagur bara svo frábær. Ég ELSKA vatnsdeigsbollur með bræddu suðursúkkulaði og alvöru rjóma. Enga sultu fyrir mig takk og ég fyrirlít allar tilraunir til frumlegheita. Til hvers að eyðileggja eitthvað sem er fullkomið!

Fyrir þremur árum síðan hélt ég bolludaginn hátíðlegan fjarri heimahögum. Það í sjálfu sér hefði ekki átt að vera vandamál því ég hafði aðgang að bæði súkkulaði og rjóma og því var lítið annað að gera en að baka bollurnar. Ég gúgglaði mig í gegnum fjölda uppskrifta og hófst handa. Fyrsta tilraun var ekki að gera sig og bollurnar náðu aldrei flugi inn í ofni heldur minntu frekar á lummur. Ég hringdi í vin sem þóttist geta talað mig í gegnum næstu tilraun. Sú heppnaðist ekki heldur og í þetta skiptið erum við að tala um brenndar lummur sem minntu enn lítið á alvöru vatnsdeigsbollur. Þriðja tilraunin var svo skelfileg að ég fór að gráta og í fjórðu tilraun tók ég tryllinginn og hennti öllu draslinu í ruslið og tilkynnti að ég væri hætt. (Tek það reyndar fram að ég var komin fimm mánuði á leið…)

Vinkonur mínar voru harmi slegnar fyrir mína hönd en fannst þetta auðvitað fáránlega fyndið. Eiginmaðurinn kom í sömu andrá heim og var stöðvaður við innganginn og vinsamlegast beðinn um að spyrja ekki að því hvernig baksturinn gengi. Þess í stað lét hann sig hverfa.

Döpur í bragði reyndi ég að gleyma þeirri staðreynd að uppáhaldsdagurinn minn væri ónýtur og elskulegur sonur minn kæmi brátt heim úr skólanum og fengi engar bollur. Ó hvað hann yrði dapur, hugsaði ég með mér og varð ennþá daprari.

Einum og hálfum tíma seinna birtist eiginmaðurinn skyndilega með fullan bakka af nýbökuðum bollum. Hann hafði séð aumur á mér, greint ástandið sem lífshættulegt og farið niður í vinnu, hringt í mömmu sína og fengið nákvæmar leiðbeiningar hvernig baka ætti alvöru vatnsdeigsbollur.

Bolludegi var bjargað…

X