Loading

Börn undir sex mánaða eiga aldrei að drekka vatn

Börn yngri en sex mánaða ættu aldrei að fá vatn að drekka. Of mikil vatnsneysla getur stefnt lífi þeirra í hættu en vatnsdrykkjan getur valdið vatnseitrun (e. water intoxication.) Það eru læknar við John Hopkins barnaspítalann í Baltimore í Bandaríkjunum, sem jafnframt er einn virtasti barnaspítali heims sem vilja minna foreldara á þetta enda komi reglulega upp tilfelli sem að foreldrar átti sig seint og illa á einkennum eitrunarinnar. Eins sé foreldrum alla jafna sagt að vatnsdrykkja sé óæskileg en ekki af hverju.

„Ungabörn hafa mjög sterk viðbrögð við þorsta og þörf fyrir að drekka,” segir Dr. Jennifer Anders í viðtali við Reauters Health. „Þegar börn kalla eftir meiri vökva er gríðarlega mikilvægt að þau fái þá brjóstamjólk eða þurrjólkina sem þau eru vön.”

Ástæðuna má rekja til þess að nýru ungbarna eru enn óþroskuð þannig að of mikið vatn veldur því að líkaminn losar of mikið af sódíum ásamt umfram vatninu, að sögn Anders. Sódíum tap getur haft áhrif á heilastarfssemina þannig að fyrstu einkenni vatnseitrunar eru oft óróleiki, sljógvi eða breytingar á lundarfari. Önnur einkenni eru lækkaður líkamshiti (36 gráður eða lægri), þroti eða bólgur í andliti og krampaköst.

„Þetta eru lúmsk einkenni,” segir Anders. „Fyrstu einkenni eru svo hversdagsleg að oft eru það fyrst krampaköstin sem foreldrar taka eftir en sé barninu komið undir læknishendur ættu köstin ekki að hafa varanleg áhrif,” bætti Anders við.

Vatnsdrykkju ætti því aldrei að vera í boði fyrir börn yngri en sex mánaða, samkvæmt Anders og starfsfélögum hennar. Foreldrar ættu líka að forðast að nota of þynnta blöndu af þurrmjólk eða barnadrykki sem innihalda jónaefni (e. elecrolytes) sem finna má í mörgum barnadrykkjum ætluðum veikum börnum og íþróttadrykkjum.

Í lagi sé að gefa eldri börnum vatn í litlu magni en gott sé að ráðfæra sig við lækni áður eða bara fara varlega og vera meðvitaður um einkenni vatnseitrunar.

X